Ísland á að vera virkt í alþjóðlegu samstarfi sem málsvari mannréttinda, jafnréttis og frjálsra og réttlátra viðskipta. Þannig stöndum við best vörð um fullveldi og velferð Íslands og lýðræði og frið á heimsvísu. Ísland á heima í samfélagi Evrópuþjóða sem virkur þátttakandi í Evrópusambandinu enda er hagsmunum landsins best borgið í fjölþættu samstarfi lýðræðisríkja sem bera virðingu fyrir alþjóðalögum og mikilvægi fjölþjóðasamstarfs.
Landsþing 21. september 2025
Evrópuhugsjónin um frið, hagsæld og samvinnu lýðræðisþjóða er kjarni í stefnu Viðreisnar. Ísland á að auka enn frekar þátttöku sína í Evrópusamstarfinu og gerast fullgildur aðili að Evrópusambandinu. Við eigum landfræðilega, menningarlega og efnahagslega samleið með þeim sjálfstæðu og fullvalda ríkjum sem þar hafa átt gott og farsælt samstarf frá stofnun Evrópusambandsins.
Verkefni samtímans og áskoranir framtíðarinnar krefjast afgerandi aðgerða og virkrar samvinnu. Núverandi þátttaka Íslands í Evrópusamstarfinu í gegnum samninginn um Evrópska Efnahagssvæðið hefur reynst mjög vel í rúm 30 ár og verið undirstaða hagvaxtar og bættra lífskjara. EES samningurinn er jafnframt stærsta skrefið að aðild.
Ísland deilir sömu gildum og Evrópusambandið og Viðreisn vill að Ísland stigi lokaskrefið í að auka samstarf við aðrar Evrópuþjóðir um mannréttindamál, öryggismál og virðingu fyrir alþjóðalögum. Þannig tryggjum við góð lífskjör og öryggi til frambúðar. Ísland tekur þegar þátt í umfangsmiklu samstarfi við Evrópusambandið á grundvelli EES samningsins sem hefur veruleg áhrif á fjölmörg svið íslensks samfélags. Það er óviðunandi að Ísland taki ekki þátt í stefnumótun og ákvörðunum sem varða okkar samfélag og eigi ekki sæti við borðið. Sjálfstæð og fullvalda þjóð á ekki að sætta sig við þessa stöðu heldur hafa sjálfstraust til að stíga skrefið til fulls.
Á þeim forsendum leggur Viðreisn höfuðáherslu á að ljúka aðildarviðræðum við Evrópusambandið að undangengnu samþykki þjóðarinnar í almennri atkvæðagreiðslu sem allra fyrst. Það þýðir að fyrst verði haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna og síðar um samninginn, þegar hann liggur fyrir.
Í samstarfi þjóða eiga Íslendingar að vera virkir og ábyrgir þátttakendur. Við stöndum frammi fyrir breyttri heimsmynd í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu og aukinna átaka fyrir botni Miðjarðarhafs og víðar. Náin samvinna og samhæfing aðgerða á vettvangi Evrópuráðsins, Evrópusambandsins og Atlantshafsbandalagsins kallar á virka þátttöku Íslands í fjölþjóðasamvinnu, ekki hvað síst á sviði öryggis- og varnarmála. Þá ber að huga að norrænu samstarfi og samtakamætti Norðurlandanna á alþjóðavettvangi.
Öryggi Íslands er best tryggt innan vébanda Atlantshafsbandalagsins, með áframhaldandi samstarfi við Bandaríkin á grundvelli varnarsamningsins og með nánu samstarfi við öryggisstofnanir Evrópusambandsins um innra öryggi, landamæraeftirlit og varnir gegn hryðjuverkum, auk varnarsamstarfs við önnur ríki. Ísland beri í ríkara mæli ábyrgð á eigin vörnum.
Varnarstefna Íslands á að vera hluti af þjóðaröryggisstefnu og uppfærð með reglubundnum hætti. Varnarstefnan á að leggja grunn að og skýri framkvæmd, ábyrgð, fyrirkomulag stjórnsýslu og fjármögnun varnarmála Íslands. Sem herlaust ríki skal lögð áhersla á varnartengda innviði, loftrýmisgæslu, netöryggi og leit og björgun.
Viðreisn telur brýnt að Ísland tileinki sér heildstæða varnarstefnu þar sem stjórnvöld, samfélag og einkageirinn vinna saman að öryggis- og varnarmálum. Ísland þarf að byggja upp sjálfstæða greiningargetu til að geta metið ógnir og áhættur. Ísland þarf að skilgreina á eigin forsendum, markmið um stafrænt fullveldi og tryggja vernd mikilvægra innviða, gagna og netkerfa. Öryggi þjóðarinnar felst í að vinna þétt með okkar bandalagsríkjum, vera verðugur bandamaður sem og að tryggja fjarskiptaöryggi, fæðuöryggi, orkuöryggi, samfélagslega seiglu og áfallaþol. Mikilvægt er að taka þátt í samstarfi lýðræðisríkja í baráttunni gegn fjölþáttaógnum, netárásum og tilburðum til afskipta af innanríkismálum. Til þess þarf markvissa stefnu og aukin framlög til varnartengdra innviða, nýsköpunar og uppbyggingu sérhæfðs mannauðs, auk þess að efla menntun, rannsóknir og samstarf á sviði öryggis- og varnarmála. Efla þarf enn frekar þátttöku Íslands í Schengen-samstarfinu og efla alþjóðlegt samstarf á sviði löggæslu og landamæraeftirlits.
Ísland á að efla þátttöku sína í norrænu samstarfi og nýta samstöðu Norðurlandaþjóða til að efla rödd okkar á alþjóðavettvangi, ekki síst með hliðsjón af markmiði Viðreisnar um að ganga í Evrópusambandið. Sameinuð rödd Norðurlanda er öflugur málsvari samnorrænna gilda um lýðræði, velferð og mannréttindi. Norðurlandaráð er mikilvægur vettvangur fyrir samstarf Norðurlandanna. Styðja ber við þátttöku og samráð allra norrænna þjóða.
Viðreisn leggur áherslu á að Ísland hafi sterka rödd í málefnum norðurslóða, til að bregðast við áhrifum loftslagsbreytinga og standa vörð um heilbrigði hafsins. Með opnun siglingaleiða og auknum tækifærum til nýtingar náttúruauðlinda á norðurslóðum þarf einnig að gæta að öryggismálum landsins í nánu samstarfi við nágrannaþjóðir.
Í skugga hernaðar og átaka í heiminum er mikilvægt að Ísland beiti sér fyrir því að alþjóðalög séu virt, fordæmi stríðsglæpi og brot gegn mannréttindum. Hvers konar árásarstríð sem brjóta gegn alþjóðasáttmálum ber að fordæma. Ísland stendur þétt við bakið á Úkraínu enda er barátta Úkraínu fyrir fullveldi, lýðræði og mannréttindum einnig barátta fyrir fullveldi Íslands og annarra Evrópuríkja. Íslandi ber að styðja við alþjóðastofnanir sem hafa með höndum eftirlit og eftir atvikum eftirfylgni vegna brota gegn alþjóðasáttmálum. Virðing fyrir réttarríkinu og alþjóðalögum er grundvallaratriði sem ekki má víkja frá.
Viðreisn telur brýnt að Ísland tali fyrir tveggja ríkja lausn í deilu Ísraels og Palestínu, beiti sér fyrir því að grimmileg árás og dráp á almennum borgurum verði stöðvuð þegar í stað og skilyrðislausu aðgengi hjálpar- og mannúðarsamtaka að átakasvæðum í þágu mannúðar og friðar í samræmi við alþjóðalög.
Utanríkisstefna með feminískar áherslur styrkir stöðu Íslands sem málsvara mannréttinda og kynjajafnréttis á alþjóðavettvangi. Ísland á að halda áfram að vera málsvari jafnréttis og leggja áherslu á menntun og valdeflingu stúlkna og kvenna í þróunarsamstarfi. Gæta skal að því að á vettvangi þróunarsamvinnu skuli ávallt tekið mið af forsendum og þörfum heimamanna.