Menntun er undirstaða jafnréttis, tækifæra og velferðar í samfélagi okkar og er um leið forsenda framþróunar. Öflugt menntakerfi byggir á framúrskarandi menntun með áherslu á þekkingu, vellíðan, þrautseigju og öfluga félagsfærni og tekur tillit til örra breytinga samfélagsins. Viðreisn leggur áherslu á að fjölga menntuðu starfsfólki innan menntastofnana til að tryggja gæði menntunar. Aðgengi að námi, skapandi félags- og tómstundastarfi og fjölbreyttu menningaruppeldi frá unga aldri skal vera aðgengilegt öllum, óháð uppruna, búsetu, efnahag eða stöðu að öðru leyti. Öll sem ekki hafa íslensku að móðurmáli skulu fá stuðning og eftirfylgni til að þau hafi jafnar forsendur til náms og virkrar þátttöku í samfélaginu.
Landsþing 21. september 2025
Nám fer fram alla ævi og því er mikilvægt að byggja brýr milli allra skólastiga og tryggja frelsi einstaklinga til að stunda nám sem hentar hverjum og einum. Viðreisn leggur jafnt vægi á bók-, verk-, iðn- og listnám á öllum skólastigum með fjölbreyttu rekstrarformi og sveigjanlegu námi sem leiðir til viðurkenningar á vinnumarkaði þar sem þörfum einstaklinga er mætt á öllum skólastigum. Viðreisn leggur áherslu á að efla menntun og færni einstaklinga með öflugu samstarfi stjórnvalda, menntakerfis og atvinnulífs.
Aukið val samhliða fjölbreyttum náms- og kennsluháttum gefur nemendum á öllum skólastigum kost á fræðslu við hæfi þar sem þeir fái notið sín og vaxið. Sérstaklega skal styðja við nemendur með ólíka færni á öllum skólastigum og auka námsframboð á efri skólastigum. Viðreisn vill efla aðgengi fatlaðs fólks að námi á öllum skólastigum og styrkja stöðu þeirra sem þurfa sértækan stuðning í skólakerfinu.
Menntastefna allra skólastiga þarf að endurspegla mikilvægi stafrænnar færni og þekkingar til að búa og starfa í nútímasamfélagi. Aðgengi að stafrænni tækni er brýnt jafnréttismál og grunnur þess að öll hafi jafnt aðgengi að þjónustu. Stafræn færni í sí- og endurmenntun er forsenda þess að Ísland geti tekist á við tækniframfarir og þær breytingar sem þær munu hafa í för með sér.
Námslán og skólagjöld taki mið af því að öll hafi jöfn tækifæri til framhalds- og háskólanáms, óháð efnahag og búsetu. Viðreisn vill tryggja að námslánakerfið endurspegli þessa sýn og taki mið af breyttum samfélagsaðstæðum og fjölbreytni námsmanna. Námslán eiga ekki að vera fjárhagsleg áhætta heldur fjárfesting til aukinnar verðmætasköpunar í framtíðinni. Viðreisn vill efla enn frekar styrkja- og lágvaxtalánakerfi námslána.
Styðja þarf við þverfaglegt samstarf innan skóla til að mæta þörfum nemenda með öflugu teymissamstarfi fagfólks á sviðum velferðar, heilbrigðis og menntastofnana. Búa þarf kennurum og öðru starfsfólki gott starfsumhverfi á öllum skólastigum. Leggja skal áherslu á starfsþróun, markvissa faglega endurgjöf, tæknivætt starfsumhverfi og samþætta stoðþjónustu. Stoðþjónusta innan menntakerfis er nauðsynleg nemendum og því vill Viðreisn tryggja gott aðgengi að sálfræðiþjónustu og náms- og starfsráðgjöf á öllum skólastigum.
Leikskólinn er fyrsta skólastigið og gegnir lykilhlutverki í þroska, vellíðan og menntun barna. Brúa verður bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla enn frekar til að tryggja samfellu í þjónustu við ung börn og styðja fjölskyldur. Viðreisn vill efla íslenskufærni barna sem hafa annað móðurmál en íslensku enn frekar, innan leikskólastigsins, með það að markmiði að styrkja þátttöku þeirra í leik og námi.
Viðreisn leggur áherslu á að þverfaglegur stuðningur í grunnskólum sé aukinn með snemmtæka íhlutun að leiðarljósi, þar sem fleiri fagstéttir vinna saman að heildstæðri velferð nemenda. Námsmat í grunnskólum skal vera skýrt, einfalt og gagnsætt. Það á að styðja við ábyrgð nemenda á eigin námi og gera foreldrum kleift að fylgjast með og styðja við námsferlið. Viðreisn vill leiða samtal um endurskoðun sumarleyfis í grunnskólum í samvinnu við sveitarfélög til að koma til móts við þarfir barna. Efla þarf móttöku barna með fjölbreyttan menningar- og tungumálabakgrunn innan grunnskóla og búa til námsefni sem tryggir að þau fái menntun við hæfi í íslensku og samfélagsfræði með það að markmiði að þeim sé tryggð jöfn tækifæri til þáttöku í íslensku samfélagi.
Til að efla aðgengi og stuðning fyrir nemendur af erlendum uppruna leggur Viðreisn áherslu á að bjóða upp á fjölbreyttar námsbrautir sem tryggja jöfn tækifæri til náms, óháð bakgrunni. Endurskoða þarf inntöku- og umsóknarkerfi námsbrauta með tilliti til nemenda sérdeilda.
Með aukinni samvinnu framhaldsskóla skapast tækifæri til þróunar á nýjum námsbrautum sem og nýsköpun í skólastarfi.
Efla þarf framhaldsfræðslukerfið, fimmtu menntastoðina enn frekar til að mæta breytingum á vinnumarkaði og gera fólki kleift að efla hæfni sína í lífi, námi og starfi. Mæta þarf þörfum atvinnulífsins með hliðsjón af færniþörf til framtíðar m.a. með raunfærnimati á öllum skólastigum og fjölbreyttu námsframboði. Mikilvægt er að koma til móts við fullorðna einstaklinga sem ekki hafa lokið formlegu námi og veita þeim tækifæri til náms. Viðreisn leggur áherslu á að efla íslenskunám fyrir fullorðna innflytjendur.
Viðreisn lítur á háskólastigið sem lykilþátt í nýsköpun, efnahagsþróun og lýðræðisþátttöku. Háskólamenntun skal vera aðgengileg, sveigjanleg og tengd samfélaginu þar sem þekking, færni og fjölbreytt lífsreynsla er metin til jafns. Háskólar skulu vera til fyrirmyndar hvað varðar faglegt frelsi, akademíska getu og samfélagslega ábyrgð. Sérstök áhersla skal lögð á að háskólastarf styðji við fjölbreytileika, jöfnuð og virka þátttöku allra hópa í menntun og þekkingarsköpun.
Með aukinni samvinnu og sameiningu háskóla skapast tækifæri til að auka gæði, faglega sérhæfingu og skilvirkni og þannig nýta betur opinbert fjármagn.
Viðreisn leggur áherslu á sí- og endurmenntun sem hluta af grunnstoðum öflugs velferðar- og atvinnulífs. Þekkingarþörf breytist hratt og mikilvægt er að allir hafi tækifæri til að læra og bæta við sig þekkingu á öllum aldri. Menntakerfið á að styðja við færniþróun starfsfólks og bjóða upp á sveigjanlegar leiðir fyrir fólk sem vill breyta um starfsvettvang eða sækja sér aukna þekkingu.
Viðreisn leggur áherslu á að móta stefnu fyrir íslenskunám á vinnustað í samvinnu við atvinnulífið.
Tryggja skal jafnt aðgengi barna, óháð efnahag, uppruna, getu og búsetu, að skapandi félags- og tómstundastarfi og fjölbreyttu menningaruppeldi frá unga aldri. Slíkt getur af sér víðsýna einstaklinga með sterka sjálfsmynd og hæfni til að takast á við ný og óþekkt störf framtíðar. Viðreisn vill leita allra leiða til að hvetja börn og unglinga af erlendum uppruna til þátttöku í félags- og tómstundastarfi.
Viðreisn vill stefna að heilsueflandi samfélagi fyrir alla aldurshópa. Félags-, íþrótta- og tómstundastarf, fyrir börn jafnt sem fullorðna og eldri borgara, stuðlar að aukinni félagsfærni og lýðræðisvitund, hefur forvarnargildi og bætir heilsu og vellíðan. Með styttingu vinnuvikunnar gefst fólki á öllum aldri aukinn tími til að rækta tómstundir sínar, bæta lífsgæði og efla virkt hlutverk eldri borgara.
Tryggja þarf að skipulagt íþróttastarf hafi skýrar jafnréttisáætlanir og að þátttakendum sé ekki mismunað á grundvelli kyns, kynhneigðar, kynvitundar, kyntjáningar, uppruna eða ólíkrar getu.
Tryggja skal sérsamböndum markvissan stuðning og betri aðstöðu til að hlúa að afreksfólki og þjálfa það. Fyrirmyndir á sviði afreksíþrótta eru ómetanlegar fyrir allt forvarnarstarf og uppbyggingu íþrótta- og æskulýðsmála. Alþingi hefur samþykkt tillögu Viðreisnar um mótun heildstæðrar stefnu um afreksfólk í íþróttum í samvinnu við Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands og sveitarfélögin. Fylgja þarf samþykkt tillögunnar eftir og tryggja að afreksíþróttafólki verði búin umgjörð sem sómi er að. Tryggt verði aukið fjármagn í Afrekssjóð ÍSÍ sem renni í ríkara mæli til yngri landsliða og afreksfólks óháð kyni.
Öflugt menningarstarf um allt land er forsenda blómlegrar byggðar. Við eflingu menningarstarfs skal horfa til efnahagslegrar þýðingar þess og skapandi greina, sem verður sífellt mikilvægari hluti atvinnulífs og verðmætasköpunar. Viðreisn mun halda áfram að styðja við listir og hugvísindi, ekki síst á þeim forsendum að með því sé stutt við íslenska tungu, sagnaarf og menningu og hún kynnt á erlendum vettvangi. Endurskoða þarf menningartengda sjóði, þ.e. launa-, rannsókna- og verkefnasjóði með það fyrir augum að efla þá enn frekar og tryggja fagleg og gagnsæ vinnubrögð við úthlutun. Efla skal verndun, kynningu, fræðslu, hagnýtingu og rannsóknir á menningararfi þjóðarinnar. Gera þarf gangskör að því að taka til umfjöllunar og eftir atvikum staðfesta margvíslega sáttmála Evrópu og/eða UNESCO sem stuðla að rétti komandi kynslóða til menningararfsins.
Frjálsir og óháðir fjölmiðlar eru hornsteinn lýðræðisins. Viðreisn vill tryggja heilbrigt og sjálfstætt fjölmiðlaumhverfi, þar sem bæði almannaþjónusta og einkareknir fjölmiðlar hafa menningar- og lýðræðislegu hlutverki að gegna. Nauðsynlegt er að huga að samkeppnisstöðu einkarekinna fjölmiðla og stuðningi hins opinbera, sérstaklega við innlenda dagskrárgerð. Veru RÚV á auglýsingamarkaði þarf að endurskoða með tilliti til stöðu einkarekinna fjölmiðla. Viðreisn telur að erlendir miðlar sem auglýsa á Íslandi, svo sem Facebook og Google, skuli greiða skatta til íslenska ríkisins, til jafns við aðra auglýsingamiðla.