Umhverfis- og auðlindamál

  • Uppfyllum skuldbindingar Íslands samkvæmt Parísarsamkomulaginu.
  • Eflum samvinnu í umhverfisvernd milli einstaklinga, fyrirtækja og hins opinbera.
  • Styðjum við umhverfisvænan og fjölbreyttan landbúnað.
  • Beitum okkur af afli gegn mengun hafsins.
  • Setjum ein lög um þjóðgarða og friðlýst svæði.
  • Stuðlum að hröðum orkuskiptum í samgöngum.
  • Setjum á markaðstengt afgjald fyrir nýtingu auðlinda í almannaeigu.

 

Landsþing 11. mars 2018

 

Ísland býr yfir einstakri náttúru og ríkulegum náttúruauðlindum sem í senn ber að virða, vernda og nýta núverandi og komandi kynslóðum til hagsældar. Samræma þarf vernd og nýtingu lands og náttúruauðlinda til ferðamennsku, samgangna, orkuvinnslu eða annarrar starfsemi þannig að langtímahagsmuna íslensks samfélags sé gætt. Náttúruauðlindir verði nýttar á sjálfbæran hátt þar sem þess er kostur. Ákvarðanir um óafturkræfa ráðstöfun umhverfis og auðlinda eiga að byggjast á heildstæðu mati á þjóðhagslegum ávinningi og afleiðingum, þar með talið umhverfisáhrifum. Ísland taki virkan þátt í baráttu gegn hnattrænum umhverfisvandamálum, eins og loftslagsbreytingum og mengun úthafa, í alþjóðlegu samstarfi.

 

LOFTSLAGSMÁL

Viðreisn styður skuldbindingar Íslands á sviði loftslagsmála í samræmi við Parísarsamkomulagið frá 2016 og það markmið ríkisstjórnar Íslands að gera Ísland kolefnishlutlaust fyrir 2040.

 

Helstu möguleikar til að standa við skuldbindingar Íslands miðað við núverandi skilgreiningar Parísarsamkomulagsins felast í orkuskiptum í samgöngum og mótvægisaðgerðum með stóraukinni skógrækt. Endurheimt votlendis er mikilvæg leið til að draga úr CO2 losun hér á landi. Því verði settur aukinn kraftur í endurheimt votlendis samhliða frekari rannsóknum á áhrifum hennar. Hætta skal styrkveitingum til að grafa skurði sem engin not verða af.

 

Stjórnvöld upplýsi árlega um framgang verkefna miðað við sett markmið og tímaáætlun og hvernig fjármunum hafi verið ráðstafað til þessarar stærstu alþjóðlegu skuldbindingar Íslands.

 

HEILDSTÆÐ AUÐLINDASTEFNA

Ríkið móti heildstæða auðlindastefnu til langs tíma þar sem umhverfisvernd, heildarhagsmunir samfélags, hagsmunir sveitarfélaga, fjárfesting í innviðum og hagsmunir komandi kynslóða séu í forgrunni.

 

Sett verði fram nýtingarstefna um auðlindir sem byggist á vísindalegum grunni. Stefnu í umhverfis- og auðlindamálum og ákvarðanir um ráðstöfun og nýtingu beri að grundvalla á þekkingu sem fengin er með rannsóknum.

 

Kortleggja þarf náttúruauðlindir landsins og stöðu nýtingar, ásamt því að forgangsraða áætlunum um rannsóknir, nýtingu og vernd. Markmiðið er að skapa skynsamlegan grundvöll fyrir nýtingu og hugsanlega gjaldtöku vegna hennar.

 

Efla þarf samvinnu milli einstaklinga, fyrirtækja og hins opinbera um nýtingu auðlinda. Taka á tillit til sjónarmiða um náttúruvernd, þannig að saman fari heilbrigð samkeppni, framþróun og aukin hagsæld. Leggja ber áherslu á að nýta afurðir auðlinda sem best m.a. með áherslu á nýsköpun.

 

AUÐLINDIR HAFSINS

Ísland verði áfram í forystu um nýtingu auðlinda hafsins og aukna verðmætasköpun á sjálfbæran máta samhliða umhverfisvernd. Þjóðin verði vakin til nýrrar vitundar um hið gríðarlega mikilvægi lífrænna auðlinda hafsins sem eru í eðli sínu gnótt heilnæmrar og verðmætrar villibráðar. Lögð verði aukin áhersla á verndun þessara auðlinda og sú vernd gerð sýnilegri öðrum þjóðum.

 

Nýtingu lífrænna auðlinda sjávar verði stýrt á grundvelli ráðgjafar Hafrannsóknastofnunar sem byggist á vönduðum rannsóknum á ástandi hafsins og auðlindum þess. Sjálfstæði Hafrannsóknastofnunar verði tryggt þannig að hún verði ávallt óháð hagsmunaaðilum um nægt fjármagn til starfsemi sinnar og rannsókna. Eftirlit með umgengni um auðlindina verði aukið m.a. til að koma í veg fyrir brottkast afla.

 

Nýtingu lífrænna auðlinda verði áfram stýrt á grunni kvótakerfis sem hámarki verðmætasköpun með heildahagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi. Íslendingar beiti sér af afli gegn mengun hafsins varðandi þrávirk efni og plast, einkum örplast, sem þegar er greinanlegt í sjávarfangi, sem og varðandi aðra mengunarvalda, bæði heima fyrir og á alþjóðlegum vettvangi. Stuðlað verði að frekari rannsóknum á úrgangi og áhrifum losunar úrgangs á lífríkið í sjónum. Efldar verði rannsóknir á súrnun hafsins sem ógnar lífríki þess og þar með sjávarútvegi.

 

Leitað verði leiða til að draga verulega úr notkun svartolíu sem eldsneytis á skipum, einkum á norðurslóðum, ásamt því að dregið verði úr losun SO2 og sóts með öllum tiltækum ráðum með áherslu á nýja staðla.

 

AUÐLINDIR LANDGÆÐA

Stutt verði við umhverfisvænan og fjölbreyttan landbúnað þann veg að stuðningskerfið hvetji til landverndar og sjálfbærra framleiðsluhátta.

 

Skapa þarf hvetjandi ramma fyrir framleiðslu á lífrænt vottuðum vörum sem samræmast æskilegri ímynd Íslands. Leggja þarf áherslu á þróunarstarf og rannsóknir sem bæta nýtingu lands.

 

Nýta skal jákvæða efnahagslega hvata og ráðgjöf til að breyta álagi á landsvæði og stýra beit sauðfjár og hrossa. Umhverfissjónarmið fái vægi við styrkveitingar í landbúnaði, t.d. varðandi það sjónarmið að leyfa ekki beit á landi sem þolir hana ekki og að greiða bændum, sem það kjósa, fyrir að færa sig t.d. úr sauðfjárrækt yfir í skógrækt. Með því að kaupa upp hluta af stofni sauðfjárbænda minnkar kolefnisspor og unnt verður að draga úr beit á svæðum sem þola hana illa. Með tilfærslu greiðslna má skapa fjölbreyttari störf.

 

JARÐRÆNAR AUÐLINDIR

Tryggt verði að flutningskerfi raforku svari eðlilegum þörfum atvinnuuppbyggingar um allt land með nægjanlegu framboði og orkuöryggi en þess sé jafnframt gætt að nýta orkuna vel og forðast offjárfestingu. Nýting orku verði bætt m.a. með betra flutningskerfi og snjallvæðingu með hagrænum notkunarhvötum en einnig verði horft á staðbundnar lausnir, svo sem smávirkjanir. Velja skal nýja virkjanakosti fyrir stærri raforkuvirkjanir í samræmi við rammaáætlun þegar raforkuþörf krefur og gera arðsemiskröfu til nýrra stórvirkjana út frá heildarhagsmunum þjóðarinnar. Kanna skal hagkvæmni vindorkugarða á hentugum svæðum og meta þörf á breytingum á rammaáætlun og reglugerðum tengdum hagnýtingu vindorku.

 

Nýta skal betur háhitasvæði, sem þegar hafa verið virkjuð til raforkuframleiðslu, og niður á meira dýpi. Kortleggja þarf jarðhitaauðlindina og þróa tækni til að nýta djúphita í gosbelti landsins. Stuðla skal að fjölnýtingu jarðvarma og nýsköpun.

 

Í húshitunarmálum skal vinna skipulega að því að afla jarðhita til húshitunar á þeim stöðum sem njóta ekki hitaveitu. Stutt verði við leit og boranir á þessum svæðum með það fyrir augum að auka lífsgæði fólks og lækka niðurgreiðslur á rafmagni til frambúðar þar sem það á við. Leitað verði nýrra lausna í húshitunarmálum sem draga úr notkun raforku á svæðum þar sem ekki tekst á næstu árum að finna nýtanlegan jarðvarma.

 

Gnótt mjög góðs grunnvatns er ein helsta náttúruauðlind landsins. Rannsaka þarf grunnvatns-auðlindina og vernda hana með öflugu eftirliti og haga skipulagsmálum þannig að komið verði í veg fyrir mengun hennar. Einnig þarf að efla rannsóknir og nákvæma kortlagningu á hafsbotninum við Ísland.
Koma þarf böndum á vinnslu jarðefna á yfirborði og á sjávarbotni og stöðva skemmdir sem þær valda á sérstæðum jarðminjum og landslagi. Gæta þarf hagsmuna Íslands vegna hafsbotnsréttinda utan 200 mílna efnahagslögsögu, ásamt því að koma upp góðum gagnagrunni um auðlindir á hafsbotni og viðhalda honum.

 

ÞJÓÐGARÐAR OG FRIÐLÝST SVÆÐI

Sett verði ein lög um þjóðgarða og friðlýst svæði og þeim komið undir eina sameiginlega stjórn til að stuðla að markvissara skipulagi og bættri nýtingu fjármuna. Áhersla verði lögð á að ljúka uppbyggingu aðstöðu í núverandi þjóðgörðum og friðlýstum svæðum þannig að hún standist alþjóðlegar kröfur og sómi sé að, áður en ráðist er í frekari stækkanir.

 

Markmið með skipulegri uppbyggingu og rekstri þjóðgarða og náttúruvætta er að nýta auðlindir landsins með ábyrgum hætti samhliða öflugri náttúruvernd. Gera þarf almenningi kleift að njóta þess fjársjóðs sem íslensk náttúra er til útivistar og veiða, ásamt því að auka virðingu fyrir landinu og stuðla þannig að bættri umgengni. Jafnframt er hugsunin sú að styrkja byggð í nágrenninu, skapa atvinnu og aðstæður fyrir fjölbreyttar rannsóknir, auka víðsýni og tengja fólk.

 

Stækka skal Vatnajökulsþjóðgarð í áföngum þannig að nauðsynlegri uppbyggingu verði lokið strax, en henni ekki vísað inn í þokukennda framtíð, jafnframt því sem rekstrargrundvöllur verði tryggður í fjármálaáætlun ríkisins. Þjóðgarðurinn skal a.m.k. ná yfir Torfajökulssvæðið sunnan Tungnaár og fjalllendið vestur fyrir Heklu og þaðan suður fyrir Mýrdals- og Eyjafjallajökla að Þórsmörk meðtalinni. Stofna skal þjóðgarð á Hornströndum.

 

ORKUSKIPTI

Sett verði metnaðarfull markmið um orkuskipti innan íslenska hagkerfisins og þeim fylgt eftir með hagrænum hvötum þannig að einstaklingar og fyrirtæki leiti hagkvæmustu leiða til að ná settu marki.

 

Stuðlað verði að hröðum orkuskiptum í samgöngum á landi með grænum hvötum, styrkingu innviða og hraðhleðslustöðvum fyrir rafbíla um allt land. Áhersla verði lögð á sem jöfnust tækifæri allra landsmanna til að nýta rafbíla. Eftir 2025 verði nær eingöngu fluttir inn bílar sem eru að hluta eða öll leyti knúnir orku frá endurnýjanlegum orkugjöfum.

 

Hvatt verði til snjallvæðingar á orkunotkun heimila í framtíðarsamstarfi við orkufyrirtæki, með áherslu á hagkvæmni og lækkun kostnaðar. Stuðlað verði að aukinni notkun endurnýjanlegrar orku í skipaflotanum.

 

HAGRÆNIR HVATAR, MINNI SÓUN, MEIRI VERÐMÆTI

Íslendingar setji sér metnaðarfull markmið undir vígorðinu „minni sóun – meiri verðmæti“ til að stuðla að betri meðferð auðlinda og annarra verðmæta, draga úr mengun og efla hreina ímynd landsins. Markaðstengt afgjald verði tekið upp fyrir nýtingu auðlinda í almannaeigu, þar með talið í sjávarútvegi.

 

Komið verði á samræmdu kerfi grænna hvata sem feli í sér álögur á mengandi starfsemi en skapi jafnframt hvata til samdráttar í losun og/eða mótvægisaðgerða. Tryggt verði að sá sem mengar borgi. Grænir hvatar tryggi nægt fé til mótvægisaðgerða sem miði að því að ná markmiðum Íslands í loftslagsmálum.

 

Flokkun úrgangs verði aukin með auknum hagrænum hvötum og fjölgun móttöku- og flokkunarstöðva um allt land. Litið verði á úrgang sem verðmæti en ekki bara vanda og komið í veg fyrir urðun endurvinnanlegs úrgangs. Tryggt verði að upplýsingar um flokkun sorps og staðsetningu móttökustöðva nái til allra, líka erlendra ferðamanna.

 

Ríkið reki áróður fyrir notkun fjölnota burðarpoka með það að markmiði að hætt verði að nota einnota plastpoka hér á landi. Dregið verði markvisst úr notkun hluta úr plasti, svo sem einnota drykkjarmála, hnífapara og sogröra, og hömlur verði lagðar á notkun örplasts í sápum og snyrtivörum. Lögð verði áhersla á nýsköpun og vöruþróun til að leysa af hólmi einnota ílát og áhöld úr plasti, jafnframt því sem leitað verði fjölþjóðlegs samstarfs um lausnir.

 

 

——

 

Ábendingar, athugasemdir og tillögur um stefnu Viðreisnar má senda á netfangið vidreisn@vidreisn.is.
Viðkomandi málefnanefnd tekur efnið til skoðunar, en starf málefnanefnda er opið öllum flokksmönnum.

 

Rafn Helgason, er formaður málefnanefndar um umhverfis- og auðlindamál.

Formaður málefnanefndar

Rafn Helgason