Hröð orkuskipti á öllum sviðum

Stuðlað verði að hröðum orkuskiptum á öllum sviðum. Öflugasta og skilvirkasta verkfæri stjórnvalda til þess eru hagrænir hvatar á borð við kolefnisgjald sem leggist á alla losun og græn áhersla í skipulagsmálum. Viðreisn leggur áherslu á tekjuhlutleysi í stað aukinnar skattheimtu þannig að kolefnisgjöldum verði mætt með samsvarandi lækkun á öðrum sköttum og gjöldum. Þannig verði hægt að ná mikilvægri sátt um loftslagsaðgerðir og tryggja að þeir borgi sem mengi.

 

Til að orkuskipti geti orðið þarf að tryggja nægt framboð endurnýjanlegrar orku og öfluga innviði. Samhliða orkuskiptum er nauðsynlegt að auka fjölbreytni í samgöngum og nýta hagræna hvata til að styðja við virka ferðamáta og almenningssamgöngur.

 

Viðreisn vill að Ísland verði kolefnishlutlaust og laust við jarðefnaeldsneyti fyrir árið 2040. Því ætti að banna leit og vinnslu jarðefnaeldsneytis í íslenskri lögsögu. Nýskráningu á bensín- og díselbílum verið hætt árið 2025. Þá verði áhersla lögð á að draga úr umhverfisáhrifum byggingariðnaðarins og að auka hlutfall umhverfisvottaðra bygginga. Þá verði hugað að minnkun á losun gróðurhúsalofttegunda frá landbúnaði og fiskeldi, m.a. með því að efla starfsemi í lægri þrepum fæðukeðjunnar. Sett verði markmið um að ná 50% hlutdeild endurnýjanlegrar orku í skipum fyrir 2030.

 

Sjálfbær nýting auðlinda

Stöðugleiki næst aðeins með samþættingu umhverfislegra, hagrænna og félagslegra þátta við allar ákvarðanir tengdar auðlindanýtingu. Hagkerfið þarf að hvíla í auknum mæli á stoðum sem rýra ekki gæði umhverfisins. Nútímalegt velsældar samfélag þarf að vera samkeppnishæft og kolefnishlutlaust þar sem neikvæð áhrif á umhverfið og rýrnun náttúrugæða verði síður forsenda hagvaxtar. Þetta verði m.a. gert með áherslu á nýsköpunarstyrki í loftslagstengdum verkefnum og að raforkuvinnsla stuðli að grænni atvinnuuppbyggingu.

 

Nauðsynlegt er að öll framleiðsla og þjónusta verði kolefnishlutlaus og rýri ekki náttúrugæði til langframa. Mikilvægt er að taka ferli rammaáætlunar til gagngerrar endurskoðunar svo hún virki sem skyldi og eyða þarf óvissu um reglur og lög sem gilda um uppbyggingu vindorku. Áfram ættu orkukostir að vera flokkaðir með tilliti til áhrifa á náttúru; menningu og minjar; og samfélag og efnahag. Orkufyrirtæki skulu nýta sem best þá raforku sem framleiða má á núverandi virkjanasvæðum raforku áður en leyfi verða veitt til virkjana sem hafa umtalsverð umhverfisáhrif á nýjum svæðum.

 

Tryggja þarf orkuöryggi um allt land með uppbyggingu og styrkingu flutningskerfis raforku og koma í veg fyrir að orkuskortur hamli byggðaþróun. Auka þarf gagnsæi og skilvirkni á raforkumarkaði til að skapa jafnvægi á milli eftirspurnar og framboðs og koma í veg fyrir offjárfestingu í raforkuvinnslu.

Lestu umhverfis- og auðlindastefnu Viðreisnar hér

 

Stórátak í innviðafjárfestingum

Nútímavæðing innviða, í þágu samfélags, umhverfis og öryggis þarf að verða forgangsmál nú og í náinni framtíð. Í öllum byggðum skal vera aðgengi að öflugri nettengingu. Ráðast þarf í stórátak með fjárfestingum í dreifikerfi rafmagns. Hraða þarf þrífösun rafmagns í dreifbýli  sem er forsenda margvíslegrar atvinnusköpunar og notkun öflugs rafbúnaðar og orkuskipta í sveitum. Þá ber að fjárfesta vel í samgöngukerfinu öllu, þ.m.t. höfnum og flugvöllum. Horfa ber til aðkomu einkaframtaksins í slíkum fjárfestingum og útgáfu grænna skuldabréfa í verkefnum sem stuðla að vistvænum samgöngum. Meta skal þjóðhagslega hagkvæmni innviðafjárfestinga og skulu allar stórar innviðaframkvæmdir ráðast af félagshagfræðilegu mati.

 

Einfalda þarf og straumlínulaga stjórnsýslu í málefnum innviða. Taka skal upp beina gjaldtöku af vegamannvirkjum í stað núverandi gjaldstofna og láta slíka gjaldtöku taka mið, m.a. af umhverfisáhrifum og álagi á vegakerfið. Hraða þarf orkuskiptum í samgöngum og ekki einskorða þau við bíla, heldur einnig skipa- og flugvélaflota landsins.

Lestu innanríkisstefnu Viðreisnar hér