Kosið verður í efstu tvö sæti lista Viðreisnar í Hafnarfirði fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar.
Prófkjörið fer fram laugardaginn 17. janúar frá kl. 00.01 til kl. 19.00
Prófkjörið er rafrænt og fer frem á kjosa.net/vidreisn.
Leiðbeiningar fyrir rafræna kosningu má finna hér. Ef vandræði verða við kosningu er hægt að hafa samband við kjörstjórn með því að koma á Suðurlandsbraut á kjördag á milli 10.00 og 17.00.
Einnig er hægt að senda póst á hafnarfjordur@vidreisn.is.
Rétt til atkvæðagreiðslu hafa allir skráðir félagar í Viðreisn í Hafnarfirði, 16 ára og eldri, sem eiga lögheimili í Hafnarfirði og hafa skráð sig í Viðreisn a.m.k. 2 dögum fyrir upphaf prófkjörs.
Niðurstaða prófkjörs verður kynnt á kosningavöku Viðreisnar á Hafnarfirði sem verður á A. Hansen og hefst kl. 19.00
Ég gef kost á mér til að leiða lista Viðreisnar í bæjarstjórnarkosningunum 16. maí næstkomandi. Hef leitt listann undanfarnar tvennar kosningar og tel að við höfum náð góðri fótfestu í bæjarmálunum í Hafnarfirði og skapað okkur sérstöðu sem við getum byggt á í næstu kosningum. Aðstæður eru flokknum hliðhollar til að ná markmiði okkar um fjölgun bæjarfulltrúa og koma okkur í meirihluta og þar með stjórn bæjarins.
Grunnurinn að öllum framfaramálum er traustur fjárhagur, því miður þarf að gera gangskör í því að ná grunnrekstrinum í það horf að ekki þurfi að greiða með rekstrinum eins og allt þetta kjörtímabil. Það er hægt að gera með nútímalegri stjórnun þar sem upplýsingakerfi eru nýtt til að þróa nýja betri ferla sem nýta sér nýjustu og áreiðanlegustu upplýsingar til eru þannig að góðar ákvarðanir geti verið teknar.
Næstu ár verða mikilvæg þegar kemur að stækkun bæjarins, þar þarf að vanda mjög til verka og koma Hrauni Vestur og Óseyrarsvæðinu af stað og standa vörð um að þar muni lífsgæði og falleg byggð verða ofan á. Einnig þarf að klára Vellina, leggja áherslu á að ljúka öllum framkvæmdum þar.
Fjölbreytni og valfrelsi er mantran mín í pólitík. Eina raunverulega frelsið er valfrelsi. Því vil ég standa fyrir auknu valfrelsi í grunn og leikskólamálum. Ég vil auka valfrelsi eldra fólks þegar kemur að stuðningi og lífsgæðum þessa hóps. Sama má segja um þjónustuna við fólk með fötlun, þar á valfrelsið að ráða för, í því í frelsinu býr mannleg reisn.
Ég mun standa vörð um gildi Viðreisnar sem gengur út á það að sýna ábyrgð í fjármálum og vera frjálslynd í hinu félagslega þætti samfélagsins. Þar sem almannahagsmunir ráði för en ekki sérhagsmunir.
Innan okkar raða býr mikill mannauður og ég óska eftir stuðningi og umboði til að leiða þann öfluga hóp til góðra verka. Við höfum náð að vinna okkur inn aukið traust hjá bæjarbúum, það er hægt að byggja góðan árangur í vor á þeirri vinnu sem við höfum unnið undanfarin tvö kjörtímabil.
Með Viðreisnarkveðju
Jón Ingi Hákonarson
Bæjarfulltrúi
Karólína Helga Símonardóttir, m.a. í mannfræði, með kennsluréttindi á öllum skólastigum og atvinnurekandi. Gift Magnúsi Birni Bragasyni, eigum við samanlagt sex börn.
Í dag er ég varabæjarfulltrúi Viðreisnar og 1.varaþingmaður Viðreisnar í Suðvestur kjördæmi.
Ég hef um áratuga reynslu af bæjarmálum og þekki starfsemi Hafnarfjarðar af eigin raun. Ég hef setið í ráðum bæjarins, starfað fyrir sveitarfélagið og alið upp börn í Hafnarfirði, allt frá dagforeldri og upp í framhaldsskóla. Sú reynsla gefur mér dýrmæta yfirsýn og skilning á því hvernig ákvarðanir bæjarstjórnar snerta daglegt líf fólks.
Fyrir mér er Hafnarfjörður ekki bara stjórnsýslueining. Hann er samfélag, saga og samheldni. Þetta er sjávarþorp þar sem fólk heilsast á götu, ræðir málin í sundlauginni og stendur saman þegar á reynir. Þessi sérstaða er styrkur sem við eigum að vernda, en líka byggja ofan á með framsýnum hætti.
Verkefni sveitarfélagsins eru stór og krefjandi. Þau kalla á skýra sýn, ábyrg fjármál, faglega stjórnsýslu og raunhæfar lausnir. Ég legg áherslu á gagnsæi, vandaða ákvarðanatöku og að almannahagsmunir séu alltaf í forgrunni. Traust skapast ekki með orðum einum saman, heldur með stöðugri og ábyrga vinnu.
Ég býð mig fram til að leiða Viðreisn í Hafnarfirði inn í meirihluta bæjarstjórnar vegna þess að ég trúi því að bærinn okkar eigi meira inni. Með markvissri forystu, opnu samtali og samstarfi þvert á línur getum við bætt þjónustu, einfaldað kerfin og tryggt sjálfbæran rekstur til framtíðar.
Við munum láta verkin tala. Byggja upp Hafnarfjörð sem sterkt, sanngjarnt og framsækið samfélag þar sem ákvarðanir eru teknar með langtímahagsmuni bæjarbúa að leiðarljósi, og þar sem fallega sjávarþorpið okkar fær að blómstra inn í framtíðina.
Ég heiti Árni Stefán Guðjónsson og er 39 ára gamall Hafnfirðingur. Ég hef búið í bænum alla mína tíð, er menntaður sem kennari og starfa í dag sem áfangastjóri í Flensborgarskólanum í Hafnarfirði. Konan mín starfar úti á Völlum og saman eigum við tvö börn, eitt í grunnskóla og annað í leikskóla. Því má segja að Hafnarfjörður komi talsvert við sögu í daglegu lífi fjölskyldunnar.
Þannig hefur það raunar verið alla mína tíð, því ég byrjaði á leikskóla á Álfabergi, fór þaðan í Lækjarskóla og eftir það í Flensborg. Ég hef starfað sem skólaliði og stuðningsfulltrúi í Áslandsskóla, umsjónarkennari í Öldutúnsskóla, séð um spurningakeppni grunnskóla bæjarins, verið flokkstjóri í Vinnuskólanum á sumrin og þjálfað handbolta bæði hjá FH og Haukum.
Síðastliðin ár hef ég verið fulltrúi Viðreisnar í fjölskylduráði Hafnarfjarðar, ásamt því að leysa reglulega af sem varamaður í bæjarráði og bæjarstjórn. Þar hef ég öðlast dýrmæta reynslu í því hvernig bærinn okkar er rekinn dag frá degi og svo þekki ég líka vel til ákveðinna málaflokka úr mínu daglega lífi, til að mynda þegar kemur að leikskóla- og grunnskólamálum, íþróttum og forvarnarstarfi. Við fjölskyldan höfum lifað góðu lífi hér í Öldutúninu í að verða sex ár, en neyðumst nú til að reyna að stækka við okkur. Ég þekki þannig því miður ansi vel hvernig staðan er á húsnæðismarkaðinum í dag. Þetta eru að mínu mati nokkur af stærstu málunum sem blasa við okkur í vor og eitthvað sem ég ætla mér að berjast fyrir.
Ég horfi björtum augum til kosninganna í vor, enda veit ég að Viðreisn mun stilla upp öflugum lista af fólki sem berst fyrir því að gera góðan Hafnarfjörð að enn betri bæ. Ég hlakka til að kynna málefnin og taka samtalið við bæjarbúa, jafnt nú í kosningabaráttunni sem er framundan og ekki síður að kosningum loknum.
Ég heiti Hjördís Lára Hlíðberg og er 31 ára Hafnfirðingur. Ég býð mig fram til 2. sætis og óska eftir ykkar stuðningi. Ég tel mikilvægt fyrir Hafnarfjörð að hafa fulltrúa innan sinna raða sem koma inn með nýja sýn á verkefni bæjarins byggða á verðmætri reynslu af krefjandi störfum á almennum vinnumarkaði hérlendis og erlendis. Með aukinni breidd í hópi bæjarfulltrúa getum við náð betri árangri saman.
Ég tala fyrir ábyrgri stjórn, skynsamlegri meðferð fjármuna og nútímalegri stjórnarháttum þar sem við nýtum stafrænar lausnir í auknum mæli til íbúasamráðs, gagnsæis og hraðari þjónustuveitingar. Þannig getum við leiðrétt mikla skuldsetningu bæjarsjóðs og lækkað fjármagnskostnað. Það veitir okkur aukið fjárhagslegt svigrúm til að einblína á það sem mestu máli skiptir: grunnþjónustu bæjarbúa. Ég legg áherslu á að auka valfrelsi einstaklinga þegar kemur að þjónustu, allt frá leikskólum til búsetu og stuðningi við eldri íbúa.
Með ykkar stuðningi get ég nýtt mína reynslu og krafta til að vinna markvisst fyrir Hafnarfjörð. Í dag starfa ég sem verkefnastjóri hjá JBT Marel og sit í framkvæmdastjórn Uppreisnar, ungliðahreyfingar Viðreisnar. Í mínum daglegu störfum fæst ég við verkefni tengd sjálfbærni og stefnumótun alþjóðlegs fyrirtækis með starfsemi um allan heim. Áður hef ég starfað hjá fjárfestingabankanum Morgan Stanley í London og hjá Uppbyggingarsjóði EES í Brussel. Sú reynsla hefur mótað mín vinnubrögð, hæfni og langtímahugsun og vonast ég eftir ykkar trausti til að nýta hana af heilindum í þágu Hafnarfjarðar.