Mennta-, menningar-, félags- og tómstundamál

  • Tryggjum frelsi einstaklinga til að fara á sínum hraða í gegnum menntakerfið.
  • Tryggjum meiri samfellu milli skólastiga og gegnsæi milli námsleiða.
  • Drögum úr brotthvarfi með fjölbreytni í námi.
  • Lögbindum sálfræðiþjónustu á öllum skólastigum.
  • Búum kennurum gott starfsumhverfi og vöndum umgjörð kennaramenntunar.
  • Námslán og skólagjöld taki mið af því að allir eigi jöfn tækifæri til háskólanáms.
  • Aukum stuðning við börn sem hafa ekki íslensku að móðurmáli og tryggjum börnum af erlendum uppruna móðurmálskennslu í neðri skólastigum.
  • Búum til umgjörð og gott starfsumhverfi fyrir skapandi greinar og mennignarstarfsemi.
  • Hlúum að íslenskri tungu og gerum hana gjaldgenga í starfrænu samskiptaumhverfi.

 

Landsþing 11. mars 2018

 

MENNTA-, FÉLAGS OG TÓMSTUNDAMÁL

 

Menntun er undirstaða jafnréttis, jafnra tækifæra og velferðar í samfélagi og forsenda framþróunar. Hvernig við hlúum að menntun er öflug vísbending um sjálfsmynd þjóðar og hvert hún stefnir í framtíð. Menntastofnanir og menntakerfi eiga að fylgja því leiðarstefi að veita öllum einstaklingum tækifæri til þess að afla sér þekkingar og skilnings, þroska sína hæfileika og öðlast hæfni til að móta sér farsælt líf sem sjálfstæðir einstaklingar. Í því felst að tryggja frelsi einstaklinga til að fara á sínum hraða í gegnum menntakerfið og gera öllum stoðum menntakerfisins jafnhátt undir höfði. Hæfni á ávallt að meta að verðleikum óháð því hvar hennar er aflað. Menntakerfi á að stuðla að framgangi þeirrar fjölþættu þekkingar, hugviti og framtakssemi sem sérhvert samfélag þarf á að halda til þess að standa undir verðmætasköpun, velsæld og auðugu menningarlífi. Nám mótar einstaklinga til frambúðar, lífssýn þeirra og atvinnutækifæri. Stefna í menntamálum á ævinlega að byggjast á hugmyndum um jöfn tækifæri og félagslegan hreyfanleika.

 

HEILDSTÆÐ LÖGGJÖF – MEIRI SAMFELLA MILLI SKÓLASTIGA

Tryggja þarf meiri samfellu milli skólastiga og gegnsæi milli námsleiða. Brýn þörf er á heildstæðri löggjöf um íslenskt menntakerfi sem eykur samfellu á milli skólastiga og greiðir fyrir mati á hæfni sem einstaklingur öðlast í atvinnulífi. Einstökum stofnunum verði jafnframt veitt aukið frelsi til að finna vænlegustu leið að markmiðum um hæfni. Viðreisn styður fjölbreytt rekstrarform menntastofnana sem leið til að fjölga valkostum í námi. Að sama skapi er lögð áhersla á að hagnaður af starfsemi, sem kostuð er af opinberu fé, renni aftur inn í starfsemi viðkomandi stofnunar.

 

STYTTRI SKÓLAGANGA OG MEIRI SVEIGJANLEIKI

Leikskólinn er fyrsta stig skólagöngu. Stefnt skal að lögbindingu leikskóla fyrir öll 5 ára börn. Sömuleiðis skal stefnt að því að stytta námstíma til loka framhaldsskóla í samræmi við það sem þekkist í samanburðarlöndum. Það verði gert með skilvirkri samþættingu náms á fyrstu skólastigum, auknum tækifærum til sveigjanleika í starfsemi menntastofnana og sveigjanlegum námshraða. Þjóðhagslegur ávinningur af styttingu námstímans skili sér í betra námsumhverfi, sterkari innviðum og öflugri stoðþjónustu. Nám innan fræðsluskyldu á að standa öllum til boða að kostnaðarlausu. Veruleg þörf er á úrbótum á leikskóla og dagvistunarúrræðum fyrir ung börn. Fyrst skal nefna bætt kjör leikskólastarfsmanna og dagforeldra. Þá ætti að einfalda og skýra þær kröfur er varða dagforeldra og leikskólakennara að því marki að auka skilvirkni, minnka skrifræðið og auðvelda umsóknarferli til að laða að dagforeldra og leikskólakennara. Meginmarkmið veittrar þjónustu ætti að vera að tryggja einstaklingum valfrelsi um vistun barna hjá leikskóla eða dagforeldrum og að tryggja öllum slíka þjónustu eigi síðar en við lok fæðingarorlofs.

 

GRUNNFÆRNI OG HÆFNISTEFNA

Íslenskt menntakerfi á að brautskrá forvitna, lífsglaða og sjálfsörugga einstaklinga sem hafa getu til að standa á eigin fótum, rýna sér til gagns og taka virkan þátt í lýðræðissamfélagi við sjálfræðisaldur. Aðgengi að góðri menntun í skapandi greinum ýtir undir sköpunarkraft sem knýr áfram nýsköpun. Efla þarf aðbúnað kennara og endurskoða skipulag fagþjónustu og stoðkerfis til að ýta undir aukna færni í grunnþáttum náms eins og lestri og stærðfræði. Móta þarf heildstæða hæfnistefnu fyrir íslenskt menntakerfi.

 

DRAGA ÞARF ÚR BROTTHVARFI MEÐ FJÖLBREYTNI Í NÁMI

Til þess að sporna gegn brotthvarfi úr námi þarf að bjóða fjölbreyttara nám og kennsluhætti í grunn- og framhaldsskóla og gera skapandi og starfstengdu námi hærra undir höfði með verklegu sem og bóklegu námi. Sérstaklega á að horfa til hópa þar sem brotthvarf er hlutfallslega hátt, t.d. meðal drengja og barna af erlendum uppruna.

 

ENDURSKOÐUN STARFSMENNTUNAR ER STÓRT OG BRÝNT VERKEFNI

Íslenskt samfélag þarf að taka ákvörðun um að efla starfsmenntun (iðn- og verknám) og standa með henni. Umgjörð starfsmenntunar og kennsluhætti þarf að taka til gagngerrar endurskoðunar. Auka þarf sveigjanleika og gegnsæi milli námsleiða til að tryggja að uppskera náms mæti þörfum atvinnulífs. Fjölga þarf styttri viðurkenndum, hagnýtum námsleiðum. Áhersla á að vera á samvinnu atvinnulífs og menntastofnana á framhalds- og háskólastigi og framhaldsfræðslu með það að leiðarljósi að nám fari fram þar sem best hentar á hverjum tíma og leiði til atvinnuþátttöku og tækifæra til frekara náms. Brúa þarf núverandi bil milli starfsmenntakerfisins og háskóla með stofnun fagháskólastigs sem veitir tækifæri til nýrrar nálgunar í námi á háskólastigi.

 

FRAMHALDSFRÆÐSLA OG SÍMENNTUN

Framhaldsfræðsla er fimmta grunnstoðin í íslensku menntakerfi og henni er ætlað að koma til móts við markhópinn sem hefur ekki lokið formlegu námi. Endurskoða þarf núverandi löggjöf um framhaldsfræðslu til að tryggja að allir einstaklingar sem hafa verið á vinnumarkaði, óháð aldri og búsetu, hafi aðgang að námi. Efla þarf enn frekar raunfærnimat.

 

STOÐÞJÓNUSTA INNAN MENNTAKERFIS

Krafa um aukið aðgengi að sálfræðiþjónustu hefur vaxið í íslensku samfélagi í kjölfar aukinnar umræðu um geðheilbrigðismál. Lögbinda þarf sálfræðiþjónustu á öllum skólastigum og tryggja aðgengi að náms- og starfsráðgjöf í samræmi við lög. Stöðugildum sálfræðinga skal fjölgað innan opinberra háskóla. Auk þessa leiti stjórnvöld leiða til að efla sálfræðiþjónustu í öðrum háskólum en opinberum.

 

UPPLÝSINGATÆKNI OG FJARNÁM

Nýta á tækninýjungar betur í skólastarfi. Móta þarf heildstæða stefnu um notkun upplýsingatækni í námi og meta þörf á endurmenntun til að nýta þessa tækni við innleiðingu nýrra kennsluhátta. Horfa þarf meira til þess að þróa fjarnámskennslu á öllum skólastigum enn frekar, ekki síst til þess að auðvelda aðgengi að námi í dreifbýli og fjölga tækifærum til símenntunar.

 

GÓÐIR KENNARAR ERU FORSENDA GÓÐRAR MENNTUNAR

Gæði kennslu og góðir kennarar eru ein forsenda góðrar menntunar. Búa þarf kennurum gott starfsumhverfi og vanda þarf umgjörð kennaramenntunar, sem á að taka mið af þörfum einstaklinga fyrir fjölbreytt námsumhverfi og kennsluhætti. Leggja skal áherslu á mat á raunfærni til réttinda innan leikskóla og skapa fleiri tækifæri til áframhaldandi náms. Endurskoða þarf leik- og grunnskólakennaranám, gera það þrepaskipt og auka þátt starfsnáms.

 

INNFLYTJENDUR ERU AUÐLIND Í ÍSLENSKU SAMFÉLAGI

Öll börn sem hafa ekki íslensku að móðurmáli skulu fá stuðning þannig að þau geti haft jafnar forsendur til náms í íslenskum skólum. Auka þarf aðbúnað kennara til að styðja við aðlögun innflytjendabarna að íslensku skólakerfi. Tryggja þarf að börn af erlendum uppruna fái móðurmálskennslu á neðri skólastigum. Innflytjendur eru auðlind fyrir íslenskt samfélag og atvinnulíf. Rýmka þarf rétt útlendinga sem stunda hér nám að setjast hér að þegar námi lýkur. Samin verði aðgerðaráætlun fyrir einstaklinga sem hafa annað tungumál en íslensku að móðurmáli. Tryggja þarf aðgengi innflytjenda að raunfærnimati þeim að kostnaðarlausu.

 

SPORNA ÞARF GEGN STAÐALMYNDUM OG KYNJAHYGGJU

Kynja- og jafnréttisfræðsla er mikilvæg á öllum skólastigum. Jafnréttissjónarmið eiga að vera til hliðsjónar í allri kennslu til að vinna markvisst gegn staðalmyndum og kynjahyggju. Tryggja þarf hinsegin fræðslu í námskrá allra íslenskra grunn- og framhaldsskóla. Jafnframt þarf að tryggja hinsegin fræðslu í kennaranámi. Mennta- og menningarmálaráðherra beri ábyrgð á því að skilgreina og samræma hinseginfræðslu og hafi eftirlit með framfylgd fræðslunnar. Menntamálayfirvöld þurfa að vera meðvituð um forsendur kynjaðs námsvals og leita leiða til þess að stuðla að jafnri stöðu kynjanna í einstaka námsgreinum og á vinnumarkaði.

 

JÖFN TÆKIFÆRI TIL HÁSKÓLANÁMS

Allir eiga að hafa jöfn tækifæri til háskólanáms, óháð efnahag og búsetu. Bjóða á sveigjanlegan námshraða og fjölga viðurkenndum styttri og hagnýtum námsleiðum á háskólastigi. Nýta þarf tækninýjungar í skólastarfi til að auðvelda aðgengi að námi.

 

NÁMSLÁN OG STYRKIR EIGA AÐ HVETJA

Námslán og skólagjöld taki mið af því að allir eiga að hafa jöfn tækifæri til háskólanáms, óháð efnahag og búsetu. Flóttamenn, sem hafa hlotið dvalarleyfi á Íslandi, skulu eiga kost á námslánum. Kjör námslána miðist við framgang í námi en taki nægt tillit til þarfa einstaklinga til sveigjanlegs námshraða. Ákvörðun um upphæð námslána taki sömuleiðis viðmið af grunnviðmiði neysluviðmiða Velferðarráðuneytisins. Taka þarf tillit til fjölskylduaðstæðna, s.s. umgengnisforeldra, við úthlutun lána. Beinn stuðningur við námsmenn í námslánakerfi á að vera sýnilegur og í formi styrkja. Námslánakerfi þarf einnig að vera árangurshvetjandi. Afborganir námslána eiga að vera tekjutengdar. Endurgreiðsla námslána falli niður við töku eftirlauna. Viðreisn á að vera forystuafl í baráttu fyrir bættum kjörum námsmanna. Tryggja þarf að námslánakerfið hvetji fólk til náms og stuðli að því að námsfólk geti litið á námið sem vinnu sína. Þar skiptir lykilmáli að hluti námsláns sé greiddur í formi styrkja og útgreiðslur lána séu greiddar fyrir fram með vali milli mánaðargreiðslna eða heildargreiðslu fyrir hvert námsmisseri. Samhliða því þarf að hækka lánsfjárhæðir og frítekjumark námsmanna og hætta skerðingum námslána vegna húsaleigubóta. Styrkur og lán til námsmanna fylgi þróun launavísitölu.

 

GÆÐI OG HAGKVÆMNI MEÐ MEIRA FJÁRMAGNI

Auka þarf fjárframlög til menntastofnana hér á landi, sér í lagi háskóla. Íslendingar standa Norðurlandaþjóðunum, sem og öðrum OECD-ríkjum, langt að baki varðandi fjármögnun. Auk hagræðingar á að stefna að aukinni samvinnu og/eða sameiningu skóla þar sem hún getur aukið skilvirkni og gæði náms, þó þannig að æskilegri samkeppni sé haldið. Gæðasjónarmið eiga að vera í forgangi í öllu skólastarfi og stefnumótun. Innleiða þarf verkfæri árangursstjórnunar í meira mæli inn í starf menntastofnana. Móta þarf langtímastefnu varðandi fjármögnun í menntakerfinu sem tekur á aðgengi að háskólanámi, fjármögnun háskóla til lengri tíma, skilvirkni í menntakerfinu, símenntun kennara, rannsóknum á menntakerfinu og menntavísindum ásamt tækni og búnaði íslenska menntakerfisins.

 

SAMVINNA UM NÝSKÖPUN OG VÍSINDI

Háskólar, rannsóknastofnanir og atvinnulíf vinni meira og betur saman skapi umgjörð fyrir þróttmikið nýsköpunarstarf og stuðli að því að sprotar geti dafnað. Efla þarf innlenda samkeppnissjóði á sviði tækniþróunar og rannsókna og auka sókn í alþjóðlega samkeppnissjóði. Núverandi tilhögun á stjórnun, úthlutun og stoðkerfi sjóða fyrir nýsköpunarfyrirtæki og vísindafólk verði tekið til gagngerrar endurskoðunar. Auka þarf fjárframlög til rannsókna og þróunar enn frekar.

 

FÉLAGS- OG TÓMSTUNDASTARF

Tryggja skal jafnt aðgengi barna, óháð efnahag, að skapandi félags- og tómstundastarfi og fjölbreyttu menningaruppeldi frá unga aldri. Slíkt getur af sér víðsýna einstaklinga með sterka sjálfsmynd og hæfni til að takast á við ný og óþekkt störf framtíðar.

 

ÖFLUGT LISTNÁM, FÉLAGS-, ÍÞRÓTTA- OG TÓMSTUNDASTARF

Skapa skal virkan samráðsvettvang fagstétta sem starfa við menntun, félagsmál og tómstundir með það að markmiði að skapa heildstæða umgjörð um skóla-, félags- og tómstundastarf og tryggja skilvirka starfsemi. Skapa þarf hópi ungmenna, sem eru utan skipulagðs félags-, íþrótta- og tómstundastarfs, vettvang fyrir starf sem hefur forvarnargildi, og stuðlar að félagsfærni og aukinni lýðræðisvitund. Jafningjafræðsla er í þessu samhengi mikilvægt verkfæri sem ber að efla. Menning er bundin samfélaginu órjúfanlegum böndum og barnamenningu þarf markvisst að örva. Hvorki búseta né fjárráð forsjáraðila mega koma í veg fyrir þátttöku barna og unglinga að fjölbreyttu listnámi, félags-, íþrótta- og tómstundastarfi.

 

HEILSUEFLANDI SKÓLI

Rétt er að hafa hugmyndafræði heilsueflandi skóla til hliðsjónar við þróun skólastarfs. Huga þarf að hreyfingu nemenda, næringu og geðrækt á öllum skólastigum.

 

ÍÞRÓTTIR SEM ÖFLUG FORVÖRN

Þátttaka í íþróttastarfi er mikilvæg forvörn og stuðlar að aukinni félagsfærni, og bættri heilsu og vellíðan. Endurskoða þarf löggjöf um afrekssjóði. Ríkið tryggi sérsamböndum markvissan stuðning og betri aðstöðu til að hlúa að afreksfólki og þjálfa það. Tryggt verði að fjármagn úr Afrekssjóði renni í meira mæli til yngri landsliða og afreksfólks óháð kyni.

 

ÆSKULÝÐSSTEFNA OG RANNSÓKNIR

Ríki, sveitarfélög og hagsmunaaðilar eiga að vinna heildstæða æskulýðsstefnu sem tekur til mismunandi þátta í lífi ungs fólks á aldrinum 15-29 ára. Leggja verður einnig meiri áherslu á rannsóknir og öflun og greiningu gagna um líf ungs fólks og áhrif þátttöku þess í íþróttum, listum, félags- og tómstundastarfi. Horft verði til stefnumótunar í nágrannalöndum og ESB í þessu sambandi.

 

MARKMIÐSDRIFIN LEIÐ TIL AÐ EFLA MENNTUN OG STYRKJA SJÁLFSMYND UNGS FÓLKS

Stofna þarf til víðtæks samráðs forsjáraðila, fagstétta og stjórnvalda um menntun og lífshamingju ungs fólks. Setja markmið, ákveða mælikvarða, finna leiðir, hrinda í framkvæmd og mæla árangur.

 

MENNINGARMÁL

 

Á sviði menningarmála er hlutverk stjórnvalda fyrst og fremst að skapa umgjörð og gott starfsumhverfi fyrir skapandi greinar og menningarstarfsemi. Horfa skal til efnahagslegrar þýðingar menningarstarfsemi og skapandi greina, sem verða sífellt mikilvægari hluti atvinnulífs og verðmætasköpunar í hefðbundnum skilningi.

 

ÖFLUGAR MENNINGARSTOFNANIR GEGNA MIKILVÆGU HLUTVERKI

Standa á vörð um menningarstofnanir og efla þær eftir mætti.

 

Almannaútvarp hefur bæði menningarlegu og lýðræðislegu hlutverki að gegna. Rétt er að huga að samkeppnisstöðu einkarekinna fjölmiðla og stuðningi hins opinbera, sérstaklega við innlenda dagskrárgerð.

 

Aðgengi að góðri menntun í skapandi greinum þarf að vera á öllum skólastigum. Styrkja verður umgjörð háskólanáms í listgreinum, efla fræðilegt starf og rannsóknir á þeim sviðum.

 

Líta má á opinberan stuðning við menningarstarfsemi sem fjárfestingu. Endurskoða þarf menningartengda samkeppnissjóði, þ.e. launa-, rannsókna- og verkefnasjóði í því miði að efla þá enn frekar og tryggja fagleg og gegnsæ vinnubrögð við úthlutun. Skjóta skal styrkari stoðum undir menningarstarfsemi fyrir börn.

 

SAMHÆFÐARI OG STYRKARI STJÓRNSÝSLA

Styrkja þarf umhverfi menningarstarfs svo það verði sambærilegt við það sem gerist best í helstu samanburðarlöndum og efla jafnframt stjórnsýslu skapandi greina. Hún þarf að vera heildstæð, stöðug, fagleg og byggjast á langtíma framtíðarsýn.

 

Það er ófrávíkjanlegt að höfundarrétt beri að virða. Uppfæra þarf löggjöf í samræmi við þróun á sviði tækni, tækjabúnaðar, afritunar og dreifingar höfundarréttarvarins efnis. Skoðað verði að skattleggja tekjur af höfundarrétti líkt og fjármagnstekjur.

 

Hlúa þarf sem best að íslenskri tungu og gera hana gjaldgenga í stafrænu samskiptaumhverfi. Styðja þarf við verkefni sem hafa þetta að markmiði.

 

Menning þarf að vera opin fyrir ytri straumum. Því er virk þátttaka í alþjóðasamstarfi nauðsynleg á þessu sviði sem öðrum.

 

 

——

Ábendingar, athugasemdir og tillögur um stefnu Viðreisnar má senda á netfangið vidreisn@vidreisn.is.
Viðkomandi málefnanefnd tekur efnið til skoðunar, en starf málefnanefnda er opið öllum flokksmönnum.

 

Hildur Betty Kristjánsdóttir er formaður málefnanefndar um mennta- og menningarmál.

Formaður málefnanefndar

Hildur Betty Kristjánsdóttir