Kópavogur1

Prófkjör Viðreisnar í Kópavogi

Kosið verður í efstu þrjú sæti lista Viðreisnar í Kópavogi fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar.

Prófkjörið fer fram laugardaginn 7. febrúar frá kl. 00.01 til kl. 19.00

Prófkjörið er rafrænt og fer frem á kjosa.net/vidreisn.

Leiðbeiningar fyrir rafræna kosningu má finna hér. Ef vandræði verða við kosningu er hægt að hafa samband við kjörstjórn með því að koma á Suðurlandsbraut á kjördag á milli 10.00 og 17.00.

Einnig er hægt að senda póst á kopavogur@vidreisn.is

Rétt til atkvæðagreiðslu hafa allir skráðir félagar í Viðreisn í Kópavogi, 16 ára og eldri, sem eiga lögheimili í Kópavogi og hafa skráð sig í Viðreisn a.m.k. 2 dögum fyrir upphaf prófkjörs.

Framboð í 1. sæti

Birgir Örn Guðjónsson

Ég hef lengi haft áhuga og metnað fyrir því að reyna að hafa jákvæð áhrif á samfélagið. Störf mín síðustu áratugi hafa til dæmis alfarið snúið að þeim áhuga og ég er ótrúlega þakklátur fyrir það. Nú er komið að næsta skrefi í þessari spennandi vegferð. Það skref verður krefjandi en um leið ótrúlega spennandi. Ég hef tekið þá ákvörðun að bjóða mig fram til að leiða lista Viðreisnar í Kópavogi í næstu sveitastjórnarkosningum. 

 

Kópavogur er frábær en það er samt fjölmargt sem þarf að gera betur. Samsetning okkar Kópavogsbúa er sem betur fer fjölbreytt og þjónustuþörfin því eðlilega misjöfn. Bærinn verður að gera betur í að mæta þessum ólíku þörfum. Kópavogur er einnig miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu og því allar samgöngutengingar mikilvægar sem og aðrir innviðir. Ég fer inn í þennan nýja kafla með mikla reynslu og víða sýn af samfélaginu, meðal annars úr störfum mínum til margra ára í lögreglunni, úr sveitastjórnarmálum, innan Barna og fjölskyldustofu og ekki síst sem faðir með stórt og fjölbreytt heimili.

 

Það er einnig mikilvægt verk kjörinna fulltrúa að kunna að hlusta. Þegar unnið er að lausnum í stóru sveitafélagi verður að hafa almannahagsmuni í huga og vinna saman að lausnum. Ég býð mig fram sem fulltrúa Viðreisnar til þess eins að vinna fyrir Kópavogsbúa en ekki til að berjast á móti fulltrúum annarra flokka. Að skiptast á skoðunum er nauðsynlegur partur af því að komast í sameiningu að bestu mögulegu
niðurstöðunni en ég hef engan áhuga á sundrungar pólitík upphrópanna og útilokunnar.

 

Rekstur Kópavogs á að vera gagnsær og sjálfbær þar sem almannahagsmunir eru alltaf settir í forgang. Það er mín skoðun að bæjarstjóri Kópavogs skuli vera ráðinn á faglegum grunni og gerð starfslýsing fyrir störf hans. Kópavogur á að vera lifandi bær með iðandi og fjölbreyttu mannlífi þar sem allir fá sitt pláss og þá þjónustu sem þeir þurfa á skilvirkan hátt. Ég vona að ég fái þann stuðning sem ég þarf til að leiða lista Viðreisnar í því mikilvæga verkefni að gera Kópavog að enn betra og framsæknara sveitafélagi fyrir alla Kópavogsbúa.

 

Birgir Örn Guðjónsson

María Ellen Steingrímsdóttir

Ég býð fram krafta mína sem oddviti flokksins í Kópavogi í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það af sannfæringu, metnaði og trú á því að við getum gert gott bæjarfélag enn betra með skynsemi, ábyrgri stjórnsýslu og hugrekki. 

 

Ég er þrítug fjölskyldukona, vel gift og móðir tveggja ára drengs sem þýðir að ég hef persónulega reynslu af biðlistum, skipulagi og því að hlutirnir þurfa að ganga upp í raunveruleikanum. Ég flutti í okkar góða bæjarfélag fyrir nokkrum árum og hér stofnaði ég til fjölskyldu og vil hvergi annars staðar vera. Ég er lögfræðingur að mennt og starfa hjá ríkinu. Á þessu kjörtímabili hef ég setið í Menntaráði og Jafnréttis- og mannréttindaráði Kópavogsbæjar sem fulltrúi Viðreisnar. Ég hef verið virkur þátttakandi í Viðreisn um árabil og var meðal annars varaforseti Uppreisnar, ungliðahreyfingar Viðreisnar og stjórnarmaður í framkvæmda- og félagastjórn Uppreisnar. Ég er algjör die hard Viðreisnarkona og er nú tilbúin til þess að leiða Viðreisn í Kópavogi á næstkomandi kjörtímabili.  

 

Ástæðan fyrir því að ég býð mig fram til forystu eru málefni ungs fólks og barnafjölskyldna í Kópavogi. Það þarf að lækka leikskólagjöldin og forgangsraða meira fjármagni í grunnskólana. Ég trúi því að stjórnsýsla eigi að leysa vandamál án þess að skapa ný. Einnig þarf bærinn að stuðla að því að byggðar verði íbúðir fyrir ungt fólk á viðráðanlegu verði. Ungt fólk á ekki að þurfa að flytja úr bænum til þess að komast í eigið húsnæði. Ég vil leggja mitt af mörkum til að stuðla að frjálsu samfélagi, jafnrétti, og framsýni. Barnafjölskyldur í Kópavogi eiga betra skilið.

 

María Ellen Steingrímsdóttir

Pétur Björgvin Sveinsson

Elsku vinir,

Ég mun gefa kost á mér sem leiðtogi Viðreisnar í Kópavogi. Ég vil tilheyra nýrri kynslóð leiðtoga. Kynslóð sem sameinar reynslu, fagmennsku og

ferska nálgun. Ungt fólk er stór og vaxandi hluti Kópavogs og það er mikilvægt að rödd ungs fólks heyrist mun skýrar öllum bæjarbúum til hagsbóta.

 

Ég er fjórðu kynslóðar Kópavogsbúi og sterk tengsl mín við bæinn móta sýn mína á hvernig ég vil sjá bæinn okkar þróast. Hér hafa kynslóðir fjölskyldu minnar lifað, unnið og lagt sitt af mörkum til bæjarfélagsins, og ég vil taka virkan þátt í að móta næstu

kafla í sögu bæjarins. Ég bý nú í Hvömmunum ásamt manninum mínum og hundinum okkar. Vinn sem aðstoðarmaður þingflokks Viðreisnar á Alþingi og hef öðlast dýrmæta reynslu þar. Ég er menntaður verkefnastjóri frá Danmörku þar sem ég bjó í 12 ár.

 

Kópavogur stendur á tímamótum. Bærinn hefur vaxið hratt, samfélagið breyst og þarfir íbúa þróast. Það kallar á skýra framtíðarsýn, ábyrga forgangsröðun og leiðtoga sem hlustar, tekur samtalið og veigrar sér ekki við að taka ákvarðanir. 

 

Leikskólamál er mikilvægasta jafnréttismálið. Eins og staðan er þá eru þeir ekki að virka eins og við viljum. Við þurfum að skoða málin með þarfir barna, foreldra og starfsfólks í huga. Markmiðið er að lækka leikskólagjöld og jafna aðgengi allra að leikskólanum óháð efnahag eða fjölskyldumynstri.

 

Ég mun leggja áherslu á leik- og grunnskólamál, einnig að við tryggjum eldri borgurum bestu mögulegu þjónustu.

 

Mér er sérstaklega annt um að styrkja samfélagið í Kópavogi. Að við getum öll með stolti sagt að við séum Kópavogsbúar, hvort sem við erum á Kársnesinu eða í efri byggðum. Að við finnum til samstöðu, öryggis og gleði. Þetta á nefnilega að vera gaman. Sveitarstjórnarmál snúast um fólk, nærþjónustuna og litlu hlutina sem skipta öllu máli. Við eigum að vinna þessi verkefni af jákvæðni, gleði og trú á að saman

getum við gert þetta svo miklu betur.

 

Viðreisn stendur fyrir framsýni, frjálslyndi og vönduð vinnubrögð. Við látum verkin tala og það mun ég svo sannarlega gera.

 

Ég tek þetta skref af einlægum vilja til að leiða Kópavog að sterkari, stoltari og hlýrri framtíð.

Framboð í 2. sæti

Ester Halldórsdóttir

Ég hef ákveðið að gefa kost á mér í 2. sæti á lista Viðreisnar í Kópavogi í sveitarstjórnarkosningum 2026. Síðastliðinn áratug hef ég verið búsett í efri byggðum Kópavogs ásamt maka, þremur börnum, hundi og ketti. Það er einstaklega gott að búa í Kópavogi, en margt má þó bæta.

 

Börnin mín eru öll uppalin í Kópavogi og því þekki ég leikskóla- og grunnskólamál vel. Hið svokallaða Kópavogsmódel Sjálfstæðisflokksins kom okkur fjölskyldunni illa en leikskólagjöld hækkuðu gríðarlega fyrir útivinnandi foreldra. Kópavogsmódelið virðist byggja á því annað foreldrið eigi að fara í hlutastarf eða hreinlega af vinnumarkaðinum til að geta haft barnið eða börnin í einungis 6 tíma viðveru. Aðstoð við börn með taugafjölbreytileika (ADHD, einhverfa og lesblinda) er verulega ábótavant. Það þarf að mæta börnum strax sem upplifa vanlíðan, eiga erfitt með nám eða eru utanvelta í þeirra nærumhverfi, og koma þannig í veg fyrir að þau flosni upp úr námi og einangrist félagslega. Eins og staðan er núna þurfa foreldrar þessara barna að sækja aðstoð fyrir þau utan skólans á vinnutíma, sem er gríðarlega kostnaðarsamt og eykur álag á vinnandi foreldra. Samgöngumál og öryggi gangandi vegfaranda eru mér einnig mikilvæg, en það þarf að stórbæta gatnakerfið í efri byggðum Kópavogs, leggja göngustíga og hjólastíga, og bæta öryggisráðstafanir í kringum skólalóðir og íþróttamannvirki. Það þarf að gera úttekt á samgöngumálum með hliðsjón af lýsingu og öryggi gangandi vegfaranda.

 

Ég vil beita mér fyrir eftirfarandi:

  • Að fundin sé farsæl lausn í leikskólamálum sem léttir undir með barnafjölskyldum og hefur ekki neikvæð áhrif á atvinnuþátttöku kvenna. Það þarf að lækka leikskólagjöld fyrir útivinnandi foreldra.
  • Að börnum með taugafjölbreytileika (ADHD, einhverfu og lesblindu) og þeim sem upplifa vanlíðan sé mætt strax í sínu nærumhverfi. Það þarf að bjóða upp á sálfræðiþjónustu, félagsfærni kennslu og talmeinaþjónustu í skólum án tafar.
  • Að umferðaröryggi verði bætt, þá sérstaklega öryggi gangandi vegfaranda og skólabarna, og að göngustígar og hjólastígar verði lagðir þar sem við á. 

 

Kær kveðja,

Ester

Jóhanna Pálsdóttir

Ég hef verið Viðreisnarkona frá stofnun flokksins sem ég tel standa fyrir frelsi, ábyrgð og gagnsæi. Ég hef tekið virkan þátt í starfi flokksins, er í málefnaráði Viðreisnar, sit í leikskólanefnd Kópavogs, skólanefnd Menntaskólans í Kópavogi og sat í stjórn Viðreisnar í Kópavogi um árabil.

 

Ég fæddist á Húsavík en flutti í Kópavog 1985 og hef búið hér meira og minna síðan með viðkomu fyrir norðan og í London. Ég er íslenskukennari að mennt og hef starfað við kennslu í tæplega aldarfjórðung, lengst af í Kópavogi. Nú stunda ég nám í opinberri stjórnsýslu við HÍ, sem styrkir áherslur mínar á faglega, ábyrga og gegnsæja stjórnsýslu.

 

Ég er gift, á þrjú uppkomin börn og tvö barnabörn. Í uppvexti barna minna tók ég virkan þátt í íþrótta- og menningarstarfi þeirra s.s. með Skólahljómsveit Kópavogs, Skólakór Kársness, handknattleiksdeild HK og sat um tíma í stjórn karatedeildar Breiðabliks. Þessi reynsla hefur kennt mér gildi öflugs íþrótta- og menningarstarfs fyrir börn, fjölskyldur og samfélagið í heild. Ég er keppnismanneskja að eðlisfari og legg mikla áherslu á góða liðsheild og hópefli í öllu því sem ég tek mér fyrir hendur. 

 

Heilindi, réttsýni og samvinna eiga að vera leiðarljós í stjórnmálum. Þau gildi tel ég mig standa fyrir og er fullkomlega meðvituð um að kjörnir fulltrúar starfa fyrir íbúa bæjarins, ekki sjálfa sig. Velferðar-, umhverfis- og samgöngumál eru mín áherslumál ásamt ábyrgri stjórnsýslu. Það er gott að búa í Kópavogi – og ég vil leggja mitt af mörkum til að gera gott samfélag enn betra.

Framboð í 2.-3. sæti

Arnar Grétarsson

Ég er uppalinn í Kópavogi og má segja að foreldrar mínir séu meðal frumbyggja bæjarins.

 

Kópavogur er heimabærinn minn og þar hef ég alist upp, lært, starfað og mótast sem manneskja. Allt mitt líf hefur að miklu leyti snúist um íþróttir, sérstaklega knattspyrnu, sem ég byrjaði að æfa mjög ungur með ÍK og síðar Breiðabliki. Á veturna æfði ég einnig handbolta með HK og Breiðabliki. Íþróttastarfið í Kópavogi hefur því haft djúpstæð áhrif á mig og kennt mér gildi samvinnu, aga, ábyrgðar og metnaðar. 

 

Ég hef starfað lengi hérlendis og erlendis við stjórnun, þjálfun og rekstur, þar sem ég hef öðlast víðtæka reynslu af mannlegum samskiptum, forystu, fjármálum og stefnumótun. Sú reynsla ætti að nýtist vel þar sem taka þarf upplýstar ákvarðanir, vinna með ólík sjónarmið og horfa til framtíðar. 

 

Það er gott að búa í Kópavogi eins og góður maður sagði og mig langar að leggja mitt að mörkunum að gera góðan bæ enn betri. Ég tel eitt að lykilþáttum í því, er að hlusta á raddir bæjarbúa, hvað er það sem fólk vill að bærinn leggi áherslu á. Við þurfum að muna að við erum að vinna fyrir bæjarbúa. 

 

Þar sem ég kem úr heimi íþrótta þá hefur lýðheilsa alltaf skipt mig miklu máli og þar mun ég klárlega leggja mikla áherslu á að styrkja þau málefni, einnig eru skipulagsmál ofarlega í huga en þar held ég að hægt sé að einfalda ferla til að gera hlutina skilvirkari svo að embættisfólk bæjarins geti unnið hratt og vel úr málum fyrir bæjarbúa.

 

Ég býð mig fram af einlægum vilja til að láta gott af mér leiða og taka þátt í uppbyggilegu starfi fyrir bæjarfélagið okkar og óska ég eftir stuðningi ykkar í 2-3 sæti í prófkjöri Viðreisnar í Kópavogi 7. febrúar næstkomandi. 

 

Kær kveðja Arnar

Framboð í 3. sæti

Ísak Leon Júlíusson

Kæru vinir, ég hef ákveðið að gefa kost á mér í 3. sæti á lista Viðreisnar í Kópavogi í komandi sveitarstjórnarkosningum.


Ég býð mig fram vegna þess að ég tel mikilvægt að ungt fólk fái rödd í bæjarmálum. Sjónarmið þeirra eiga að fá að blómstra og koma með ferskar hugmyndir og lausnir sem geta reynst öllum bæjarbúum vel.


Ég er 22 ára laganemi, og bý á Vatnsendanum ásamt foreldrum mínum og 3 systkinum. Ég á yndislegan kærasta og helstu áhugamál mín eru landafræði og stjórnmál. Ég hef undanfarin ár verið virkur í starfsemi Viðreisnar, sit m.a. í framkvæmdastjórn ungliðahreyfingarinnar Uppreisnar ásamt því að vera varamaður í stjórn Viðreisnar í Kópavogi. Ég er líka einn af varaþingmönnunum Viðreisnar í Suðvesturkjördæmi. Samhliða reynslu minni í Viðreisn hef ég öðlast víðtæka þekkingu í gegnum laganám við HR, þar sem ég stunda nú meistaranám. Á stuttum starfsferli hef ég gegnt fjölbreyttum störfum, nú síðast í Íslandsbanka og í Utanríkisráðuneytinu, þar sem ég hef öðlast dýrmæta reynslu.


Ég hef búið í Kópavogi allt mitt líf og hér er gott að búa. Það eru þó áskoranir, sem ég vil taka þátt í að leysa. Ég vil vera sterk rödd fyrir úthverfi bæjarins og tel tímabært að setja jafnan fókus á málefni og uppbyggingu úthverfanna. Sem ungur maður vil ég einnig tryggja framtíð unga fólksins hvað varðar húsnæðis- og skólamál. Þar er margt sem betur má fara.


Ég vil leggja meiri áherslu á stemmningu og samheldni íbúa í sínu nærumhverfi. Kópavogur er sístækkandi og mikilvægt að íbúar upplifi viðburði, menningu og þjónustu innan hverfis. Það felur meðal annars í sér að tryggja jafnrétti á milli hverfa í framkvæmdum og viðburðahaldi. Ég tel einnig mikilvægt að taka öryggismál við Elliðavatn fastari tökum, við búum við fallega náttúruparadís sem þó er ekki hættulaus eins og ég þekki af eigin raun.