Kosið verður í oddvitasæti á lista Viðreisnar í Reykjavík fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar.
Prófkjörið fer fram laugardaginn 31. janúar frá kl. 00.01 til kl. 18.00
Prófkjörið er rafrænt og fer frem á kjosa.net/vidreisn.
Leiðbeiningar fyrir rafræna kosningu má finna hér. Ef vandræði verða við kosningu er hægt að hafa samband við kjörstjórn með því að koma á Suðurlandsbraut á kjördag á milli 10.00 og 17.00.
Einnig er hægt að senda póst á reykjavik@vidreisn.is.
Rétt til atkvæðagreiðslu hafa allir skráðir félagar í Viðreisn í Reykjavík, 16 ára og eldri, sem eiga lögheimili í Reykjavík og hafa skráð sig í Viðreisn a.m.k. 2 dögum fyrir upphaf prófkjörs.
Ég er fjölskyldumaður í Fossvogi, heppinn að vera giftur Ágústu Jónsdóttur og einstaklega lukkulegur með okkar fjögur börn og þrífætta undrið Kríu. Ég hef sannfæringu fyrir því að Viðreisn vinni sigur í Reykjavík með skýrum skilaboðum, jákvæðni og hugrekki!
Ég hef brennandi áhuga á að skapa fallega Reykjavík sem styður betur við fjölskyldur og þar sem atvinnulíf dafnar.
Reykjavíkurborg á að veita þjónustu sem nýtist fólki í þeirra daglega lífi, eins og leikskóla, grunnskóla og öldrunarþjónustu og ekki dreifa orkunni.
Velferð barna er forgangsatriði. Burt með biðlista eftir leikskólum og annarri nauðsynlegri þjónustu.
Ég stend fyrir frelsi. Það er ekki hlutverk sveitarfélags að hafa skoðun á því hvort fólk kýs að notast við einkabíl eða stjórna því hvort fólk byggi pall eða gróðursetji runna á lóðinni. Við veljum okkur lífsstíl og hvort við búum við náttúruna eða í mannlífinu.
Reykjavíkurborg á að skipuleggja lóðir sem hagkvæmt er að byggja á og þar sem að fólk vill búa. Samgöngusáttmálinn er besta verkfærið sem við höfum til að fá flæði í umferð og gefa fólki raunverulega valkosti.
Ég vil umhverfisvæna borg með góðum loftgæðum og nýta grænu svæðin betur fyrir fjölskyldur.
Ég vil ný atvinnusvæði og með einfaldari rekstri borgarinnar skapast tækifæri til að lækka álögur á atvinnurekstri.
Ég þekki vel að leiða saman ólíka hagsmuni:
Ég hlakka til að vinna í sterkri liðsheild!
Ég gef kost á mér sem oddvita Viðreisnar og vil leiða listann í borgarstjórnarkosningum í Reykjavík í vor.
Breytingar
Ég skynja sterkt að íbúar Reykjavíkur vilja breytingar. Kerfið er dýrt, flækjustigið er mikið og lögbundin grunnþjónusta er höfuðborginni ekki sæmandi. Fjármál borgarinnar eru ósjálfbær og mælingar sýna síendurtekið að traust til borgarstjórnar er afar lítið. Þetta er sorgleg staða sem ég brenn fyrir að breyta en ég starfaði sjálf í Ráðhúsinu þar til síðasta vor sem aðstoðarmaður borgarstjóra.
Viðreisn er flokkur sem lætur verkin tala. Flokkur sem stendur fyrir frjálslyndi, fagleg vinnubrögð og framfarir.
Hlutverk borgarfulltrúa er að fara vel með útsvarstekjur borgarbúa og forgangsraða. Pólitíkin á að hafa skýra sýn um stóru málin sem brenna hvað mest á borgarbúum. Þetta hlutverk verður að taka alvarlega og nauðsynlegt er að hugsa vel hvaða verkefni eru mikilvægust og hvar takmarkaðir fjármunir nýtast almenningi best. Þjóna verkefnin tilgangi sínum og er réttlætanlegt að verja í þau skattfé? Einfalda þau Reykvíkingum lífið?
Ný kynslóð
Ég vil vera hluti af nýrri kynslóð í borgarstjórn sem er réttu megin við núllið og sinnir vel lögbundnum verkefnum og grunnþjónustu; leik- og grunnskólum, heldur stöðugu framboði af lóðum á markaði, vinnur að því að unga fólkið geti keypt íbúð og einfaldar eins og hægt er leikreglur fyrir uppbyggingaraðila húsnæðis og fólk sem gerist svo djarft að stofna fyrirtæki eða veita þjónustu í borginni.
Um mig
Ég er fertug fjölskyldukona í smáíbúðarhverfinu með börn á öllum skólastigum og í sambúð. Stjórnmálafræðingur með MA í hagnýtri menningarmiðlun en á háskólaárum var ég formaður Stúdentaráðs fyrir Röskvu. Ég hef starfað í fjölmiðlum stærsta hluta ævinnar; á fréttastofum, í útvarpi og sjónvarpi. Ég hef skrifað bækur og sjónvarpsþætti, m.a. Ráðherrann og Vigdísi, en er líka athafnastjóri hjá Siðmennt.
Ég elska Reykjavík og heiti því að gefa mig alla í þetta starf hljóti ég brautargengi. Prófkjörið er 31. janúar og öll sem eru 16 ára og eldri, búsett í Reykjavík og skráð í Viðreisn geta tekið þátt.
Reykjavík er stærsta og öflugasta sveitarfélag landsins og á að veita íbúum framúrskarandi þjónustu. Það hefur ekki tekist. Það eru langir biðlistar í þjónustu fyrir börn, umferðin fer á hliðina þegar snjóar og ungt fólk leitar út fyrir borgina í leit að húsnæði og leikskólaþjónustu. Upplifun borgarbúa er að fókus borgarstjórnar sé á önnur mál en grunnþjónustuna.
Enda mælist traust til borgarstjórnar undir 10% . Þetta á ekki að vera bragurinn á framsækinni borg.
Ég gekk til liðs við Viðreisn árið 2016 vegna þess að flokkurinn boðar valfrelsi, styður við atvinnulífið og hefur kjark til að taka til í fjármálum og rekstri. Ég býð mig fram í fyrsta sæti til að leiða öflugan hóp til sigurs í borgarstjórnarkosningum.
Ég sé fyrir mér borg með ábyrgum rekstri og fjárfestingu í innviðum í öllum hverfum. Borgarstjórn sem tekur stórar ákvarðanir með almannahagsmuni að leiðarljósi. Borg þar sem foreldrar hafa val um dagvistun og börn komast að í kjölfar fæðingarorlofs. Borg þar sem umferð gengur greitt og borgarbúar velja að ganga, hjóla, taka strætó eða keyra.
Borg þar sem borgarbúar hafa val um fjölbreytta búsetu.
Borg þar sem atvinnulífið fær frið til að skapa störf og verðmæti fyrir samfélagið.
Þessi framtíðarsýn kallar á breyttar áherslur í borgarstjórn. Þá framtíðarsýn þarf að móta á faglegan, framsækin og styðjandi hátt fyrir alla nærþjónustu Reykjavíkurborgar. Leiðarljósið er meira val og betri þjónusta fyrir borgarbúa, færri flækjur, og minna bruðl og bras.
Ég er sérfræðingur í stjórnsýslu með rekstur sveitarfélaga sem sérsvið. Ég hef verið bæjarstjóri, stofnað og rekið eigið fyrirtæki og verið meðeigandi í KPMG, stærsta ráðgjafarfyrirtæki landsins. Ég hef unnið með fólki úr öllum flokkum við að straumlínulaga rekstur, bæta þjónustu og efla samfélög. Meðal annars fyrir Reykjavíkurborg. Alltof oft stranda góðar hugmyndir og komast ekki til framkvæmda. Óþreyja mín fyrir því hefur vaxið og nú vil ég stíga inn á pólitíska sviðið, taka ábyrgð, ná góðum árangri og auka traust til borgarstjórnar. Reynsla mín af því að leiða fólk saman og finna sameiginlegar lausnir mun bæta rekstur borgarinnar og skila peningum í þjónustuna sem við viljum fá.
Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mér finnst ég eiga erindi.
Ég hef brunnið fyrir stjórnmál í 50 ár. Að taka skýra afstöðu til mála hefur verið mín sérstaða alla tíð og mér segir svo hugur að það geti verið ágætt innlegg inn í pólitíska umræðu núna í aðdraganda sveitarstjórnakosninga árið 2025.
Ég er viðskiptafræðingur að mennt – bóndadóttir alin upp í íslenskri sveit. Hef starfað í flutningum og í þjónustu við út- og innflytjendur meira og minna. Var beinn þátttakandi í þeim gríðarmiklu breytingum sem urðu á íslensku hagkerfi á tíundaáratug síðustu aldar og í upphafi þessarar. Fylgdist í forundran með gullæðinu í byrjun aldarinnar og síðan hruninu í kjölfarið. Hef alltaf haft gríðarlegan áhuga á stjórnmálum – ekki síst efnahagsmálum – og aldrei skilið almennilega að við Íslendingar teldum að við ættum umfram allt að halda í óbreytta stöðu. Hef verið sannfærður Evrópusambandssinni í a.m.k. 30 ár og byggi þá sannfæringu á reynslu minni af alþjóðaviðskiptum.
Um fjögurra ára skeið, í aðdraganda og eftirmála hrunsins, var ég í forystu fyrir flutningagreinina á Íslandi sem forstöðumaður flutningasviðs SVÞ og átti mikil samskipti við ráðuneytin, stjórnsýslustofnanir og Alþingi. Þar barðist ég fyrir samgöngumálaflokkinn með oddi og egg og mér er til efs að sá málaflokkur hafi í annan tíma fengið aðra eins athygli.
Ég er forkur dugleg og kraftmikill einstaklingur sem læt til mín taka á hverjum þeim vettvangi sem ég starfa á og langar að gera það á vettvangi borgarmála. Fólk sem hefur starfað með mér veit að ég get flutt fjöll, ef það er það sem ég hyggst gera.
Líf mitt hefur ekki verið samfelld sigurganga – ég hef átt mín erfiðu tímabil sem ég lít nú svo á að styrki mig frekar en hitt.
Ég er áhugamaður um manneskjuna og manneskjuna í samfélaginu. Mér er annt um fólk og ég brenn fyrir stjórnmál. Ég veit að stjórnmál skipta máli. Ég trúi að skýr afstaða skipti máli og ég þori, get og vil!