Innanríkismál

Viðreisn stendur fyrir frjálst og neytendavænt þjóðfélag. Mikilvægt er að fólki sé frjálst að búa og starfa þar sem það kýs. Hið opinbera á ekki að standa í vegi fyrir fólki heldur greiða því veginn. Neytendur skulu ávallt vera í forgrunni.

 

  • Tryggjum eignarhald þjóðarinnar á auðlindum sínum
  • Kröftug sveitarfélög með þjónustu nær íbúum
  • Neytendur í öndvegi
  • Innviðafjárfesting í forgangi 
  • Fólk af erlendum uppruna auðgar íslenskt samfélag og atvinnulíf
  • Mannréttindi eru grundvöllur fjölbreytts mannlífs
  • Greiðum fólki leið að húsnæði

 

Landsþing 11. febrúar 2023
 

Tryggjum eignarhald þjóðarinnar á auðlindum sínum

Viðreisn styður að gerðar verði verulegar endurbætur á stjórnarskránni í sátt þings og þjóðar. Stjórnarskrá skal tryggja eignarhald þjóðarinnar á náttúruauðlindum til framtíðar. Rétti til auðlindanýtingar skal ráðstafað með sanngjörnum hætti og tímabundin afnot skulu ráðast af markaðsverði.

 

Kröftug sveitarfélög með þjónustu nær íbúum

Í frjálslyndu samfélagi þarf fólk að hafa raunhæfa valkosti um hvar það býr sér heimili, án þess að vera mismunað eftir búsetu. Efling allra landsbyggðarkjarna með öflugum innviðum gerir sveitarfélögum kleift að laða til sín íbúa og atvinnuskapandi fyrirtæki. Með því að jafna tækifæri allra landsmanna til atvinnu og þjónustu er stuðlað að sjálfbærri þróun byggðarlaga um land allt.

 

Viðreisn styður sameiningu og stækkun sveitarfélaga með það fyrir augum að draga úr yfirbyggingu og efla nærþjónustu á hagkvæman hátt. Það er forsenda þess að unnt sé að fela þeim fleiri verkefni sem nú er sinnt af ríkisvaldinu, enda sé það íbúum í hag. Styrkja þarf tekjugrunn sveitarfélaganna og tryggja að fjármagn fylgi tilfærslu verkefna. Auka á aðkomu þeirra að lykilákvörðunum um uppbyggingu í heimabyggð ásamt því að veita hærri styrki til nýsköpunar, menningarstarfs og þróunar á landsbyggðinni. Með aukinni hlutdeild sveitarfélaga í þjónustu við íbúa er valdi hins opinbera dreift víðar um landið og nær íbúunum sjálfum.

 

Hvítbók í byggðamálum gerir góða grein fyrir því hvað þurfi að gera til að snúa við neikvæðri byggðaþróun á Íslandi. Viðreisn vill forgangsraða þeim verkefnum í nánu samstarfi við hagsmunaaðila hvað fjármögnun og framkvæmd varðar.
 

Neytendur í öndvegi

Frjáls samkeppni er best til þess fallin að tryggja neytendum fjölbreytt úrval vöru, góða þjónustu og sanngjarnt verð. Full aðild að Evrópusambandinu hefur í för með sér aukið vöruúrval og lækkun vöruverðs með afnámi tolla. Ríkið á ekki að starfa á smásölumarkaði, s.s. áfengismarkaði og sölu á þjónustu, eða að vörudreifingu. Samkeppnislög skulu taka til allra atvinnugreina. Einu afskipti ríkisins af samkeppnismarkaði ættu að vera virkt samkeppniseftirlit og öflug neytendavernd.

 

Stofnanir ríkisins eiga að þjónusta almenning. Það er almenningur sem nýtur þeirrar þjónustu sem hið opinbera veitir og því á kerfið að starfa fyrir almenning en ekki í þágu stofnananna sjálfra. Áfram skal haldið í að þróa rafrænar lausnir í þjónustu hins opinbera.
 

Innviðafjárfesting í forgangi

Nútíma- og tæknivæðing innviða í þágu samfélags, umhverfis og öryggis þarf að verða forgangsmál nú og í náinni framtíð. Í öllum byggðum skal vera aðgengi að öflugri nettengingu. Ráðast þarf í stórátak með fjárfestingum í dreifikerfi rafmagns. Hraða þarf þrífösun rafmagns í dreifbýli sem er forsenda margvíslegrar atvinnusköpunar og notkun öflugs rafbúnaðar og orkuskipta í sveitum. Þá ber að fjárfesta vel í samgöngukerfinu öllu, þ.m.t. höfnum og flugvöllum. Horfa ber til aðkomu einkaframtaksins í slíkum fjárfestingum og útgáfu grænna skuldabréfa í verkefnum sem stuðla að vistvænum samgöngum. Meta skal þjóðhagslega hagkvæmni innviðafjárfestinga og skulu allar stórar innviðaframkvæmdir ráðast af félagshagfræðilegu mati auk áætlunar um fjármögnun og rekstur fjárfestinganna.  Skynsamlegt er að ríkið leggi áherslu á stærri framkvæmdir þegar niðursveifla er í hagkerfinu. Svo það sé mögulegt þarf undirbúningi stærri verkefna að vera lokið svo ráðast megi í þau með stuttum fyrirvara þegar það er þjóðhagslega hagkvæmast.

 

Einfalda þarf stjórnsýsluna og straumlínulaga hana í málefnum innviða. Viðreisn styður beina gjaldtöku af vegamannvirkjum til að kosta framkvæmdir eða til að stýra álagi með s.k. flýtigjöldum. Valfrelsi skal vera forsenda gjaldtöku, þannig að það sé valkostur að greiða gjaldið ekki. Í tilfelli flýtigjalda þarf að standa til boða annar raunhæfur samgöngukostur, svo sem almenningssamgöngur af nægjanlegum gæðum. Hraða þarf orkuskiptum í samgöngum og ekki einskorða þau við bíla, heldur einnig skipa- og flugvélaflota landsins.

 

Ákveða þarf og ráðast í framkvæmdir vegna nýrra lausna á flugsamgöngum til og frá höfuðborgarsvæðinu. Borgarlína og þjóðvegastokkar á höfuðborgarsvæðinu, ásamt aðskilnaði akstursstefna á þjóðvegum við höfuðborgarsvæðið, verði sett í forgang. Taka þarf frárennslismál þ.m.t. skolpmál landsins föstum tökum til að uppfylla þau lög og reglur sem um þær gilda.

 

Fólk af erlendum uppruna auðgar íslenskt samfélag og atvinnulíf

 

Viðreisn vill byggja upp fjölþjóðlegt og opið samfélag. Brýnt er að tryggja öllum íbúum landsins jöfn tækifæri og jafnan lagalegan rétt án tillits til uppruna. Gildir þetta jafnt um vinnumarkað, borgaraleg réttindi, möguleika til náms sem og þátttöku í stjórnmálum. Brýnt er að ráðast í viðeigandi aðgerðir gegn mismunun á íslenskum vinnumarkaði á grundvelli uppruna. Inngilding í íslenskt samfélag á að vera meginstef á öllum sviðum. Viðreisn vill rýmka kosningarétt, rýmka atvinnu- og dvalarréttindi fólks utan EES-svæðisins og auka rétt útlendinga sem stunda hér nám til að setjast að á Íslandi að námi loknu. Viðreisn vill umhverfi sem hvetur fólk af erlendum uppruna til festa hér rætur.

 

Viðreisn leggur áherslu á að samin verði heildstæð aðgerðaráætlun í málefnum fólks af erlendum uppruna sem hefur annað móðurmál en íslensku, samhliða mótun innflytjendastefnu. Við þá vinnu skal m.a. horfa til Kanada við útfærslu enda hafi landið náð góðum árangri hvað móttöku og inngildingu innflytjenda varðar.

 

Einfalda þarf stjórnsýslu innflytjendamála og koma á samstarfsvettvangi ríkis, sveitarfélaga og atvinnulífs til að samræma móttöku innflytjenda svo styrkja megi fólk af erlendum uppruna til þátttöku í samfélaginu, út frá hugmyndafræði inngildingar, og meta þörf á aðfluttu vinnuafli hverju sinni. Stefna skal að birtingu og árlegri uppfærslu „Já-lista“ starfsgreina og munu umsækjendur um dvalar- og atvinnuleyfi sem uppfylla skilyrði hans fá sérstakan forgang.

 

Tryggja þarf að innflytjendur með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn fái viðeigandi tækifæri og stuðning, svo forsendur til náms og atvinnu verði jafnari. Gera þarf bragarbót á því hvernig menntun erlendis frá er metin og tryggja aðgengi nýbúa að raunfærnimati svo að þekking og hæfni þeirra nýtist þeim og samfélaginu sem best. Tryggja þarf að hópurinn geti fengið staðfest mat á menntun þeirra erlendis frá áður en flutt er til Íslands. Viðreisn leggur áherslu á uppbyggingu túlkaþjónustu í ljósi mismunandi aðstæðna fólks.

 

Íslenskukennsla er mikilvæg grunnstoð sem öll eiga rétt á. Sérstaka áherslu skal leggja á stuðning og eftirfylgni með börnum og ungmennum sem ekki hafa íslensku að móðurmáli. Huga þarf að fjölbreyttum leiðum til að kenna fullorðnum og börnum íslensku og hvetja skal fyrirtæki til að bjóða upp á íslenskukennslu á vinnutíma.

 

Viðreisn leggur áherslu á mannúðlega stefnu í málefnum flóttafólks og umsækjenda um alþjóðlega vernd. Ísland skal leggja sitt af mörkum til þróunarsamvinnu, mannúðar- og neyðaraðstoðar, sem og móttöku flóttafólks. Með mannréttindi og mannúð að leiðarljósi ætti Ísland að setja fordæmi í málefnum flótta- og farandfólks sem hingað leitar í von um betra líf. Veita skal flóttafólki og hælisleitendum mannsæmandi skjól og endurskoða þau búsetuúrræði sem standa þeim til boða. Hópnum þarf að tryggja réttindi til náms, vinnu og þjónustu hér á landi, svo það geti búið sér betra líf og tekið virkan þátt í samfélaginu.
 

Mannréttindi eru grundvöllur fjölbreytts mannlífs

Á Íslandi er fjölbreytt mannlíf sem standa þarf vörð um. Tryggja skal mannréttindi og virðingu fyrir öllum.

 

Huga skal að upplýsingaöryggi og vernd persónuupplýsinga við geymslu og dreifingu gagna.

 

Með breytingum á stjórnarskrá skal tryggja jöfnun atkvæðavægis og einnig jafnræði meðal trú- og lífsskoðunarfélaga með fullum aðskilnaði ríkis og kirkju. Ríkið leggi af úthlutun sóknargjalda og hætti skráningu trúar- og lífsskoðana. Skerpa þarf á þrískiptingu ríkisvaldsins með aukinni aðgreiningu valdþátta og þannig auka tiltrú fólks á dómstólum og löggjafanum.

 

Styðja þarf fanga til að hefja nýtt líf að lokinni afplánun, með stuðningi og sjálfseflingu á meðan á afplánun stendur og að henni lokinni. Sérstaklega skal hlúð að ungum brotamönnum. Þá eiga börn ekki heima á sakaskrá. Huga þarf að öðrum leiðum fyrir börn sem gerast brotleg við lögin, til að mynda með aukinni áherslu á sjálfseflingar- og forvarnarúrræði.

 

Líta skal á misnotkun vímuefna sem heilbrigðismál. Viðreisn vill að skref verði tekin í átt að lögleiðingu vímuefna. Afglæpavæðing sé rökrétt fyrsta skref í þá átt. Með lögleiðingu vímuefna mætti betur tryggja öryggi neytenda. Þegar athæfið er ekki refsivert er aukinn hvati til að leita sér aðstoðar, auk þess sem viðskipti með vímuefni færu síður fram á forsendum skipulagðra brotahópa. Áhersla skal lögð á skaðaminnkandi úrræði fyrir notendur vímuefna, til að mynda með opnun neyslurýma.

 

Refsistefna í málefnum kynlífsverkafólks og þolenda vændis, sem er skaðleg þeirra hagsmunum, er úrelt og síður til þess fallin að tryggja öryggi. Brýnt er að stjórnvöld tileinki sér skaðaminnkandi aðferðafræði í málaflokknum, ásamt því að efla félagsleg úrræði til stuðnings kynlífsverkafólki og þolenda vændis. Tryggja þarf þolendum mansals fullnægjandi stuðning og réttarvernd.

 

Það er grunnskylda ríkisins að tryggja öryggi fólksins í landinu. Löggæsla er mikilvæg þjónusta við almenning. Biðlistar í réttarkerfinu eru óboðlegir. Þolendur og samfélagið allt á rétt á því að lögregla, ákæruvald og dómstólar hafi burði til að vinna hraðar úr málum.
 

Greiðum fólki leið að húsnæði

Lækka skal kostnað við nýbyggingar með einföldun regluverks. Þar má líta til ráðlegginga OECD. Lóðaúthlutanir sveitarfélaga skulu tryggja framboð og jafna sveiflur á húsnæðismarkaði. Hvetja ætti til að eldri íbúðir séu gerðar upp eða þeim skipt upp í stað þess að rífa alltaf og byggja nýtt.

 

Meginþorri húsnæðisuppbyggingar á að eiga sér stað á markaðsforsendum. Við uppbyggingu óhagnaðardrifins húsnæðis þarf huga að því að hún eigi sér stað um allt land að félagslegur hreyfanleiki sé tryggður. Jafna þarf mun á húsnæðisstuðningi til eigenda og leigjenda. Viðreisn styður ekki hugmyndir um leiguþak.

 

Viðreisn vill gera nauðsynlegar breytingar á reglugerð um lánshæfis- og greiðslumat til að auðvelda fólki á leigumarkaði að kaupa sér íbúðarhúsnæði til eigin nota. Skulu reglurnar taka mið af því að hafi kaupandi staðið skil á leigu fyrir íbúðarhúsnæði samkvæmt þinglýstum leigusamningi í 12 mánuði eða lengur teljist greiðslugeta hans samsvara sambærilegri fjárhæð á mánuði og hann hefur greitt á tímabilinu.

——

Ábendingar, athugasemdir og tillögur um stefnu Viðreisnar má senda á netfangið vidreisn@vidreisn.is.

Flokkar
Málefnin