Umhverfis- og auðlindamál

Áskoranir í umhverfismálum eru þær stærstu sem mannkynið stendur frammi fyrir. Viðreisn leggur áherslu á metnaðarfull markmið í loftslagsmálum með það að leiðarljósi að Ísland verði kolefnishlutlaust og laust við jarðefnaeldsneyti fyrir 2040. Í samræmi við gildandi lög og alþjóðlegar skuldbindingar skulu stjórnvöld leggja fram vandaðar og raunhæfar aðgerða- og fjármögnunaráætlanir og tryggja samhæfingu loftslagsmála milli ráðuneyta. Áhersla verði lögð á að minni losun, grænar fjárfestingar, orkuskipti og hvata til að draga úr kolefnislosun ásamt vernd lífríkis og endurheimt vistkerfa, sérstaklega votlendis og hálendis. Náttúruvernd og sjálfbær nýting auðlinda á að tryggja með friðlýsingu, vönduðum reglum um fiskeldi og vindorku og hringrásarhagkerfi með áherslu á að draga úr myndun úrgangs og vinna að endurnýtingu og endurvinnslu. Raforkuinnviðir skulu styrktir og atvinnulífinu veittir hvatar til orkuskipta.

 

  • Loftslagsáherslur í forgrunni allra stórra ákvarðana
  • Aðgerðir sem snúa að atvinnulífinu
  • Náttúruvernd í öndvegi
  • Sjálfbærni og hringrásarhagkerfi
  • Sjálfbær orkunýting og náttúruauðlindir

 

Landsþing 21. september 2025

 

Loftslagsáherslur í forgrunni allra stórra ákvarðana


Loftslagsváin er stærsta áskorun samtímans og krefst þess að allar stórar ákvarðanir séu teknar með loftslagsmarkmið að leiðarljósi. Beita þarf öllum tiltækum ráðum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og tryggja að hlýnun jarðar verði innan marka Parísarsáttmálans. Samhliða þarf að efla aðlögun að loftslagsbreytingum þannig að samfélagið verði betur í stakk búið til að mæta þeim breytingum sem þegar eru hafnar.


Viðreisn leggur áherslu á að forgangsraða aðgerðum sem skila mestum árangri, einkum endurheimt votlendis og annarra vistkerfa, vernd líffræðilegrar fjölbreytni og aukna bindingu kolefnis í jarðvegi og gróðri. Jafnframt þarf að hrinda í framkvæmd hraðari orkuskiptum, beita skýrum hagrænum hvötum eins og kolefnisgjaldi og grænum ívilnunum, og styðja myndarlega við nýsköpun og fjárfestingar sem stuðla að grænni atvinnuuppbyggingu og orkuskiptum í samgöngum og sjávarútvegi.


Loftslagsráð verði eflt, hlutverk þess skýrt og stjórnvöld skuldbundin til að leggja fram tímasettar áætlanir sem endurspegla raunverulega verkstjórn og samhæfingu loftslagsmála. Nauðsynlegt er að samþætta loftslagsmál öllum stjórnsýsluákvörðunum, meta áhrif frumvarpa á loftslag og efla samstarf bæði innanlands og á alþjóðavettvangi. Ísland á að taka virkan þátt í norrænu samstarfi og sækja lærdóm til þeirra sem hafa náð árangri, en um leið sýna forystu með metnaðarfullum aðgerðum sem gera landið að fyrirmynd á alþjóðavísu.


Með markvissum aðgerðum getum við skapað kolefnishlutlaust og samkeppnishæft velsældarsamfélag þar sem nýsköpun, græn orka og ábyrg auðlindanýting verða burðarásar í sjálfbærri framtíð.

 

Aðgerðir er snúa að atvinnulífinu

 

Til að ná kolefnishlutleysi þarf að hraða orkuskiptum í vegasamgöngum, landbúnaði og sjávarútvegi og auka kolefnisbindingu. Samráð ríkis og atvinnulífs um loftslagsmál verði eflt þannig að sameiginleg ábyrgð og lausnir skili raunverulegum árangri.


Í vegasamgöngum þarf að efla almenningssamgöngur, hraða orkuskiptum bílaflotans og tryggja vistvæna orkugjafa hjá bílaleigum. Ferðaþjónustan verður að styðja við þessa þróun með því að bjóða ferðamönnum sjálfbærar samgönguleiðir. Í sjávarútvegi þarf að hraða orkuskiptum fiskiskipaflotans með þróun skipa sem nýta sjálfbært eldsneyti í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands. Viðreisn hugi sérstaklega að sjálfbærri nýtingu á auðlindum sjávar.


Lögð verði áhersla á að draga úr umhverfisáhrifum byggingariðnaðarins með endurnýtingu efnis, vistvænni hönnun og aukinni orkunýtni. Byggingar þurfa að vera varanlegri og samkeppnishæfar á alþjóðlegum mælikvarða sjálfbærni. Stórefla þarf rannsóknir á orkunotkun, kolefnislosun og endingu bygginga, enda er orkunotkun húsa hér á landi meiri en á Norðurlöndum. Leggja þarf áherslu á betri einangrun og orkunýtingu húsa til að koma í veg fyrir óþarfa sóun orku.


Viðreisn vill jafnframt styðja þróun tækni fyrir kolefnisbindingu sem hluta af heildstæðri stefnu í loftslagsmálum.


Náttúruvernd í öndvegi


Náttúra Íslands er ein dýrmætasta auðlind okkar og ber að vernda hana fyrir komandi kynslóðir. Halda þarf áfram friðlýsingu svæða, efla þjóðgarða og tryggja vernd miðhálendisins í þágu almannahags. Móta skal stefnu um sjálfbæra landnýtingu, vatnsvernd og vernd vistkerfa og jarðminja þar sem tryggð er fjármögnun til reksturs og landvörslu. Gjaldtaka verði í sátt við almenning og sveitarfélög, og byggð í nágrenni þjóðgarða styrkt með rannsóknum og fjölbreyttum störfum.


Viðreisn leggur áherslu á alþjóðlegt samstarf í náttúru- og hafvernd, sérstaklega á norðurslóðum, og að Ísland setji sér markmið um að vernda 30% hafsvæða fyrir árið 2030. Draga þarf úr skaða af veiðarfærum, efla rannsóknir og setja reglur um sjálfbærar veiðar, líffræðilegrar fjölbreytni og aðgerðir gegn ágengum tegundum. Lögð skal áhersla á verndun villtra dýra í íslenskri náttúru. Það er siðferðileg skylda að tryggja framtíð dýrastofna landsins með ábyrgri umgengni, skýrum verndarráðstöfunum og stuðningi við rannsóknir og eftirlit.


Hagkerfið þarf að byggjast upp án þess að rýra náttúrugæði. Vatn verði nýtt á ábyrgan hátt með almannahag og sjálfbærni að leiðarljósi. Viðreisn leggur áherslu á að vernd og nýting náttúruauðlinda fari saman á sjálfbæran hátt, þar sem tekið er mið af þjóðhagslegum áhrifum og hagsmunum framtíðarkynslóða.


Sjálfbærni og hringrásarhagkerfi


Auðlindir jarðar eru takmarkaðar og nýting þeirra verður að byggjast á sjálfbærni. Viðreisn leggur áherslu á að vernd og nýting fari saman til framtíðar. Mengunarbótareglan skal vera leiðarstefið: Sá sem mengar ber ábyrgð og greiðir í samræmi við þann skaða sem hann veldur. Þetta er forsenda sanngirni, raunverulegra hvata til breytinga og trausts milli almennings, atvinnulífs og stjórnvalda.


Markmið hringrásarhagkerfis er að allt efni haldist í umferð með endurnýtingu, endurvinnslu, viðgerðum og endursölu. Draga þarf úr úrgangi með hvötum til framleiðslu endingargóðra vara, skýrum merkingum og hagkvæmum viðgerðum. Flokkaður úrgangur verði nýttur, endurunninn og stutt við græna nýsköpun í endurvinnslu.


Bann við urðun lífræns úrgangs skapar tækifæri til nýrrar atvinnu og framleiðsluferla sem halda efni og orku í hringrás. Skilakerfi og úrvinnslugjöld verði efld, og þegar förgun er nauðsynleg skal beita bestu fáanlegu tækni.


Viðreisn vill markvissa aðgerðaáætlun um hringrásarhagkerfi með árangursvísum, nýjum markaðslausnum og innleiðingu velsældarvísa í fjárlagagerð. Fjölbreytt rekstrarform, þar á meðal einkarekstur, skulu gegna hlutverki í úrgangsmálum.


Sjálfbær orkunýting og náttúruauðlindir


Stefna Viðreisnar er að nýta náttúruauðlindir á sjálfbæran hátt. Nýtingin á að byggjast á heildstæðu mati á þjóðhagslegum ávinningi og afleiðing hennar skerði ekki möguleika komandi kynslóða. Aðgangur að náttúruauðlindum þjóðarinnar verði ætíð tímabundinn og tryggt að eðlilegur hluti skili sér til ríkis og sveitarfélaga með markaðsgjaldi.


Viðreisn styður nýtingu fjölbreyttra endurnýjanlegra orkugjafa s.s. vatnsafls, jarðhita, vind- og sólarorku. Sem skilyrði fyrir uppbyggingu stórra vind- og sólarorkuvera þarf að tryggja takmörkun neikvæðra áhrif á dýralíf og nærsamfélög, eins og unnt er. Einnig þarf að setja reglur um aðgengi að jöfnunarafli vegna sveiflna í framleiðslu. Til að tryggja full orkuskipti fyrir 2040 þarf að auka framboð á endurnýjanlegri orku, styrkja raforkuinnviði og tryggja að löggjöf auki samkeppnishæfni Íslands.


Ferli rammaáætlunar þarfnast endurskoðunar. Brýnt er að setja heildstæða löggjöf um allar tegundir endurnýjanlegra orkugjafa og virkjanaframkvæmdir þeim tengdum, til að tryggja jafnvægi milli ólíkra orkugjafa og auka raforkuöryggi. Mikilvægt er að orkukostir séu eftir sem áður metnir út frá áhrifum á náttúru, umhverfi, samfélag og efnahag. Jafnframt að farið sé varlega í framkvæmdir sem valda óafturkræfum áhrifum á náttúru og umhverfi.


Viðreisn leggur áherslu á að orkufyrirtæki skulu nýta sem best þá orku sem framleiða má á núverandi virkjanasvæðum áður en leyfi verða veitt til virkjana sem hafa neikvæð umhverfisáhrif á nýjum svæðum. Viðreisn leggur jafnframt áherslu á að orkuver séu staðsett nálægt góðum innviðum, utan þjóðgarða og tryggt sé að úr sér gengin orkuver séu fjarlægð af eigendum og landinu skilað í viðunandi ástandi.


Mikil óvissa ríkir um rafeldsneytisframleiðslu hérlendis fyrir skip og millilandaflug. Orkuþörfin gæti orðið meiri en helmingur allrar orkuþarfar vegna orkuskipta. Greina þarf skiptingu sjálfbærs eldsneytis milli líf- og rafeldsneytis. Skoða þarf hvort framleiðsla verði hérlendis, með innflutningi eða blöndu þar af, og kanna möguleika á útflutningi.