Kynbundið ofbeldi er ólíðandi
Kynbundið ofbeldi skal uppræta með opinni umræðu, ásamt forvörnum og fræðslu. Lögregla, ákæruvald og dómstólar þurfa að vera í stakk búin til að sinna þessum mikilvægu og viðkvæmu málum og þjónusta þarf að vera til staðar fyrir þolendur um land allt. Brýnt er að tryggja þolendum ofbeldis nauðsynlegan stuðning og þjónustu. Mikilvægt er að styrkja réttarstöðu brotaþola og efla traust þeirra á kerfinu, veita þeim aðild í sakamálum og skerpa hlutverk réttargæslumanna. Auka þarf aðgengi þeirra sem beita ofbeldi að úrræðum til þess að koma í veg fyrir áframhaldandi ofbeldi. Þá þarf að veita þolendum mansals fullnægjandi réttarvernd og stuðning.
Tryggja þarf að löggjöf sé nútímaleg og geti tekið á nýjum tegundum afbrota. Fjármagna þarf samstillt átak ríkis, sveitarfélaga, fræðasamfélagsins og grasrótarsamtaka til að sinna þessu verkefni. Lög og réttarvörslukerfi eru ekki nægjanlega vel í stakk búin til þess að taka á málum á borð við kynferðisofbeldi. Því þarf að skoða og leggja fram fleiri leiðir í úrvinnslu þessara mála. Kynbundið ofbeldi er kerfisbundið ofbeldi. Kerfisbundið ofbeldi gegn hinum ýmsu hópum samfélagsins er staðreynd. Hafa þarf minnihlutahópa og fólk af erlendum uppruna sérstaklega í huga þegar lagðar eru fram úrbætur á kerfinu.
Jafnrétti á vinnumarkaði
Jafnrétti á vinnumarkaði er órjúfanlegur þáttur í réttlátu og sanngjörnu samfélagi. Kynbundinn launa- og stöðumunur er óviðunandi. Hann verður að uppræta með öllum ráðum og því er mikilvægt að jafna hlutföll kynja og ná fram félagslegri vídd á öllum sviðum. Það þarf sérstakt þjóðarátak, í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins, um lagfæringu á kjörum kvennastétta svo þau verði sambærileg við aðrar stéttir með sambærilega menntun. Kynbundnu námsvali þarf að útrýma með átaki allra aðila. Ríki og stofnanir skulu beita kynjaðri fjárlagagerð og hafa jafnréttislög til viðmiðunar við ráðningu í störf, hér falla dómstólar einnig undir. Jafnréttismál hafa áhrif á búsetuval. Jafnréttismál eru byggðamál.
Tryggjum lagaleg réttindi hinsegin fólks
Baráttunni fyrir jöfnum réttindum hinsegin fólks er hvergi nær lokið. Ísland er eftirbátur samkvæmt alþjóðlegum mælingum ILGA-Europe um réttindastöðu hinsegin fólks í Evrópu, þar sem enn vantar nokkuð upp á að lög og reglur tryggi hinsegin fólki fullnægjandi réttindi. Útvíkka þarf jafnréttislöggjöf á vinnumarkaði þannig að hún nái einnig til hinsegin fólks. Viðreisn telur brýnt að lagaleg réttindi hinsegin fólks séu tryggð með heildstæðri og víðtækri löggjöf þar sem mannréttindi og sjálfræði einstaklingsins yfir eigin líkama eru höfð að leiðarljósi.
Höfnum allri mismunun og byggjum upp réttlátt fjölmenningarsamfélag
Viðreisn vill byggja upp fjölþjóðlegt og opið samfélag. Brýnt er að tryggja öllum íbúum landsins jöfn tækifæri og jafnan lagalegan rétt án tillits til uppruna. Gildir þetta jafnt um vinnumarkað, borgaraleg réttindi, möguleika til náms sem og þátttöku í stjórnmálum. Hér þarf að rýmka kosningarétt, rýmka atvinnu- og dvalarréttindi fólks utan EES-svæðisins og auka rétt útlendinga sem stunda hér nám til að setjast að hér á landi þegar að námi lýkur. Fordómar og mismunun á grundvelli uppruna er því miður raunin á íslenskum vinnumarkaði. Viðreisn telur þessa mismunun ólíðandi og brýnt að ráðast til viðeigandi aðgerða gegn allri mismunun á grundvelli uppruna. Inngilding (e. inclusion) í íslenskt samfélag á að vera meginstef á öllum sviðum. Íslenskukennsla er mikilvæg grunnstoð sem öll eiga rétt á. Viðreisn leggur áherslu á mannúðlega stefnu í málefnum flóttamanna og umsækjenda um alþjóðlega vernd.
Tryggjum jafnrétti fatlaðs fólks
Við leggjum áherslu á að fylgja samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks eftir með skýrum aðgerðum. Tryggja þarf fötluðu fólki sambærileg lífskjör og öðrum. Samfélagið á að vera þannig úr garði gert að fólk með fatlanir geti lifað eðlilegu lífi á eigin forsendum. Tryggja þarf réttindi fatlaðs fólks á öllum sviðum samfélagsins og sjá til þess að margþættum þörfum sé mætt. Þannig er jafnræðis gætt og þátttaka allra tryggð. Vinna skal að auknum atvinnutækifærum fyrir þá sem eru með skerta starfsgetu.
Barnvænt og sveigjanlegt samfélag
Fæðingarorlof verði skilgreindur réttur barns til samvistar við foreldra/forsjáraðila, óháð fjölskyldugerð, til fimm ára aldurs. Ef foreldrar eru tveir þá skiptist réttur jafnt þeirra á milli. Barn með eitt foreldri/einn forsjáraðila skal njóta fullra réttinda.
Greiðslur úr orlofssjóði foreldra skulu miðast við 80% tekna í allt að 365 daga. Hámark orlofsgreiðslna þarf að hækka verulega. Tryggja að allir foreldrar hafi rétt á greiddu sumarleyfi eftir fæðingarorlof.
Hagsmuna barna er best gætt með því að hækka til muna rétt námsmanna, fólks í minna en 25% starfi og fólks sem er nýkomið út á vinnumarkað til fæðingarstyrks. Fjárhæð þess styrks skal byggð á viðeigandi neysluviðmiðum hins opinbera.