Hálfrar aldar afmæli Garðabæjar

Það hefur vart farið fram hjá Garðbæingum að nú er hafið afmælisár Garðabæjar, en þann 1.janúar síðastliðinn eru liðin 50 ár síðan Garðabær fékk kaupstaðarréttindi.

Eflaust búum við enn að ágætum fjölda íbúa sem muna þennan dag og finnst ótrúlegt til þess að hugsa að komið sé að hálfrar aldar afmæli.

En á þessum 50 árum hefur heimurinn breyst mikið.

Það er skemmtilegt að setja kaupstaðarréttindi Garðabæjar í samhengi við dægurmál og menningu sem mörg okkar tengja betur við en strípað ártal. Til gamans má geta að tæknirisinn Apple var stofnaður fimmtudaginn 1.apríl sama ár, sem Garðbæingar hafa þó ekki getað frétt af í sjónvarpsfréttum, því það var jú engin dagskrá sjónvarps þann daginn.

Að öllu gríni slepptu er þó áhugavert að bera saman hversu mjög daglegt líf hefur breyst á þessum tíma. Á Íslandi var aðeins ein útvarpsrás, ein sjónvarpsrás með takmarkaðri kvölddagskrá og ekki var hægt að ná í fólk í síma sæti það ekki heima hjá sér. Í Garðabæ var verslun bundin við örfáar litlar verslanir og mjólkurbúð.
Mannfjöldi í Garðabæ árið 1976 skv. Hagstofu var rétt rúmlega 4.200 til samanburðar við rétt ríflega 20.000 í lok árs 2025.

Hvort sem við lítum til fólksfjölda, fjarskipta, þjónustu eða skemmtunar hefur bærinn bætt á sig blómum, stækkað, þróast og batnað með hverju árinu. Það getur vel verið að þau ykkar sem lesa þessa grein geri sér ekki endilega grein fyrir því hvaða hlutverki þau gegna í þróun og blómstrandi vexti bæjarins, en hvert eitt og einasta okkar á sinn þátt í því. Það er nefnilega með bæjarfélög eins og svo margt annað að hér væri ekkert ef ekki væri fyrir fólkið. Við búum í fjölskylduvænu samfélagi þar sem börnin okkar komast leiðar sinnar örugg um götur bæjarins. Börnin okkar leika lykilhlutverk í að kveikja jólaljósin á aðventunni. Fyrir þau og með þau í fararbroddi er barnamenningarhátíð sem glæðir bæinn litríkri sýn barnæskunnar á lífið.  Bærinn býr að því að hér búa einstaklingar og fjölskyldur sem hvert á sinn hátt gera bæinn að betri stað. Hér er rekið farsælt íþróttafélag sem bæjarbúar flestir ef ekki allir eru stoltir að kalla sitt heimalið. Hér býr og er uppalið tónlistarfólk og að ógleymdu hönnunarsafni á Garðatorgi þar sem kennir ýmissa grasa. Við höfum fólk í bæjarpólitíkinni í öllum flokkum, því jú við búum að fleirum enn einum. Fólk sem vill leggja sitt af mörkum til að gera nærsamfélagið sitt betra í dag en í gær. Ég hvet ykkur öll til að líta inná við, því öll erum við partur af því fína samfélagi sem Garðabær býr að, ég hvet ykkur líka til að hafa samband ef innra með ykkur blundar ósk um að gera meira, bæta eða breyta, því allt er breytingum háð og stöðnun er eitthvað sem fæstir þrá.
Þessa dagana er opið fyrir framboð á lista Viðreisnar í Garðabæ fyrir sveitastjórnarkosningar í vor. Ég hvet ykkur til að hafa samband við gardabaer@vidreisn.is fyrir 1.febrúar hafið þið áhuga á að hafa bein áhrif í bæjarfélaginu með því að gefa kost á ykkur á lista. En einnig hvet ég ykkur til að vera í sambandi beint við mig tinna.borg.arnfinnsdottir@gardabaer.is ef þið eruð forvitin eða viljið ræða önnur mál án þess að stíga skrefið til fulls.

Við munum einnig sitja á Te og Kaffi, föstudaginn 23.janúar og skála í afmæliskaffibolla fyrir áhugasama.
Að lokum vil ég óska Garðbæingum gleðilegs afmælisárs og vona að kosningavorið 2026 verði merkur punktur í sögu blómstrandi bæjarfélags.