Jafnréttismál

Vitund og virðing fyrir kvenfrelsi og jafnrétti allra kynja er forsenda þess að uppræta staðalímyndir um hlutverk kynjanna og tryggja raunverulegt jafnrétti einstaklinga, óháð aldri, kyni eða uppruna eða líkamlegum og félagslegum aðstæðum, þar á meðal fötlun, trú, skoðunum og kynverund. Ísland skal áfram vera í fararbroddi á alþjóðavettvangi um jafnrétti. Uppræta þarf fordóma í samfélaginu og huga sérstaklega að stöðu þeirra sem höllustum fæti standa. Samfélagið á að styðja jafnt við alla foreldra með áherslu á að foreldrar eða forsjáraðilar og börn geti notið samvista. Einnig skal leggja sérstaka áherslu á að verja börn gegn ofbeldi.

 

  • Kynbundið ofbeldi er ólíðandi
  • Upprætum kynbundinn launa- og stöðumun
  • Tryggjum réttindi hinsegin fólks
  • Réttur fatlaðs fólks til sjálfstæðs lífs
  • Barnvænt og sveigjanlegt samfélag


Landsþing 21. september 2025


Kynbundið ofbeldi er ólíðandi


Kynbundið ofbeldi og ofbeldi í nánum samböndum verður að uppræta með forvörnum, fræðslu og opinni umræðu. Tryggja þarf þolendum nauðsynlegan stuðning um land allt. Styrkja þarf réttarstöðu brotaþola og efla traust þeirra á kerfinu. Hlutverk réttargæslumanna þarf að skýra betur og veita brotaþolum aðild að sakamálum.


Mikilvægt er að efla þekkingu innan réttarvörslukerfisins á ólíkum birtingarmyndum ofbeldis í nánum samböndum, til dæmis í samkynja samböndum, þegar karlmenn eru þolendur, eða konur af erlendum uppruna. Tryggja þarf úrræði fyrir þá sem beita ofbeldi til að draga úr endurteknum brotum.


Lagaumhverfi þarf að taka mið af nýjum tegundum afbrota, þar á meðal rafrænu kynferðisofbeldi og kynjuðu ofbeldi.


Brýnt er að fjármögnun og samstarf ríkis, sveitarfélaga, fræðasamfélagsins og grasrótarsamtaka sé samhæft og að nýjar leiðir séu þróaðar í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi í takt við samfélagsbreytingar og tækniþróun. Kynbundið ofbeldi er kerfisbundið ofbeldi.

Sérstaklega þarf að huga að stöðu jaðarsettra minnihlutahópa, þegar lagðar eru fram úrbætur á kerfinu.

 

Upprætum kynbundinn launa- og stöðumun


Jafnrétti á vinnumarkaði er grundvöllur réttláts og sanngjarns samfélags. Kynbundinn launa- og stöðumunur er óviðunandi og verður að uppræta. Því er það mikilvægt að jafna hlutföll kynja og ná fram félagslegri vídd á öllum sviðum.


Sérstakt þjóðarátak þarf, í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins, til að leiðrétta kjör kvennastétta þannig að þau verði sambærileg við aðrar stéttir með sambærilega menntun og ábyrgð. Ævitekjumunur kynjanna er einnig brýnt úrlausnarefni.


Unnið skal að markvissri styrkingu starfsfræðslu og fjölbreyttum fyrirmyndum í öllum störfum til að draga úr kynbundnu námsvali í nánu samstarfi við menntakerfið og aðila vinnumarkaðarins. Aðgerða er þörf til að draga úr miklu brottfalli drengja úr skólum.


Ríki og stofnanir eiga að beita kynjaðri fjárlagagerð og hafa jafnréttissjónarmið til viðmiðunar við allar ráðningar. Atvinnutækifæri á landsbyggðinni skipta máli þegar fólk velur sér búsetu og því þarf að tryggja jöfn tækifæri fyrir öll kyn um land allt.


Nauðsynlegt er að meta árangur jafnlaunavottunar og jafnlaunastaðfestingar í samstarfi ríkisvaldsins og aðila vinnumarkaðarins. Stefnt skal að því að einfalda kerfi jafnlaunavottunar með sama markmiði um launajafnrétti.


Tryggjum réttindi hinsegin fólks


Viðreisn telur brýnt að lagaleg réttindi hinsegin fólks séu tryggð með heildstæðri og víðtækri löggjöf þar sem mannréttindi og sjálfræði einstaklingsins yfir eigin líkama eru höfð að leiðarljósi.


Baráttunni fyrir jöfnum réttindum hinsegin fólks er hvergi nær lokið. Ísland er í dag í þriðja sæti á Regnbogakorti ILGA Europe, en enn eru brotalamir sem þarf að laga. Tryggja þarf hinsegin fólki raunveruleg og virk réttindi og byggja lagaramma sem veitir víðtæka vernd gegn mismunun, hatursorðræðu og hatursglæpum. Koma skal á samræmdu verklagi lögreglu vegna hatursglæpa gagnvart hinsegin fólki.


Taka þarf bakslagið alvarlega og berjast áfram gegn fordómum gagnvart hinsegin fólki, sérstaklega gagnvart trans og kynsegin einstaklingum. Efla þarf fræðslu, heilbrigðisþjónustu og félagsleg úrræði fyrir hinsegin fólk um allt land. Lögbundin þjónusta eins og grunnskólar tryggi samkvæmt aðalnámskrá hinsegin fræðslu innan forvarnaráætlunar hvers skóla.
Löggjöf og stjórnsýsla eiga að taka mið af fjölbreyttum fjölskylduformum og tryggja rétt hinsegin fólks til fósturs og ættleiðinga. Jafna þarf rétt samkynja para til foreldraviðurkenningar á við gagnkynja pör.


Auka þarf þekkingu og þjálfun í heilbrigðis- og félagsþjónustu í hinsegin málefnum, sérstaklega er viðkemur þjónustu við hinsegin eldri borgara.


Sérstakri athygli þarf að beina að stöðu hinsegin umsækjenda um alþjóðlega vernd við mótun útlendingalaga og reglna.


Réttur fatlaðs fólks til sjálfstæðs lífs


Viðreisn leggur áherslu á að fatlað fólk hafi sama rétt og tækifæri til þátttöku í samfélaginu og aðrir. Til að tryggja grundvallarmannréttindi fatlaðs fólks og jafnræði þarf að fjarlægja hindranir og skapa aðstæður sem gera öllum kleift að lifa sjálfstæðu lífi á eigin forsendum.


Lögfesta ber samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og fylgja honum eftir með skýrum aðgerðum. Samningar við sveitarfélög þurfa að tryggja réttláta skiptingu kostnaðar milli ríkis og sveitarfélaga.


Fatlað fólk á að njóta sambærilegra lífskjara og aðrir og samfélagið á að bjóða upp á aðstæður sem gera fólki með fatlanir kleift að lifa eðlilegu lífi á eigin forsendum. Tryggja þarf réttindi fatlaðs fólks á öllum sviðum samfélagsins og mæta fjölbreyttum þörfum þess. Stuðla skal að inngildingu á flestum sviðum samfélagsins svo fatlað fólk verði sýnilegra.


Vinna skal að auknum námstækifærum fyrir þá sem eru með skerta starfsgetu, bæði á framhalds- og háskólastigi og stuðla að auknum atvinnutækifærum þeirra.


Barnvænt og sveigjanlegt samfélag


Viðreisn vill tryggja jöfn tækifæri allra barna og skapa umgjörð sem styður við fjölbreyttar fjölskyldugerðir, gerir foreldrum kleift að sinna uppeldi á eigin forsendum og tryggir rétt barns til samvista við foreldra sína. Sveigjanleiki og jafnræði í fæðingar- og foreldraúrræðum styrkja fjölskyldur og bæta samfélagið.


Fæðingarorlof á að vera skilgreindur réttur barns til samvista við foreldra eða forsjáraðila allt þar til barn er fimm ára. Ef forsjáraðilar eru tveir skiptist rétturinn jafnt á milli þeirra en barn með eitt foreldri eða einn forsjáraðila skal njóta fullra réttinda.


Greiðslur úr fæðingarorlofssjóði eiga að nema að lágmarki 80 prósent af tekjum og hámarksgreiðslur skulu hækka verulega. Fæðingarstyrkur námsmanna, fólks í hlutastarfi og þeirra sem eru nýkomin á vinnumarkað þarf að hækka í samræmi við opinber neysluviðmið.


Viðreisn vill tryggja jafna stöðu foreldra með sameiginlega forsjá með því að heimila skráningu barns með lögheimili hjá báðum foreldrum. Þannig hefur hvorugt foreldri ríkari rétt en hitt til að taka afgerandi ákvarðanir um daglegt líf barnsins.


Nöfn eru nátengt sjálfsmynd og sjálfsvitund fólks og varða fyrst og fremst einkahagi og persónurétt og því vill Viðreisn að fólk eigi að vera frjálst að velja sér og börnum sínum nöfn án afskipta ríkisins.