Ég hef ákveðið að gefa kost á mér til áframhaldandi stjórnarsetu í stjórn Viðreisnar.
Ég hef setið í stjórninni síðan haustið 2020. Megnið af þeim tíma einkenndist af Covid sem var hjá okkur eins og öðrum gríðarleg áskorun. Hægt og bítandi höfum við verið að vinna okkur í átt til betra horfs og vil ég að við leggjum enn meiri áherslu á að virkja sem flesta til þátttöku.
Ég gekk til liðs við Viðreisn 2018 og hef verið virkur þátttakandi í starfinu okkar síðan þá.
Ég tók þátt í því að koma Viðreisn í Mosfellsbæ á laggirnar. Ég sá um kosningastjórn í sveitarstjórnarkosningunum 2018 og var formaður Viðreisnar í Mosfellsbæ 2018-2022. Í Mosfellsbæ hef ég setið fyrir hönd Viðreisnar í menningar- og nýsköpunarnefnd 2018-2019 og frá 2019 í fræðslunefnd. Frá þingkosningum 2021 hef ég svo verið varaþingmaður okkar í Suðvesturkjördæmi.
Mér þykir ómetanlegt að taka þátt í starfi Viðreisnar og er þakklát fyrir að tilheyra stórum hópi fólks sem er lausnarmiðað, velur almannahagsmuni fram yfir sérhagsmuni, eru framsækin en ekki föst í gamaldags pólitík og þora að gera breytingar til þess að bæta þann heim sem við lifum í.
Ég er 34 ára, á tvö börn og bý með manninum mínum í Mosfellsbæ. Ég er rekstrarverkfræðingur með MSc frá Háskólanum í Reykjavík og starfa hjá Isavia ANS sem verkefnastjóri. Ég hef alltaf verið virkur þátttakandi félagsstarfi og hef setið í stjórnum flestra foreldrafélaga og starfsmannafélaga sem hafa orðið á vegi mínum. Ég er stolt af því að hafa tekið þátt í að að stofna ungliðahreyfinguna FKA Framtíð sem er deild innan Félags kvenna í atvinnulífinu. Þar sat ég í stjórn í 3 ár, þar af 1 sem formaður.
Nú er rétti tíminn fyrir Viðreisn! Okkar áherslur hafa aldrei átt betur við. Aukum frelsi, losum okkur við gjaldmiðilinn sem heldur okkur niðri, höldum áfram í viðræður við Evrópusambandið, látum kerfin vinna með fólki en ekki á móti því.
Ég vil leggja mitt af mörkum til þess að Viðreisn vaxi og dafni og tel mig get styrkt starfið með því að koma að borðinu með reynslu, dugnað og ástríðu fyrir skipulagi!