02 sep Ryki slegið í augu bæjarbúa
Bæjarstjórinn í Kópavogi sendi frá sér fréttatilkynningu um óstaðfest sex mánaða uppgjör sveitarfélagsins. Hughrifin af fréttatilkynningunni eru að hún ein hafi skilað hundruðum milljóna króna í plús vegna hagræðingar í rekstri. Það er hvergi rökstutt.
Á þessu kjörtímabili fékk bæjarstjórn það verkefni að úthluta lóðum í Vatnsendahvarfi. Verkefni sem verið hefur í undirbúningi undanfarin fimm ár. Aldrei er gert ráð fyrir tekjum af sölu byggingarréttar í fjárhagsáætlun og þess vegna eru allar byggingarréttartekjur sem innheimtast „umfram áætlun“.
Fjárhagsáætlun Kópavogsbæjar gerði ráð fyrir rekstrarhalla upp á 228 milljónir króna af samstæðunni. Afkoman er hins vegar 599 milljónir í plús. Fréttatilkynningin gefur til kynna að afkoma bæjarins hafi batnað um 827 milljónir króna frá því áætlunin var gerð án þess að útskýra hvers vegna.
Staðreyndin er sú að tekjufærðar eru væntar eins skiptis tekjur upp á 1.317 milljónir króna vegna byggingarréttar sem ekki var gert ráð fyrir í fjárhagsáætlun. Mögulega eru þær ekki komnar í kassann en reiknaðar í topp sem sérstök ráðdeild.
Hins vegar er rétt að varpa ljósi á að vegna framúrkeyrslu í rekstri Kópavogsbæjar þá þurfa tekjur af byggingarrétti að dekka rekstarhalla bæjarins. Ef 1.317 milljón króna tekjur sem ekki var gert ráð fyrir í fjárhagsáætlun eru hluti af sex mánaða uppgjöri og áætlunin gerði ráð fyrir 228 milljóna króna halla þá ætti niðurstaðan a.m.k. að vera 1.089 milljónir ekki satt?
Í þessari nýjustu upphrópun bæjarstjórans í Kópavogi eru viðmiðin valin til að styðja við afar háværar og villandi yfirlýsingar um það sem kallað er skilvirkur og hagkvæmur rekstur.