Atvinnumál

Samkeppnishæft atvinnulíf, traustir innviðir og fyrirsjáanlegt regluverk eru forsenda fjölbreyttra starfa, aukinnar verðmætasköpunar og sanngjarns verðlags fyrir neytendur. Með opnu hagkerfi, nýsköpun og virku samkeppniseftirliti skapast heilbrigt umhverfi þar sem fyrirtæki vaxa, störfum fjölgar og neytendur njóta ávinnings. Sjálfbær nýting auðlinda, jöfn tækifæri um land allt og sterk alþjóðatenging tryggja áframhaldandi hagsæld og lífsgæði.

  • Traust umhverfi fyrir öflugt atvinnulíf
  • Sjálfbær nýting náttúruauðlinda
  • Fjölbreytt störf um allt land
  • Nýsköpun og rannsóknir eru forsenda framfara

Landsþing 21. september 2025


Traust umhverfi fyrir öflugt atvinnulíf


Móta skal atvinnustefnu fyrir Ísland, til að stuðla að sjálfbærum vexti atvinnugreina, aukinni framleiðni og heilbrigðum vinnumarkaði. Stjórnvöld skulu búa fyrirtækjum hagstæð rekstrarskilyrði. Skoða skal fækkun þjónustu- og eftirlitsstofnana og leitast við að hafa leyfisveitingar og eftirlit á vegum hins opinbera sem skilvirkast og minnst íþyngjandi.


Frjáls samkeppni er best til þess fallin að tryggja neytendum fjölbreytt úrval vöru, góða þjónustu og sanngjarnt verð. Samkeppnislög skulu taka til allra atvinnugreina. Einu afskipti ríkisins af samkeppnismarkaði ættu að vera virkt samkeppniseftirlit og öflug neytendavernd. Ríkið á ekki að starfa á smásölumarkaði, s.s. áfengismarkaði, sölu á þjónustu eða að vörudreifingu.


Upptaka evru, frjáls aðgangur að erlendum mörkuðum og skilvirkt regluverk er forsenda samkeppnishæfs atvinnulífs. Sprotafyrirtæki treysta á fjármagn frá erlendum fjárfestum sem hika við að fjárfesta í krónuhagkerfi. Vinna skal að því að lækka viðskiptakostnað, auka stöðugleika og gera íslenskt atvinnulíf meira aðlaðandi fyrir nýsköpunarfyrirtæki og alþjóðlega starfsemi.

Árangur atvinnulífs byggir á hæfu fólki. Mikilvægt er að tryggja að menntun erlendis sé rétt metin hér á landi, þannig að fagfólk geti nýst sem best. Viðreisn vill skapa umhverfi sem laðar að sér sérfræðinga, bæði íslenska og erlenda, og tryggir varanleg störf með miklum virðisauka.

 

Sjálfbær nýting náttúruauðlinda

 

Auðlindir Íslands eru sameign þjóðarinnar og nýting þeirra þarf að vera bæði sjálfbær og arðsöm. Greiða skal sanngjörn afnotagjöld af sameiginlegum auðlindum sem endurspegla raunverulegt verðmæti aðgangsins og hlutdeild aðgangsheimildar. Hluti auðlindagjalda skal renna til nærsamfélaga.


Bláa hagkerfið

Sjávarútvegur er ein helsta stoð hagkerfisins. Nýting auðlindarinnar þarf að vera í sátt við náttúruna og arðurinn að nýtast samfélaginu öllu. Samhliða þarf að styðja við nýsköpun og tæknivæðingu í vinnslu og auka verðmætasköpun innanlands. Viðreisn leggur áherslu á dreift eignarhald í sjávarútvegi og aukið gagnsæi.


Grundvallarhlutverk fiskveiðistjórnunarkerfis er að koma í veg fyrir ofveiði og tryggja sjálfbæra nýtingu auðlindarinnar. Því hlutverki sinnir kvótakerfið vel. Viðreisn fagnar leiðréttingu veiðigjalda þar sem veiðigjaldið endurspeglar nú raunverulegt virði auðlindarinnar. Núgildandi innheimta veiðigjalda er hins vegar of flókin og ógagnsæ. Viðreisn vill að í stað veiðigjalds verði ákveðinn hluti kvótans settur árlega á markað og boðinn út sem nýtingarsamningur til 20 ára. Með því yrði pólitískri óvissu eytt, fyrirsjáanleiki greinarinnar aukinn og eignarhald þjóðarinnar á auðlindinni staðfest.

Lagareldi hefur mikinn vaxtarþrótt og getur skapað fjölbreytt störf um land allt en mikilvægt er að setja greininni skýrari lagaumgjörð m.a. með tilliti til umhverfisáhrifa. Lokaðar kvíar, landeldi seiða og nýting úrgangs eru lykilatriði í því að lágmarka neikvæð áhrif á vistkerfi, tryggja dýravelferð og byggja upp bláa hagkerfið til framtíðar. Viðreisn styður aðra ræktun í sjó, svo sem skelrækt og þararæktun. Koma þarf á skýru regluverki og skilvirku eftirliti í kringum slíka starfsemi með sjálfbærni og arðsemi í huga.

 

Landbúnaður

Viðreisn vill styðja við fjölbreytni, nýsköpun og kynslóðaskipti í landbúnaði. Endurskoða þarf styrkjakerfi landbúnaðar og auðvelda bændum framleiðslu í sátt við umhverfið. Draga þarf úr miðstýringu og framleiðslutengdum stuðningi og gefa bændum meira frelsi til að þróa eigin afurðir og verðleggja þær. Þannig má efla samkeppni, fjölbreytni í framboði og tryggja að neytendur njóti ávinningsins í formi betra aðgengis og sanngjarns verðs.Endurskoða þarf reglulega áhrif tolla á frjáls viðskipti og matvælaverð.


Gera þarf styrkjakerfi landbúnaðar umhverfismiðaðra en núverandi kerfi. Því ætti að styðja sérstaklega við rekstur sem stuðlar að bindingu kolefnis og dregur úr losun gróðurhúsalofttegunda frá landi, t.d. með skógrækt, endurheimt votlendis og hnignaðs mólendis. Takmarka þarf beit á viðkvæmum gróðursvæðum.

 

Eftirlit með matvælaframleiðslu þarf að gera skilvirkara í því skyni að styðja við aukna dýravelferð, frelsi matvælaframleiðenda, frumkvöðlastarf innan matvælaframleiðslu og nýsköpun ásamt öðru lögbundnu eftirliti.


Ferðaþjónusta

Ferðaþjónustan er orðin ein af burðarstoðum íslensks atvinnulífs og þarf að þróast í sátt við samfélag og náttúru. Uppbygging ferðaþjónustunnar verður að byggja á rannsóknum, gögnum og samvinnu við hagaðila. Fjárfesting í innviðum, samgöngum og menntun er lykill að sjálfbærni greinarinnar og tryggir að ferðaþjónustan haldi áfram að vera styrkur íslensks efnahagslífs.

 

Með því að dreifa ferðamönnum betur um landið, stýra aðgangi að viðkvæmum náttúruperlum og stuðla að heilsársferðaþjónustu má draga úr álagi og auka verðmætasköpun. Taka þarf upp álagsstýringu á helstu ferðamannastaði til að tryggja jákvæða upplifun ferðamanna.

 

Fjölbreytt störf um allt land

Stjórnvöld verða að tryggja jöfn skilyrði um allt land til atvinnusköpunar með nýsköpun og sjálfbærni að leiðarljósi. Sterkir innviðir, svo sem samgöngur, samskiptaleiðir og orka, eru forsenda atvinnuuppbyggingar, stækkunar atvinnusvæða og þróunar. Rafræn stjórnsýsla bætir aðgengi að þjónustu og skapar tækifæri til hagræðingar og aukinnar skilvirkni í opinberum rekstri.


Nýsköpun og rannsóknir eru forsenda framfara

Framtíðarhagsæld Íslands byggir á hugviti, rannsóknum og tækniþróun. Áhersla á grænar lausnir og kolefnishlutlausa starfsemi skapar bæði arðsemi og ábyrgð. Þekkingariðnaður, svo sem líf- og lyfjavísindi og hugbúnaðariðnaður hefur vaxið mjög á undanförnum árum, skapað mörg hátekjustörf og miklar tekjur fyrir þjóðarbúið. Þessar greinar byggja að mestu á rannsóknum og hugviti starfsmanna sinna og eru í harðri alþjóðlegri samkeppni. Viðreisn vill vinna að því að gera Ísland að vænlegum valkosti fyrir slík fyrirtæki.


Við veitingu rannsóknarstyrkja skal gæta jafnræðis og stuðla að samkeppni. Meta þarf reglulega ávinning af nýsköpunarstarfi. Auka skal áherslu á rannsóknir og tækniþróun, þar sem þjóðfélagslega mikilvæg vandamál eru greind og tækifæri sköpuð til að leysa slík viðfangsefni. Til viðbótar við núverandi stuðningskerfi við rannsóknir og nýsköpun vill Viðreisn nýta aðferðafræði stefnumiðaðra rannsókna og þróunar þar sem hún á við.

 

Leggja skal áherslu á þróun upplýsingatækni og sjálfvirkni á borð við róbóta og gervigreind og tryggja að Íslendingar verði þar ekki eftirbátar annarra þjóða.