Framboð til embætta á landsþingi

Til formanns

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir

Til varaformanns

Daði Már
Kristófersson

Til ritara

Sigmar
Guðmundsson

Til meðstjórnanda

Elín Anna Gísladóttir

Ég gef kost á mér til áframhaldandi stjórnarsetu í stjórn Viðreisnar.

 

Frá 2020 hef ég setið í stjórn flokksins og tekið þátt í tveimur alþingis- og tveimur sveitarstjórnarkosningum. Við höfum unnið okkur út úr krefjandi rekstrarárum og nú blasir við tækifæri til að virkja fleiri til þátttöku í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga. Það verður stærsta verkefni okkar næstu misseri og tækifæri til að styrkja stöðu Viðreisnar um allt land.

 

Ég gekk til liðs við Viðreisn 2018. Ég var stofnfélagi í Mosfellsbæ, leiddi kosningabaráttuna sama ár og hef ég starfað í stjórn Viðreisnar í Mosfellsbæ síðan auk þess að vera 1. varaþingmaður  Kragans á síðasta kjörtímabili. Viðreisn er flokkur sem setur lausnir og almannahagsmuni í forgang. Skýr markmið í Evrópumálum og sterkur grunnur í núverandi ríkisstjórn eru styrkleikar okkar. Til að tryggja áframhaldandi vöxt er lykilatriði að ná árangri í sveitarstjórnum, þar sem stefna flokksins getur haft sýnileg áhrif á daglegt líf fólks.

 

Ég er 37 ára rekstrarverkfræðingur og starfa sem deildarstjóri hjá Isavia. Ég hef víðtæka reynslu úr félagsstörfum, m.a. sem stofnandi og fyrrverandi formaður ungliðahreyfingar FKA Framtíð. Ég býð fram reynslu frá síðustu árum í stjórn, skipulagshæfni og ástríðu til að styrkja starfið enn frekar.

Berglind Guðmundsdóttir

Berglind Guðmundsdóttir heiti ég og býð mig fram til stjórnar Viðreisnar.

 

Pólitískur áhugi minn kviknaði ekki fyrr en nýverið, en þegar hann kviknaði, þá kviknaði hann fyrir alvöru. Ég hef síðan þá mætt á fjölmarga viðburði og tekið virkan þátt í starfi flokksins. Ég sit nú í stjórn Viðreisnar í Reykjavík og finnst Alþingisrásin hin mesta skemmtun 🥰

 

Ég er fjögurra barna móðir, menntaður hjúkrunarfræðingur og starfa hjá Auðnast, í símaráðgjöf 1700, leiði saunur í Litla Saunahúsinu, er fararstjóri erlendis og sinni Lífsgleðinni á Instagram. Ég nefni þessi fjölbreyttu störf ekki til að „flexa“ heldur til að undirstrika þá staðreynd að það er nánast ómögulegt að lifa á einu launum á Íslandi í dag. Afkomukvíðinn er raunverulegur.

 

Mér þykir einstaklega vænt um Viðreisn og má segja að þau kynni hafi verið ást við fyrsta hitting (partý!). Ég er stolt af því sem við höfum áorkað og fyrir hvað við stöndum. Hjá Viðreisn er gott fólk og samstilltur hópur og mín upplifun er að hér er kærleikurinn hafður að leiðarljósi í öllu sem við gerum. Það skiptir máli 🙏

 

Ég býð fram krafta mína í stjórn til að halda áfram að efla og stækka flokkinn.

Áfram Við!

Helgi Snær Ómarsson

Helgi Snær Ómarsson heiti ég og býð mig fram til stjórnar Viðreisnar. 

Ég býð mig fram til stjórnar Viðreisnar því ég hef mikinn metnað fyrir flokkinn, við eigum mikið inni þegar kemur að því að stækka. Ég hef verið virkur í grasrótinni og aktívt recruitað öfluga einstaklinga til okkar. 

Nú vil ég setja krafta mína í stjórn Viðreisnar, koma með ferskan andvara, sterkt innsæi og spyrja erfiðu spurninganna sem skipta máli fyrir okkur. Ég sé mikil tækifæri í framtíð flokksins og það er mikilvægt að nýta tækifærið, sem er núna. 

Við verðum að halda í gildi okkar sem ábyrgur, frjálslyndur og skemmtilegur flokkur. Vera óhrædd við að hugsa hlutina á ferskan hátt og halda áfram að laða að okkur fólk sem er óhrætt við breytingar. 

Í stjórn Viðreisnar vil ég leggja áherslu á grasrótarstarfið, stækka og styrkja flokkinn. 

Málefni sem að skipta mig máli eru andleg heilsa, réttlæti og velferð. 

Er heilsumarkþjálfi frá Institute for Integrative Nutrion í New York. Þar er lögð áhersla heildræna nálgun á markþjálfun. Til marks um áhuga minn á andlegri heilsu þá var ég með hlaðvarp í 7 ár þar sem málefni tengd andlegri heilsu voru krufin.

Bý með manninum mínum í Kópavogi ásamt hundinum okkar Noel. 

Vonast eftir þínum stuðning

Kram

Jón Bragi Gunnlaugsson

Ég Jón Bragi Gunnlaugsson, gef kost á mér til setu í stjórn Viðreisnar sem meðstjórnandi á Landsþingi í september 2025.

Lovísa Oktovía Eyvindsdóttir

Ég er 34 ára Akureyringur með rætur bæði í vestur og austur. Kem af verkafólki, bændum og leiguliðum en kaus sjálf að lifa lífsstíl eilífðarstúdents. Fjórða háskólagráðan mun vorið 2026 veita mér kennsluréttindi en áður en ég grúskað í stjórnmálafræði, fjölmiðlafræði og stjórnun. Ég starfa sem leiðbeinandi á unglingastigi í grunnskóla og sem þjálfari í heilsuræktarstöð. Á báðum þessum stöðum legg ég áherslu á jákvæða hvatningu, uppbyggileg samtöl og að byggja upp traust. Ég er móðir tveggja drengja og unnusta Örvars Samúelssonar sem opnaði faðm sinn fyrir mér fyrir 18 árum síðan og í ljósi þess hve lítið ég er heima að þá mun hann eflaust aldrei fá leið á mér. 

 

Á þeim nótum tilkynni ég hér með að ég býð mig fram í embætti meðstjórnanda í stjórn Viðreisnar. Viðreisn er flokkur landsins alls og til þess að halda áfram að byggja flokkinn upp í öllum landshlutum er mikilvægt að rödd dreifðari byggða fái að heyrast inn í hjarta flokksins. Það er mér hjartans mál að flokkurinn nýti öll möguleg tækifæri til þess að færa málefni og stefnu Viðreisnar til allra, óháð búsetu. Viðreisn er að fara inn í vaxtatímabil á landsbyggðunum og ég vil taka þátt í því uppbyggingarstarfi. Það er gert með beinum stuðningi en ekki síst skilningi á þeim hindrunum sem ólík sveitarfélög standa frammi fyrir í aðdraganda kosninga.

 

Ég hef ástríðu fyrir menntamálum, gervigreind og lýðheilsu. 

Oddgeir Páll Georgsson

Sæl kæru vinir,

Ég hef ákveðið að gefa kost á mér í stjórn Viðreisnar á komandi landsþingi.

 

Ég hef verið virkur í starfi Viðreisnar síðan ég mætti á minn fyrsta fund með Uppreisn árið 2018, laust eftir sveitastjórnarkosningar þar sem ég kaus Viðreisn í fyrsta sinn. Á þeim tíma hef ég gegnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir flokkinn, og sem stendur er ég í stjórn Uppreisnar og í stjórn Viðreisnar í Reykjavík.

 

Allan þennan tíma sem ég hef verið virkur í grasrótinni hef ég aldrei upplifað annan eins kraft og ég hef fundið alveg síðan í kosningabaráttunni í fyrra. Viðreisn er í sterkri stöðu til að efla og styrkja grasrótin til muna. Því  er mikilvægt að innan forystu flokksins sé fólk sem hafi skilning á því hvað það er sem undirfélög flokksins þurfa, og hafi reynslu af því að efla þau og að fá nýtt fólk inn í flokkinn.

 

Þess vegna tel ég mig vel í stakk búinn að sinna þessu verkefni. Ég hef reynsluna og þekkinguna á því hvernig það er að vinna undirfélögum flokksins, og ég hef drifkraftinn til þess að tryggja það að við nýtum þann meðbyr sem við höfum í að byggja upp öflugt net Viðreisnarfólks út um allt land.

 

Ég vona innilega að þið sýnið mér traust til setu í stjórn Viðreisnar,

Sigvaldi Einarsson

Kæru félagar,

Ég býð mig fram til stjórnar Viðreisnar á landsþingi 2025. Ég er stofnfélagi í Viðreisn og kom að stofnun félagsins í Kópavogi ásamt góðu fólki, þar sem ég var fyrsti formaður.

 

Ég er félagsmála- og grasrótarmaður að eðlisfari, vanur að taka frumkvæði og leiða. Í 25 ár starfaði ég fyrir HK og íþróttahreyfinguna, þar af tvívegis sem formaður knattspyrnudeildar. Fyrir þessi störf hef ég hlotið viðurkenningar frá HK, UMFÍ og KSÍ. Þessi reynsla hefur kennt mér mikilvægi samvinnu, skipulags og þess að hlusta á fólk – eiginleikar sem ég vil nýta áfram í þágu Viðreisnar.

 

Áherslur mínar byggja á þremur stoðum:

1 Lýðræði og aðkoma félagsmanna. Forystan er í umboði félagsfólksins. Ég vil efla aðkomu allra félaga að stefnumótun flokksins og tryggja að málefnaráð sé vettvangur grasrótarinnar.

2 Evrópusambandið og stöðugt hagkerfi. Aðild að ESB er eina raunhæfa leiðin til að Ísland verði hluti af myntbandalagi Evrópu og öðlist aðgang að Evrópska seðlabankanum.

3 Gervigreind og framtíð samfélagsins. Ég er nýútskrifaður með Executive MBA í rekstri fyrirtækja og stofnana í stafrænum heimi gervigreindar. Ég vil beita þeirri þekkingu til að byggja upp ábyrga innleiðingu gervigreindar og tryggja samkeppnishæfni Íslands.

 

Viðreisn stendur á traustum grunni – en framtíðin krefst hugrekkis, stefnu og framkvæmda.

Stefan Eagle Gilkersson

Mín stefna er efling heilbrigðismála, velferð barna og barnaráð, málefni  Ríkisendurskoðanda, sköpun nýrrar eftirlitsdeildar hjá Ríkisskattstjóra, stofnun nýs embættis  þjóðaröryggis Íslands varðandi áhættu aðgerðir Rússa.

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir

Ég hef gegnt hlutverki oddvita Viðreisnar hjá borginni síðastliðin átta ár og ég hef mikinn áhuga á að starfa áfram við forystu flokksins.

 

Það hefur verið mér mikill heiður og ánægja að starfa fyrir flokkinn. Á þessum tíma hef ég átt ómetanlegt samstarf við grasrótina, tekið þátt í stefnumótun og lagt mig fram um að efla samstöðu og framtíðarsýn flokksins. Ég er hvergi nærri hætt í starfinu, því áhugi minn á að leggja mitt af mörkum til forystu og framtíðaruppbyggingar Viðreisnar er óbreyttur. 

 

Áður en ég sneri mér að borgarmálum gegndi ég forystuhlutverki í íslensku atvinnulífi, í opinbera geiranum og innan háskólasamfélagsins. Ég vil nýta þá reynslu, ásamt víðtæku og sterku tengslaneti og óbilandi trú á mátt samvinnu til áframhaldandi starfa til að efla og styrkja flokkinn. 

 

Ég vil leggja mitt að mörkum til að efla áhrif Viðreisnar í samfélaginu og standa vörð um þau gildi sem við deilum og okkur eru öllum svo kær. Ég óska eftir stuðningi ykkar til setu í stjórn flokksins og hlakka til að vinna áfram með ykkur að styrkari og öflugri Viðreisn til framtíðar.

Þórey S. Þórisdóttir

Frá árinu 2016 hef ég tekið virkan þátt í starfi Viðreisnar, meðal annars sem stofnandi og formaður félags Viðreisnar í Hafnarfirði og sem fulltrúi í umhverfis- og framkvæmdaráði Hafnarfjarðar. Félagsstörf hafa lengi verið mér hugleikin og ég hef einnig setið í stjórn Neytendasamtakanna, Rarik og viðskiptanefnd FKA, auk þess að reka fyrirtæki á sviði ráðgjafar og jarðvinnu. Þá starfaði ég sem verkefnastjóri við alþjóðlega ráðstefnu sem haldin var á Íslandi 2025 á sviði sjálfbærni og sjálfbærra viðskiptalíkana.

 

Ég lauk doktorsprófi frá Háskóla Íslands árið 2025 með áherslu á sjálfbærni og samfélagslega ábyrgð og kenni nú við bæði Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík. Rannsóknir mínar fjalla um sjálfbær viðskiptalíkön, umhverfisstjórnun og þátttöku hagaðila við að efla samfélagslega ábyrgð.

 

Reynsla mín úr atvinnulífinu, kennslu og rannsóknum hafa kennt mér að árangur byggir á samvinnu og skýrri sýn. Mig langar að nýta þessa reynslu til að efla starf flokksins, þar sem fagmennska, gagnsæi og lausnir sem byggja á þörfum samfélagsins eru í forgrunni.

 

 

Þröstur V. Söring

Það hefur verið mér heiður að vera treyst fyrir ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Viðreisn síðastliðin misseri. Í þeim störfum hef ég hrifist að af þeim krafti, vinnusemi, metnaði og ekki síst gleði sem einkennir innra starf flokksins og kjörinna fulltrúa hans.

 

Ég brenn fyrir því að styrkja stöðu Viðreisnar sem flokks sem stendur fyrir frjálslyndi, jafnrétti, ábyrgri hagstjórn og sjálfbærni. Ég býð mig fram í stjórn Viðreisnar vegna þess að ég vil nýta reynslu mína úr atvinnulífinu og félagsstörfum til að hjálpa til við að efla innra starf flokksins og á sama tíma að styðja kjörna fulltrúa á vegferð þeirra til þess að skapa sanngjarnt og réttlátt samfélag þar sem almannhagsmunir ganga framar sérhagsmunum.

 

Ég hef í starfi mínu fengið að leiða umfangsmikil innviðaverkefni um allt land og þar sem ég hef öðlast dýrmæta reynslu af stjórnun, stefnumótun og rekstri. Þessi störf hafa kennt mér að vinna markvisst að sameiginlegum markmiðum, leiða breytingar og finna lausnir á flóknum áskorunum.

 

Mér finnst mikilvægt að við höldum fast í þá menningu að flokksfélagar finni að rödd þeirra heyrist og að stjórnin vinni í nánu samstarfi við grasrótina. Ég trúi á málefnalega umræðu, skýra framtíðarsýn og lausnir sem byggja á rökum.

Til málefnaráðs

Arnór Heiðarsson

Ég heiti Arnór Heiðarsson og er 38 ára Hafnfirðingur sem býr í Ártúninu í Reykjavík. Ég á konu sem starfar sem félagsráðgjafi hjá Reykjavíkurborg og tvö börn sem ganga í Ártúnsskóla. Ég vann í skólakerfinu í 13 ár sem kennari og síðar stjórnandi og hef mikinn áhuga á öllu sem tengist menntamálum. Í dag starfa ég sem forstöðumaður þjónustu fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd og hef öðlast töluverða reynslu í málefnum innflytjenda í því starfi. Ég hef mikinn áhuga á allri pólitískri umræðu og hef gaman af því að koma mér inn í flókin samfélagsleg málefni. Það væri mikill heiður að fá að taka þátt í málefnavinnu fyrir Viðreisn

Bjarki Fjalar Guðjónsson

Evrópumálin eru rauður þráður í allri minni stjórnmálaþátttöku. Ég er staðfastur í þeirri einlægu trú að hagsmunum lands og þjóðar sé best borgið innan vébanda Evrópusambandsins. Þjóð meðal þjóða sem beitir fullveldi sínu í samstarfi við bandalagsríki. Af þeim sökum taldi ég mér ekki stætt á öðru en að endurvekja starfsemi ungra Evrópusinna nú í sumar, en ég gegni nú formennsku í félaginu. Þar áður gengdi ég embætti forseta alþjóðastjórnar ELSA – evrópsku laganemasamtakanna. Þar hafði ég á hendi yfirumsjón með hagsmunastarfi og stefnumótun samtakanna á heimsvísu, sem telja um 70.000 laganema í 43 löndum. Ég hef því djúptæka reynslu af því að miðla málum milli ólíkra hópa fólks af margvíslegum uppruna, sem greinir á um pólitísk málefni, en starfa engu að síður á grundvelli sameiginlegra gilda að sýn um réttlátan heim, þar sem borin er virðing fyrir mannlegri reisn og menningarlegum fjölbreytileika.

Ef ég hlýt umboð Viðreisnarliða til setu í málefnaráði mun ég leggja áherslu á samþætta, heildstæða stefnu um málefni ungs fólks, aðild að Evrópusambandinu og virka þátttöku Íslands í alþjóðasamstarfi á vettvangi mannréttinda-, menningar-, öryggis- og varnarmála. Öðru fremur mun ég þó kappkosta að eiga í samráði við hina öflugu og atorkusömu grasrót sem knýr Viðreisn áfram til góðra verka.

Eyþór Eðvarsson

Ég heiti Eyþór Eðvarðsson og býð mig fram í málefnaráðið.

Elírós Kjaran Zar

Ég heiti Elírós Kjaran Zar og er 29 ára vestfirðingur. 

Ég er gift og á tvær stelpur sem eru þriggja ára og 4 mánaða. Ég er búsett á Akranesi en er Vestfirðingur í húð og hár. Ég hef setið í stjórn Norðvesturráðs Viðreisnar síðan í Mars.

Að vel ígrunduð máli hef ég komist að þeirri niðurstöðu að bjóða mig fram til setu í Málefnaráð.

Ég er ekki með neinar háskólagráður eða flotta menntun til að veifa. Ég hef aftur á móti lært þó nokkuð mikið af lífinu og fjölbreyttum störfum í öllum landshlutum (að Snæfellsnesinu frá töldu). Ég þekki þar af leiðandi landsbyggðina mjög vel og tel að þar eigum við sóknarfæri. 

Í dag starfa ég sem vörubifreiðarstjóri hjá ÞÞÞ á Akranesi en áður starfaði ég í malbiks geiranum.

Ég brenn fyrir tilverurétti allra, bættum samgöngum/vegaöryggi og geðheilbrigðisþjónustu.

Ég vona að ég geti treyst á þitt atkvæði.

Darri Gunnarsson

Ég heiti Darri Gunnarsson. Ég er vélaverkfræðingur og hef starfað í sjávarútvegi, nýsköpunar- og tæknifyrirtækjum. Ég hef áhuga á og vil vinna að friði,  frjálsu og öflugu atvinnulífi, náttúruvernd og velferð dýra. 

 

Ég gef kost á mér í Málefnaráð.

Drífa Sigurðardóttir

Ég er menntaður stjórnmálafræðingur með M.Sc.-gráðu frá Strathclyde University í Glasgow. Ég hef starfað sem mannauðsstjóri eða ráðgjafi í mannauðsmálum frá árinu 1997 og síðustu átta ár hjá Attentus, ráðgjafafyrirtæki, þar áður 9 ár hjá Mannviti verkfræðistofu. Auk aðalstarfa hef ég fengið tækifæri til að sinna ýmsum öðrum ábyrgðarstörfum. Ég var formaður tilnefningarnefndar hjá Eik fasteignafélagi í sex ár og sat í stjórn lífeyrissjóðsins Birtu á árunum 2013–2018. Þá tók ég þátt í stofnun Mannauðs – félags mannauðsstjóra – og sat þar í stjórn í fimm ár.

 

Ég hef brennandi áhuga á stjórnmálum og samfélagsmálum, þó ég hafi ekki tekið virkan þátt í stjórnmálastarfi fyrr en fyrr en 2021. Ég tók þátt í starfi Viðreisnar fyrir kosningarnar 2021 og hellti mér svo út í starfið fyrir kosningarnar 2024. Ég leiddi málefnahóp Viðreisnar um jafnréttismál núna fyrir landsþingið, verkefni sem ég hafði mjög gaman af. Ég brenn fyrir fjölmörgum málum, en Evrópumál, efnahagsmál og jafnréttismál eru mér sérstaklega hugleikin.

 

Í mínum huga er mikilvægt að til staðar sé öflug grasrót hjá flokki eins og Viðreisn, þar sem einstaklingar með ólíkan bakgrunn og styrkleika starfa saman að því að gera flokksstarfið bæði öflugra og skemmtilegt. Ef ég hlýt umboð til setu í málefnaráði mun ég leggja mitt af mörkum til að efla enn frekar grasrótina í Viðreisn.

Elín Guðnadóttir

Ég er menntuð  sem landfræðingur frá HÍ með MA gráðu í umhverfis og þróunarfræðum frá King’s College (London) og MSc í stefnumótun matvælakerfa frá City University  (London). Ég hef yfir 20 ára reynslu í að vinna með ólíkum hópum samfélagsins að atvinnuþróun og  skipulags-  og  umhverfismálum. Ég hef unnið að stefnumótun í þessum málaflokkum bæði á landsvísu og á sveitastjórnarstigi, lengst af í Englandi en núna síðustu 7 árin á Íslandi.  Fyrir utan málefni líðandi stundar þá hef ég mikinn áhuga á útivist, bókmenntum og að elda góðan mat fyrir fjölskyldu og vini. 

 

Ég hef fulla trú á því að hagsmunum Íslands sé best borgið innan Evrópusambandsins og að samkeppnishæfni landsins felist í því að hér sé opið og sterkt hagkerfi. Ég hef gaman að því að vinna í góðu teymi og að góðum málstað og vil leggja mitt að mörkum. Því býð ég mig fram í málefnaráð Viðreisnar.

Hákon Skúlason

Ég býð mig fram til setu í málefnaráði Viðreisnar. Ég er með BA-próf í almennri bókmenntafræði frá Háskóla Íslands og MBA-gráðu í stjórnun frá Háskólanum í Reykjavík. Starfsferill minn hefur lengst af tengst orkumálum og nýsköpun, þar sem ég hef meðal annars komið að verkefnum tengdum jarðvarmavirkjunum og sölu þeirra til ríkisorkufyrirtækisins KenGen í Kenía, þar sem þær eru enn í notkun. Síðustu átta ár hef ég stýrt Símstöðinni ehf., sem styður góðgerðarfélög og fyrirtæki í fjáröflun og sölu. Ég er 6. varaþingmaður í Reykjavíkurkjördæmi norður, sit í stjórn Viðreisnar í Reykjavík og í stjórn Rauða krossins á höfuðborgarsvæðinu. Reynslan af atvinnulífi, félagsstörfum og stjórnmálum mun nýtast mér vel í starfi málefnaráðs ef mér verður sýnt það traust.  

Jóhanna Pálsdóttir

Ég er Húsvíkingur að uppruna, 56 ára íslenskukennari, gift þriggja barna móðir og amma á Kársnesinu. Ég stunda nú framhaldsnám í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands.

 

Ég hef verið kennari í tæpan aldarfjórðung, kennt við þrjá íslenska grunnskóla og alþjóðlegan skóla í London. Þessi reynsla hefur gefið mér dýrmæta innsýn í skólakerfið og þann vanda sem ríki og sveitarfélög standa frammi fyrir í menntamálum. Ég hef lengi bent á mikilvægi þess að efla móttöku nýbúa og tryggja öfluga íslenskukennslu fyrir fólk af erlendum uppruna og flóttafólk.

 

Ég brenn fyrir menntamálum og barnaverndarmálum, en einnig heilbrigðis- og velferðarmálum. Ég vil standa vörð um rétt barna og fólks í fíknivanda, aldraðra, fatlaðs fólks og öryrkja.

 

Ég tel jafnrétti vera grundvallargildi. Ég vil efla forvarnir og fræðslu á öllum sviðum samfélagsins, þar á meðal um málefni hinsegin fólks. Ég styð fjölbreytt rekstrarform í heilbrigðisþjónustu sem auka valfrelsi einstaklinga og gera þjónustuna skilvirkari.

 

Ég hef verið í stjórn Viðreisnar í Kópavogi frá 2018, setið í leikskólanefnd fyrir hōnd flokksins frá 2020 og var í 3. sæti á framboðslista flokksins í síðustu sveitarstjórnarkosningum. 

Ég er sannfærður Evrópusinni: Ísland á að ganga í Evrópusambandið til að tryggja stöðugleika, styrkja samvinnu við nágrannaþjóðir og byggja upp betri framtíð fyrir komandi kynslóðir.

Kamma Thordarson

Þau málefni sem ég brenn fyrir eru loftslagsmál, innganga í Evrópusambandið og að tryggja fólki jöfn tækifæri.

 

Fái ég kjör til málefnaráðs mun ég tala fyrir því að Viðreisn taki loftslagsmarkmið alvarlega, styðji við uppbyggingu borgarlínu, styðji við hugvitsdrifna atvinnuþróun og vinni markvisst að því að kynna kosti ESB innanlands. Ég hef mikla reynslu af markaðssetningu og einlæga trú á samvinnu. Auk þess er ég stoltur loftslagsaktivisti og þriggja barna móðir.

 

Ég hef víðtæka starfsreynslu, sem stendur er ég verkefnastjóri atvinnuþróunar á skrifstofu borgarstjóra og borgarritara. Ég er formaður stjórnar Meet in Reykjavík, stjórnarmaður í Reykjavik Science City og varamaður í stjórn Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands. Áður vann ég hjá Íslandsstofu að því að auka útflutning á grænum lausnum frá Íslandi undir merkjum Green by Iceland. Ég er stjórnmálafræðingur að mennt, útskrifuð frá Sciences Po Paris, sérfræðingur í orkuskiptum landa.

 

Ég hef gegnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir flokkinn undanfarin ár, sem varamaður í stjórn Viðreisnar (23-25) og stjórnarmaður í Viðreisn í Reykjavík (21-23). Þá var ég fulltrúi Viðreisnar í Sjálfbært Ísland vinnuhópnum (22-24) og er núna varamaður í stjórn RÚV.

 

Ég er jákvæð að eðlisfari og mun mæta á fundi og taka virkan þátt í starfinu. Stjórnmálastarf getur verið stórskemmtilegt!

Tinna Borg Arnfinnsdóttir

Ég heiti Tinna Borg Arnfinnsdóttir Kópavogsmær, en nú gift 3 barna móðir í Garðabænum. 

 

Ég er með master í reikningshaldi og endurskoðun frá Háskólanum í Reykavík og starfa sem sérfræðingur í innri endurskoðun hjá alþjóðlegu lyfjafyrirtæki. Þar vinn ég að því að tryggja trausta stjórnarhætti, gagnsæi og skilvirkni í innri ferlum, með áherslu á áhættustýringu og umbætur.

 

Ég hef setið í stjórn Viðreisnar í Garðabæ síðan 2022 og tók við formennsku stjórnar ári síðar. Mér finnst tími til kominn að stíga útúr bæjarfélaginu og taka þátt í starfinu í breiðara samhengi.

Ég hef brennandi áhuga á málefnum sem snerta velferð fjölskyldna, heilbrigði og jafnrétti og ég trúi því að stefna eigi að lausnamiðaðri og mannúðlegri nálgun í allri stefnumótun. Ég legg áherslu á að málefnastarf sé gagnrýnið, gagnadrifið og byggt á reynslu og síðast en ekki síst samtali. 

Með framboði mínu til málefnaráðs Viðreisnar vil ég leggja mitt af mörkum til að styrkja stefnu Viðreisnar með ábyrgri, framsýnni og málefnalegri nálgun. 

Urður Arna Ómarsdóttir

Um mig: Ég er 39 ára, gift, tveggja barna móðir búsett á Seyðisfirði. Hef búið á Austurlandi mest allt mitt líf. Fæddist á Egilsstöðum, bjó á Djúpavogi fyrstu 12 ár ævinnar þar sem var dásamlegt að alast upp í frelsi náttúrunnar. Ég starfa í dag sem aðstoðarleikstjórastjóri við Seyðisfjarðarskóla, leikskóladeild. Ég er einnig meðstjórnandi í Norðausturráði Viðreisnar og varamaður í stjórn Viðreisnar í Múlaþingi.

 

Afhverju á fólk að kjósa mig: Ég tel það mjög nauðsynlegt að það sé verðugur fulltrúi landsbyggðarinnar í málefnaráði og er ég tilbúin til þess að taka það verkefni að mér. Fulltrúi sem veit hvernig það er að búa við ótryggar samgöngur og þjónustuskort sem aðrir telja sjálfsagðan. Ég er drífandi, hef sterkar skoðanir á þeim málefnum sem ég trúi á, vil bæta samfélagið mitt og landið allt til hiðs betra, að hlutir sem slíkir séu gerðir vel, brenn fyrir málefnum barna og unglinga og trúi því að ég sé góður og gildur meðlimur í málefnaráði Viðreisnar.

Til alþjóðafulltrúa

Auðunn Arnórsson

Ég gef hér með kost á mér í embætti alþjóðafulltrúa Viðreisnar (með fyrirvara um að stofnun þess verði samþykkt á landsþingi). 

 

Ég er sérfróður um alþjóðamál, hef háskólagráður á því sviði (og í tengdum greinum) frá Þýskalandi, Belgíu og HÍ, kenni alþjóðastjórnmál í HÍ, sinnti um árabil skrifum um erlend stjórnmál í stærstu dagblöð landsins og fylgist almennt vel með þróun alþjóðamála, sérstaklega evrópskra stjórnmála. Ég leyfi mér því að fullyrða að hæfari manneskja í hlutverk alþjóðafulltrúa Viðreisnar sé vandfundin. 

 

Ég hef verið virkur félagi í Viðreisn frá árinu 2019, þar sem fram að því var ég í vinnu sem útilokaði virka þátttöku í stjórnmálastarfi, hef þó verið stuðningsmaður flokksins alveg frá stofnun enda fannst mér allt frá því að stefndi í stofnun hans að þar væri loksins kominn fram flokkur sem ég ætti heils hugar samleið með. Og það finnst mér ennþá. 

Ég átti sæti í kosningastjórn Viðreisnar fyrir þingkosningarnar 2021, sit í stjórn Viðreisnar í Hafnarfirði (síðan 2023) og hef tekið virkan þátt í  stefnumótunarstarfi flokksins frá því ég gekk í hann, ekki síst á sviði utanríkis- og Evrópumála en einnig á fleiri sviðum s.s. loftslags- og efnahagsmála. 

Meðal annarra trúnaðarstarfa sem ég gegni um þessar mundir er stjórnarformennska í ReykjavíkurAkademíunni ses., varaformennska í Félagi stjórnmálafræðinga og nefndastörf fyrir Blaðamannafélagið. 

Natan Kolbeinsson

Natan Kolbeinsson heiti ég gef kost á mér í embætti alþjóðafulltrúa Viðreisnar.

 

Ég er 32 ára og hef setið í stjórn flokksins frá síðasta landsþingi auk þess að vera formaður Viðreisnar í Reykjavík. Ég gef kost á mér því ég hef séð mikilvægi þess að Viðreisn sé í sterku og öflugu alþjóðastarfi. Síðustu kosningar voru að miklu leyti byggðar á reynslu systur flokka okkar í Evrópu að læra af þeim hvað virkar og hvað ekki svo það er mikilvægt að halda áfram að byggja upp þessi sambönd fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar.

 

Ég er ekki nýgræðingur í alþjóðastarfi þar sem ég hef átt sæti í forsætisnefnd Norðurlandaráði æskunnar og þar með áheyrnaraðild að Norðurlandaráði þar sem ég sat í umhverfis og sjálfbærninefnd. Ég hef þar að auki ferðast erlendis til að aðstoða systur flokk okkar Liberal Democrats í kosningabaráttu sinni árið 2017 og svo mætti ég á landsþing þeirra 2019.

 

Ég vona innilega að þið sýnið mér traust til að gegna þessu mikilvæga embætti innan flokksins og lofa ég því að standa mig í að halda öllum flokknum stjórn, þingflokki og grasrót vel upplýstum.

 

Ykkar vinur og félagi,
Natan Kolbeinsson

Stefan Eagle Gilkersson

Mín stefna er efling heilbrigðismála, velferð barna og barnaráð, málefni  Ríkisendurskoðanda, sköpun nýrrar eftirlitsdeildar hjá Ríkisskattstjóra, stofnun nýs embættis  þjóðaröryggis Íslands varðandi áhættu aðgerðir Rússa.