Efnahagsmál

Grunnforsendur efnahagslegra framfara, aukinnar framleiðni og varanlegrar kaupmáttaraukningar eru frjálsari viðskipti, markviss efnahagsstjórn og einfaldara reglu- og skattaumhverfi. Tryggja þarf öfluga samkeppni, stöðugan gjaldmiðil og virka þátttöku í alþjóðaviðskiptum. Markaðslausnir skulu ávallt nýttar þar sem þær nýtast best.

 

  • Markviss hagstjórnar- og atvinnustefna fyrir stöðugleika og velferð
  • Markaðslausnir í þágu almennings
  • Ábyrg ríkisfjármál og hófleg skattheimta
  • Aðild að ESB og upptaka evru eykur verðmætasköpun, kaupmátt og lífskjör

 

Landsþing 21. september 2025

 

Markviss hagstjórnar- og atvinnustefna fyrir stöðugleika og velferð


Hagvöxtur er undirstaða aukins kaupmáttar og betri lífskjara á Íslandi. Viðreisn vill skapa grundvöll fyrir uppbyggingu samkeppnishæfs atvinnulífs sem skapar þjóðinni velsæld og hagsæld. Stöðugleiki er forsenda fyrir heilbrigðu samkeppnisumhverfi og raunverulegum hagvexti sem skilar sér í auknum tækifærum fyrir alla landsmenn.


Hagstjórnar- og atvinnustefna treysti stoðir fjölbreytts atvinnulífs um land allt. Skapa þarf skilyrði fyrir enn meiri vexti í greinum þar sem verðmætasköpun og framleiðni er mikil, störf eru vel launuð og sókn á erlenda markaði veruleg. Gæta þarf þess að framfarir í tækni, s.s. stafræn umbreyting og tækniþróun séu nýtt til hins ýtrasta.


Markaðslausnir í þágu almennings


Lög og reglur eiga fyrst og fremst að þjóna almannahagsmunum og tryggja: Öryggi, frelsi, neytendarétt og velsæld. Til þess þarf efnahagsumhverfi sem byggir á gagnsæi, samkeppni og jafnræði. Hið opinbera á að draga sig úr samkeppnisrekstri nema þar sem almannahagsmunir verða ekki tryggðir með öðru móti. Markmið hins opinbera á að vera að veita góða og aðgengilega þjónustu með sem lægstum tilkostnaði, óháð því hver veitir þjónustuna.


Margvísleg tækifæri og hagræðing felast í því að endurskipuleggja innkaup, framkvæmdir og fjárfestingar á vegum hins opinbera. Beita á styrk ríkisins til þess að ná sem bestum kjörum á markaði. Það þýðir aukna hagkvæmni og betri þjónustu með minni tilkostnaði. Samhliða er hægt að draga verulega úr umsvifum ríkisins.


Ábyrg ríkisfjármál og hófleg skattheimta

 

Traust hagstjórn, með öguðum ríkisfjármálum og bættum vinnubrögðum á vinnumarkaði, eru forsenda stöðugleika og hagsældar. Viðreisn vill lækka skuldir og einfalda stjórnsýslu. Ríkissjóður á að vera í jafnvægi, draga úr útgjöldum í þenslu og auka fjárfestingu í slaka. Meiri hagræðing og skilvirkni í opinberum rekstri, aukið aðhald og sameining stofnana og sjóða tryggir fjármögnun velferðarmála án þess að ógna stöðugleika eða kjörum almennings.


Viðreisn leggur ríka áherslu á að styrkja enn frekar í sessi rammasetningu fjárlaga. Þessi nálgun ásamt stöðugleikareglu er til þess fallin að auka nauðsynlegan aga og festu í ríkisfjármálum.

 

Skattkerfið á að vera einfalt, sanngjarnt og byggja á meginreglum jafnræðis og hófsemi, þar sem allir bera réttlátar byrðar. Virðisaukaskattur ætti að vera samræmdur milli atvinnugreina til að skekkja ekki samkeppni. Við endurskoðun skattlagningar fjármagnstekna er mikilvægt að taka tillit til raunávöxtunar þannig að skattar séu greiddir af hagnaði umfram verðlagsbreytingar. Auka þarf vægi grænna skatta og auðlindagjalda. Tekjur af þeirri skattlagningu má nýta til að lækka aðra óhagkvæmari skatta.

 

Efla þarf skattrannsóknir og styðja alþjóðlegt samstarf til að tryggja að einstaklingar og fyrirtæki greiði sanngjarna skatta þar sem tekjur verða til.


Aðild að ESB og upptaka evru eykur verðmætasköpun, kaupmátt og lífskjör

 

Þátttaka Íslands í innri markaði ESB í gegnum EES hefur verið lykilforsenda aukinnar verðmætasköpunar, útflutnings og batnandi lífskjara síðustu þrjá áratugi. Á síðustu árum hefur hins vegar orðið stöðnun í framleiðni, þar sem hagvöxtur hefur að mestu byggt á innfluttu vinnuafli en ekki aukinni verðmætasköpun. Til að tryggja varanlega aukningu kaupmáttar þarf atvinnulíf þjóðarinnar að þróast í átt að fjölbreyttara, alþjóðlegra og þekkingardrifins umhverfis.


Forgangsmál Viðreisnar er að vinna að stöðugleika í efnahagsmálum og hallalausum ríkisrekstri, á grundvelli hagsýni og ábyrgrar efnahagsstjórnar. Umbætur og hagræðing í ríkisrekstri er viðvarandi verkefni til þess að standa vörð um lífsgæði almennings án þess að reikningurinn sé sendur komandi kynslóðum. Árangur í þeim efnum er ekki sjálfgefinn og betri stöðugleiki myndi nást ef á Íslandi væri sterkur alþjóðlegur gjaldmiðill. Krónan hefur enda skapað heimilum, fyrirtækjum og hinu opinbera mikinn kostnað og óvissu sem dregur úr fjárfestingum og framleiðniaukningu.

 

Raunvaxtamunur milli krónu og evru er að jafnaði 4–5% sem jafngildir um 500 milljörðum króna á ári í aukinn vaxtakostnað eða 1,4 milljarða á dag. Fyrir ríkissjóð nemur þetta um 80 milljörðum króna á ári, fjármunum sem betur væri varið í heilbrigðisþjónustu, menntun eða uppbyggingu innviða. Fyrir heimili og fyrirtæki þýðir þetta að vaxtabyrði er oft þrefalt hærri en hún væri innan evrusvæðisins. Þessi mikli kostnaður krónunnar, umfram evru er nokkurs konar krónuskattur á þjóðina sem hægt er að losna undan með hraðri upptöku evru.


Evran er stór og stöðugur gjaldmiðill sem lækkar fjármagnskostnað, dregur úr kerfisáhættu og styrkir hagkerfið gegn áföllum. Hún gerir mögulega langtímasamninga á sanngjörnum kjörum, gerir erlenda samkeppni á fjármála- og vátryggingamarkaði mögulega og auðveldar fjárfestingar í nýsköpun og fjölbreyttu atvinnulífi. Innri eða ytri áföll sem valda gengisfalli og hárri verðbólgu geta átt upptök sín frá fjármálakerfi, hrávörusveiflum eða náttúruhamförum. Með evru dregur stórlega úr þessari áhættu og stöðugleiki eykst. Þjóðaröryggi myndi aukast með sameiginlegum varasjóðum og neyðaraðstoð s.s. í náttúruhamförum og varnarsamstarfi Evrópuþjóða.


Aðild að Evrópusambandinu og upptaka evru myndi þannig tryggja að Ísland njóti fulls ávinnings af innri markaði ESB líkt og önnur Evrópulönd. Það myndi skapa stöðugleika, efla verðmætasköpun, auka kaupmátt og bæta lífskjör almennings til framtíðar.