Innanríkismál

Efling allra landsbyggðarkjarna með traustum innviðum gerir sveitarfélögum kleift að laða til sín íbúa og atvinnuskapandi fyrirtæki. Skapa skal umhverfi þar sem fólk hefur raunverulegt val við búsetu og ferðamáta. Tryggja þarf raforkuöryggi um allt land og móta langtímasýn um uppbyggingu, viðhald og rekstur flutningskerfis raforku, vatns og fráveitna. Viðreisn vill byggja upp fjölþjóðlegt og opið samfélag og leggur áherslu á að samin verði heildstæð aðgerðaráætlun í málefnum fólks af erlendum uppruna. Öryggi borgaranna krefst skilvirks réttarvörslukerfis og nútímalegrar nálgunar í forvörnum, refsistefnu og félagslegum úrræðum.

 

  • Kröftug sveitarfélög með þjónustu nær íbúum
  • Greiðum fólki leið að húsnæði
  • Frelsi til ferðamáta
  • Sjálfbær uppbygging orku- og vatnsveitu
  • Mannréttindi eru grundvöllur fjölbreytts mannlífs
  • Öruggt samfélag

 

Landsþing 21. september 2025


Kröftug sveitarfélög með þjónustu nær íbúum

 

Í frjálslyndu samfélagi þarf fólk að hafa raunhæfa valkosti um hvar það býr. Efling allra landsbyggðarkjarna með traustum innviðum gerir sveitarfélögum kleift að laða til sín íbúa og atvinnuskapandi tækifæri. Með öflugum sveitarfélögum er stuðlað að jafnari tækifærum allra landsmanna til atvinnu og þjónustu og sjálfbærri þróun byggðarlaga um land allt.

 

Viðreisn styður sameiningu og stækkun sveitarfélaga með það fyrir augum að draga úr yfirbyggingu, efla nærþjónustu og styðja við nýsköpun og menningu. Endurskoða þarf tekjugrunn sveitarfélaganna til þess að styrkja þau og stuðla að langtímahugsun hvað varðar uppbyggingu og skipulagsmál.

 

Í sveitarstjórnar- og skipulagsmálum er nauðsynlegt að horfa til þess að aðstæður á landsbyggðum og í þéttbýli geta verið ólíkar og því mikilvægt að hugað sé að staðháttum hverju sinni. Leitað verði leiða til að einfalda og rýmka kröfur til byggingaraðila, s.s. í gegnum deiliskipulag.


Greiðum fólki leið að húsnæði

 

Tryggja þarf vandaða stjórnsýslu í húsnæðismálum til þess að lækka kostnað við nýbyggingar og endurgerð húsnæðis. Yfirvöld þurfa að gæta þess að ekki myndist of mikið ójafnvægi milli framboðs og eftirspurnar og draga úr sveiflum á húsnæðismarkaði. Stöðugri gjaldmiðill og lægri vextir stuðla einnig að stöðugleika á húsnæðismarkaði.

 

Meginþorri húsnæðisuppbyggingar á að eiga sér stað á markaðsforsendum en jafnframt þarf að styðja við uppbyggingu óhagnaðardrifins húsnæðis um land allt. Taka þarf húsnæðisstuðning til gagngerrar endurskoðunar með það að markmiði að tryggja húsnæðisöryggi. Breyta þarf reglugerð um lánshæfis- og greiðslumat til að auðvelda fólki á leigumarkaði, með örugga greiðslusögu, að kaupa sér húsnæði til eigin nota. Það er mikilvægt að nýbyggingar taki mið af þörfum markaðarins með áframhaldandi uppbyggingu fjölbreytts húsnæðis.

 

Móta þarf stefnu í húsnæðismálum sem styrkir langtímaáætlanir og rekstur sveitarfélaga.

 

Frelsi til ferðamáta

 

Samgöngur eru grunnstoð samfélags og atvinnulífs. Fólk á að hafa frelsi til að velja sinn ferðamáta eftir kostnaði, hentugleika og loftslagsáhrifum. Rými þarf að vera bæði fyrir einstaklingsmiðaðar samgöngur og almenningssamgöngur. Nauðsynlegt er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda með betri innviðum fyrir gangandi og hjólandi, eflingu almenningssamgangna og orkuskiptum bíla, vélhjóla, skipa og flugflotans.


Innviðafjárfestingar skulu byggjast á langtímahugsun og samfellu í skipulagi, hönnun, uppbyggingu og rekstri innviða. Tryggja skal að verkefni haldist í gangi í niðursveiflum. Allar stærri innviðaframkvæmdir skal meta með félagshagfræðilegu mati auk heildstæðri áætlun um fjármögnun og rekstur. Auka þarf aðkomu einkaframtaksins og lífeyrissjóða að innviðafjárfestingu og rekstri. Tæknivæðing og nýsköpun í samgöngum kallar á aukna þekkingu og samstarf við önnur lönd.


Beinar gjaldtökur af samgöngumannvirkjum geta tryggt fjármögnun og stýrt álagi. Á höfuðborgarsvæðinu er mikilvægt að halda áfram uppbyggingu í samræmi við samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins.


Viðreisn styður að Reykjavíkurflugvöllur sé til langs tíma litið víkjandi. Á meðan hann er á núverandi stað sé flugöryggi og notagildi flugvallarins tryggt.


Móta þarf heildstæða stefnu um hafnir sem skýrir tilgang þeirra og tryggir hagkvæma og sjálfbæra nýtingu.


Uppbygging flutningskerfa og veitna

 

Mikilvægt er að ná meiri sátt um framkvæmdir við flutningskerfi raforku og veitna og skoða þarf breytta aðferðarfræði varðandi leyfisveitingar og kærumöguleika á skipulagsstigi. Jafnframt þarf að móta stefnu varðandi eignaupptöku vegna innviðaverkefna sem varða almannahagsmuni. Líta skal til nágrannalanda eftir góðum fyrirmyndum.


Tryggja þarf áfallaþol veitumannvirkja vegna náttúruhamfara, aukinna veðuröfga og bilana, betri orkunýtni húsa og draga úr sóun jarðhita.

 

Mannréttindi eru grundvöllur fjölbreytts mannlífs

 

Á Íslandi þarf að standa vörð um fjölbreytt mannlíf. Tryggja skal mannréttindi og virðingu fyrir öll. Tryggja skal jöfnun atkvæðavægis á landinu öllu. Tryggja skal jafnræði meðal trú- og lífsskoðunarfélaga með fullum aðskilnaði ríkis og kirkju. Ríkið skuli leggja af úthlutun sóknargjalda og hætta skráningu trúar- og lífsskoðana.


Viðreisn vill byggja upp fjölþjóðlegt og opið samfélag og leggur áherslu á að samin verði heildstæð aðgerðaráætlun í málefnum fólks af erlendum uppruna. Við þá vinnu skuli byggt á fordæmum frá útlöndum þar sem góður árangur hefur náðst varðandi móttöku og inngildingu innflytjenda, flóttafólks og farandverkafólks. Stemma þarf stigu við fordómum gagnvart fólki af erlendum uppruna. Styrkja skal fólk af erlendum uppruna til þátttöku í samfélaginu út frá hugmyndafræði inngildingar. Gera þarf bragarbót á því hvernig menntun frá útlöndum er metin.

 

Lögð skal áhersla á mannúðlega og ábyrga stefnu í málefnum flóttafólks og umsækjenda um alþjóðlega vernd. Samræma skal reglur í þessum málaflokki við nágrannaríki eftir því sem kostur er. Ísland skal leggja sitt af mörkum til þróunarsamvinnu, mannúðar- og neyðaraðstoðar og móttöku flóttafólks. Tryggja þarf réttlátt stjórnsýslukerfi og fullnægjandi málshraða í málefnum umsækjenda um alþjóðlega vernd.


Tryggja þarf flóttafólki réttindi til náms, vinnu og þjónustu hér á landi, svo það geti búið sér betra líf og tekið virkan þátt í samfélaginu. Sérstaklega þarf að hlúa að börnum og ungmennum úr þessum hópi og gera þeim kleift að læra íslensku til að skapa þeim raunveruleg tækifæri hér á landi.


Öruggt samfélag


Ríkið ber grunnskyldu til að tryggja öryggi fólks. Öflug löggæsla sinnir þar grundvallarhlutverki. Löggæsla, ákæruvald og dómstólar þurfa að hafa burði til að vinna hraðar úr málum því biðlistar í réttarkerfinu eru óboðlegir.


Viðreisn vill fjölga lögreglumönnum og sérhæfðu starfsliði og efla heimildir lögreglu til að bregðast við auknum afbrotum og skipulagðri glæpastarfsemi. Sameina skal embætti þar sem það er hagkvæmt og eflir löggæslu.


Byggja þarf öryggisfangelsi og fjölga fangaplássum. Dómstólar eiga að taka ákvörðun um það hvenær samfélagsþjónusta á við, en ekki fangelsismálayfirvöld. Erlendir fangar sem brjóta alvarlega af sér og hafa ekki sérstök tengsl við landið skulu, þar sem mögulegt er, fluttir heim.


Styðja þarf fanga til að hefja nýtt líf að lokinni afplánun, með stuðningi og sjálfseflingu. Sérstaklega skal hlúð að ungum brotamönnum. Börn eiga ekki heima á sakaskrá.


Nálgast skal málefni vímuefnaneytenda sem heilbrigðismál. Afglæpavæðing, regluvæðing og skaðaminnkandi úrræði auka öryggi neytenda og draga úr skipulögðum afbrotum.


Refsistefna í málefnum kynlífsverkafólks og þolenda vændis er úrelt. Brýnt er að stjórnvöld tileinki sér skaðaminnkandi aðferðafræði í málaflokknum, ásamt því að efla félagsleg úrræði til stuðnings kynlífsverkafólki og þolenda vændis.


Það er forgangsatriði að hlúa mjög vel að þolendum hvers kyns mansals, tryggja þeim fullnægjandi réttarvernd og stuðning svo þeir treysti sér til að vinna með yfirvöldum í baráttunni gegn mansali.