Orðfæri Viðreisnar

Til að ná árangri ætlum að skapa okkur sérstöðu.  Sérstaða okkar mun meðal annars felast í frjálslyndi, jafnrétti og baráttu fyrir almannahagsmunum.

 

En við ætlum líka að skapa okkur sérstöðu með öðruvísi orðfæri en hinir. Við skulum taka höndum saman og tala öðruvísi en hefðbundnir stjórnmálamenn. Góð orðræða er hluti af grunngildum okkar.

 

Mikilvægt er að við temjum okkur gott orðfæri á netinu sem og annars staðar og hafa í huga að orð eru til alls fyrst og þeim fylgir ábyrgð.

 

Óvönduð orðræða getur valdið skaða og þjáningu og í sumum tilfellum varðar hún við lög. Hugsum áður en við tölum eða sendum skilaboð frá okkur.

 

Stillum okkur saman og notum jákvæða orðræðu í riti, á samfélagsmiðlum, í ræðustól, í viðtölum, í kosningabaráttunni, á þingi og í ríkisstjórn.

 

Orðfærið okkar á að vera uppbyggilegt og jákvætt. Við skulum fjalla mest um framtíðina, lausnir og hvatningu. Við ætlum að vera góðar fyrirmyndir og við ætlum að byggja upp traust og trúverðugleika.

 

Trú á framtíðina er okkar grunnstef. Við berum virðingu fyrir skoðunum okkar keppinauta.

 

Okkar orðfæri gæti til dæmis einkennst af eftirfarandi orðum og afstöðu til málanna:

 

  1. Við ræðum um málefni en ráðumst ekki á fólk.
  2. Við notum rök og staðreyndir í málflutningi okkar og styðjumst ekki við gróusögur
  3. Við notum aldrei hatursáróður eða tökum þátt í hatursumræðu
  4. Við beitum aldrei dómhörku í málflutningi okkar
  5. Við tölum af virðingu um fólk og virðum öll trúarbrögð, skoðanir, kynhneigð, störf, stjórnmálaskoðanir, tungumál, uppruna fólks og áhugamál.
  6. Kynbundin og kynferðisleg áreitni, kynbundið ofbeldi og kynferðislegt ofbeldi verður ekki liðið í starfi Viðreisnar.
  7. Við leggjum fram vel rökstuddar málefnaskrár og tillögur
  8. Við tölum aldrei niður til viðmælenda okkar eða lítillækkum þá
  9. Við munum að mistök eru til að læra af þeim.
  10. Við eignum okkur ekki sigra annarra.  Við látum okkar verk tala og látum vita af þeim.

 

Meginhugsunin er: Förum í boltann en ekki manninn.

 

Uppfært af stjórn 2. mars 2018.