Jafnréttismál

  • Ríkið og stofnanir þess beiti kynjaðri fjárlagagerð og hafi jafnréttislög ávallt til hliðsjónar við ráðningar í störf.
  • Lífeyrissjóðir setji sér jafnréttisstefnu í starfsemi og fjárfestingum.
  • Setjum af stað þjóðarátak um bætt kjör kvennastétta.
  • Tryggjum samfellu í dagvistun barna eftir fæðingarorlof og jafna stöðu barna óháð fjölskyldugerð.
  • Fylgjum samningi Sþ um réttindi fatlaðs fólks eftir með skýrum aðgerðum.
  • Færum löggjöfina til nútímalegs horfs varðandi stöðu hinsegin fólks.
  • Tryggjum öllum íbúum landsins jöfn tækifæri og jafnan lagalegan rétt án tillits til uppruna.
  • Fjármögnum samstillt átak stjórnvalda, fræðasamfélags og grasrótarsamtaka gegn kynbundnu ofbeldi.
  • Bætum réttarstöðu þolenda, ekki síst þolenda mansals.

 

Landsþing 11. mars 2018

 

Vitund og virðing fyrir kvenfrelsi og jafnfrétti allra kynja er forsenda þess að uppræta staðalímyndir um hlutverk kynjanna og tryggja jafnrétti í raun á öllum sviðum samfélagsins. Hugrekki og framsýni þarf til að tryggja að Ísland verði áfram í fararbroddi á alþjóðavettvangi um jafnrétti. . Tryggja þarf að jafnréttishugsjónin sé höfð að leiðarljósi á öllum stigum íslensks samfélags. Áhersla er lögð á jafna stöðu og jöfn réttindi allra einstaklinga óháð aldri, líkamlegu atgervi, fötlun, kynferði, trúarbrögðum, skoðunum, uppruna, kynþætti, litarhætti, kynhneigð, kynvitund, kyntjáningu og stöðu að öðru leyti. Uppræta þarf rótgróna fordóma í samfélaginu og huga sérstaklega að stöðu þeirra sem höllustum fæti standa.

 

JAFNRÉTTI Á VINNUMARKAÐI

Jafnrétti á vinnumarkaði er órjúfanlegur þáttur í réttlátu og sanngjörnu samfélagi. Jafnlaunavottun er mikilvægt tæki til þess að útrýma kynbundnum launamun. Ríkið og stofnanir þess skulu ganga fram með góðu fordæmi með því að beita kynjaðri fjárlagagerð og hafa jafnréttislög ávallt til viðmiðunar við ráðningu í störf. Dómstólar skulu einnig falla undir þessi viðmið. Mikilvægt er að jafna hlutföll kynja og ná fram félagslegri vídd í framkvæmdastjórnum fyrirtækja og í stjórnunarstöðum hjá hinu opinbera.

 

Kynbundinn launa- og stöðumunur er óviðunandi og hann verður að uppræta. Ríki og sveitarfélög ættu að ganga á undan með góðu fordæmi í þessum efnum.

 

Lífeyrissjóðum ber að axla ábyrgð á framgangi jafnréttis í samfélaginu. Þeir eiga að setja sér jafnréttisstefnu sem taki til starfsemi þeirra, þar með talið fjárfestinga. Stefnan þarf að vera gegnsæ og þess vegna verður að gera grein fyrir framkvæmd hennar í ársskýrslu.

 

Nauðsynlegt skref til að útrýma kynbundnum launamun er að jafna kynjahlutföll innan einstakra starfstétta. Horfa verður til hefðbundinna kvennastarfa, svo sem umönnunarstarfa og hefðbundinna karlastarfa, svo sem iðngreina.

 

Stuðla þarf að sérstöku þjóðarátaki í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins um lagfæringu á kjörum kvennastétta svo að þau megi vera sambærileg við aðrar stéttir með sambærilega menntun. Starfsgreinar svo sem hjúkrun, grunn- og leikskólakennsla eru skýrt dæmi um misræmi á milli menntunar og launa. Afleiðingin er að innan við helmingur þeirra sem hafa sótt sér menntun á þessum sviðum starfa við greinina og starfsmannaskortur er vaxandi vandi. Jafnréttislöggjöf á vinnumarkaði skal víkka til að ná til hinsegin fólks.

 

VIÐREISN FÆÐINGARORLOFS

Stefna Viðreisnar í fæðingarorlofsmálum byggist á rétti barna til samneytis við foreldra í frumbernsku og á jafnri stöðu barna, óháð fjölskyldugerð. Til að ná þessum breytingum fram þarf að tryggja samfellu í dagvistun barna eftir að fæðingarorlofi lýkur.

 

ÞUNGUNARROF OG SJÁLFSÁKVÖRÐUNARRÉTTUR

Tryggja þarf að þungaðir einstaklingar taki ákvörðun um þungunarrof á sínum eigin forsendum. Reglur um þungunarrof eiga ekki að gera greinarmun á einstaklingum eftir fötlun.

 

KYNBUNDIÐ OFBELDI ER BIRTINGARMYND KYNJAMISRÉTTIS

Uppræta verður kynbundið ofbeldi og áreiti í íslensku samfélagi með aukinni umræðu, forvörnum og fræðslu. Fjármagna þarf samstillt átak stjórnvalda, fræðasamfélagsins og grasrótarsamtaka til að sinna þessu verkefni. Lögregla, ákæruvald og dómstólar þurfa að vera í stakk búin til að sinna þessum mikilvægu og viðkvæmu málum um land allt. Brýnt er að sveitafélög tryggi þolendum ofbeldis nauðsynlegan stuðning og þjónustu.

 

Mikilvægt er að brotaþolar treysti kerfinu. Með það að leiðarljósi er mikilvægt að styrkja réttarstöðu brotaþola og veita þeim aðild í sakamálum eins og gert hefur verið á Norðurlöndunum og einnig þarf að skerpa hlutverk réttargæslumanna. Bjarkarhlíð, miðstöð fyrir þolendur ofbeldis, verði tryggður fjárhagslegur stuðningur til áframhaldandi starfs og verði þannig langtímaverkefni. Sambærileg þjónusta verði aðgengileg öllum landsmönnum í sínu nærumhverfi.

 

Tryggja þarf að löggjöf sé nútímaleg og geti tekið á nýjum tegundum afbrota, svo sem með því að skilgreina stafrænt kynferðisofbeldi í hegningarlögum. Þá þarf að veita þolendum mansals fullnægjandi réttarvernd og stuðning. Mikilvægt er að auka aðgengi þeirra sem beita ofbeldi að úrræðum við hæfi til þess að koma í veg fyrir áframhaldandi ofbeldi.

 

RÉTTINDI FATLAÐS FÓLKS

Viðreisn leggur áherslu á að samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem stjórnvöld hafa staðfest og fullgilt, verði fylgt eftir með aðgerðum.
Mikilvægt er að réttindi fatlaðs fólks séu tryggð á öllum sviðum samfélagsins. Fötlun er ekki einhæft ástand og okkur ber skylda til að sjá til þess að margþættum þörfum sé mætt til að gæta jafnræðis og tryggja þátttöku allra.

 

Það er grundvallaratriði að lögfesta notendastýrða persónulega aðstoð (NPA) enda tryggir hún best sjálfsákvörðunarrétt fatlaðs fólks yfir eigin lífi og líkama.

 

FÖGNUM FJÖLBREYTILEIKANUM

Viðreisn talar fyrir frelsi, mannréttindum og jafnri stöðu hinsegin fólks og vill að Ísland verði í fremstu röð varðandi réttarstöðu þess. Löggjöf verði færð til nútímalegs horfs og horft til regnbogakorts ILGA – Europe. Styðja skal við hinsegin fræðslu í samfélaginu, sérstaklega meðal heilbrigðis- og menntastétta.

 

INNFLYTJENDUR

Íslenskt samfélag er fjölþjóðlegt og Íslendingum, sem eru af erlendu bergi brotnir, fjölgar jafnt og þétt. Brýnt er að tryggja öllum íbúum landsins jöfn tækifæri og jafnan lagalegan rétt án tillits til uppruna. Gildir þetta jafnt um vinnumarkað, borgaraleg réttindi, möguleika til náms, sem og þátttöku í stjórnmálum. Þannig verður best unnið gegn misskiptingu, einangrun og fordómum. Meðal þeirra aðgerða sem þarf að ráðast í er rýmkun kosningaréttar, rýmkun atvinnuréttinda fólks utan EES-svæðisins og aukinn réttur útlendinga, sem stunda hér nám, til að setjast hér að þegar námi lýkur. Enn fremur má nefna aukna fræðslu og upplýsingastreymi til innflytjenda og útlendinga sem hér búa um réttindi, skyldur og tækifæri.

 

BRÚUM BILIÐ

 

Landsþing 11. mars 2018

 

BARNVÆNT OG SVEIGJANLEGT SAMFÉLAG

Fæðingarorlof er skilgreindur réttur barns til samvistar við foreldra/forsjáraðila, óháð fjölskyldugerð, til sjö ára aldurs. Gott fæðingarorlofskerfi er lykillinn að jafnrétti á vinnumarkaði. Einnig er mikilvægt að tilhögun fæðingarorlofs stuðli að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði.

 

Fæðingarorlof (full réttindi) skal vera 365 dagar og þar af eiga 300 dagar að deilast jafnt milli foreldra/forsjáraðila barnsins. Í framtíð verði full réttindi allt að 450 dagar. Barn með eitt foreldri/einn forsjáraðila nýtur fullra réttinda.

 

Greiðslur úr orlofssjóði til foreldra skulu miðast við 80% tekna í allt að 365 daga. Greiðslur vegna orlofsdaga umfram 365 eiga að ákvarðast í víðtæku samráði hagsmunaaðila en ekki taka mið af tekjum. Hámark orlofsgreiðslna skal miða við meðaltekjur áttundu tekjutíundar fullvinnandi einstaklinga samkvæmt mælingum Hagstofu.

 

Fjölbreytt dagvistunarúrræði skulu standa börnum til boða frá 12 mánaða aldri.

 

Ríki, sveitarfélög, stéttarfélög og atvinnulíf skulu í sameiningu leita leiða til að skapa fjölskylduvænna samfélag og auka réttindi barnsins. Hér má nefna leiðir á borð við lengingu fæðingarorlofs og svigrúm til töku yfir lengra tímabil, viðbótarframlag atvinnurekenda með orlofsgreiðslum og aukið frelsi til nýtingar á styrkjum úr stéttarfélögum.

 

Brýnt er að endurskoða núverandi fyrirkomulag fæðingarstyrks námsmanna með hliðsjón af viðeigandi neysluviðmiðum hins opinbera.

——

Ábendingar, athugasemdir og tillögur um stefnu Viðreisnar má senda á netfangið vidreisn@vidreisn.is.
Viðkomandi málefnanefnd tekur efnið til skoðunar en starf málefnanefnda er opið öllum flokksmönnum.

 

Oddný Arnarsdóttir er formaður málefnanefndar um jafnréttismál.

Formaður málefnanefndar

Oddný Arnarsdóttir