Innanríkismál

Viðreisn stendur fyrir frjálst og neytendavænt þjóðfélag. Mikilvægt er að fólki sé frjálst að búa og starfa þar sem það kýs. Hið opinbera á ekki að standa í vegi fyrir fólki heldur greiða því veginn. Neytendur skulu ávallt vera í forgrunni.

 

  • Tryggjum eignarhald þjóðarinnar á auðlindum sínum
  • Kröftug sveitarfélög með þjónustu nær íbúum
  • Neytendur í öndvegi
  • Stórátak í innviðafjárfestingum
  • Mannréttindi eru grundvöllur fjölbreytts mannlífs

 

Landsþing 28. ágúst 2021

 

Tryggjum eignarhald þjóðarinnar á auðlindum sínum

Viðreisn styður  að gerðar verði verulegar endurbætur á stjórnarskránni  í sátt þings og þjóðar.  Litið verði til tillagna stjórnlagaráðs og annarra hugmynda sem komið hafa fram síðan.  Lögð verði áhersla á að ná fram raunhæfum breytingum sem tryggja eignarhald þjóðarinnar á náttúruauðlindunum til framtíðar, með markaðsverði fyrir tímabundin afnot.

 

Kröftug sveitarfélög með þjónustu nær íbúum

Í frjálslyndu samfélagi þarf fólk að hafa raunhæfa valkosti um hvar það býr sér heimili. Blómleg og öflug byggð landið um kring er forsenda velsældar. Með því að jafna tækifæri allra landsmanna til atvinnu og þjónustu er stuðlað að sjálfbærri þróun byggðarlaga um land allt. Efling allra landsbyggðarkjarna með öflugum innviðum gerir sveitarfélögum kleift að laða til sín íbúa og atvinnuskapandi fyrirtæki.

 

Viðreisn styður sameiningu og stækkun sveitarfélaga með það fyrir augum að draga úr yfirbyggingu og efla nærþjónustu á hagkvæman hátt. Það er forsenda þess að unnt sé að fela þeim fleiri verkefni sem nú er sinnt af ríkisvaldinu, enda séu það hagsmunir íbúa. Tryggja þarf að fjármagn fylgi tilfærslu verkefna og styrkja almennt tekjugrunn sveitarfélaganna. Auka á aðkomu þeirra að lykilákvörðunum um uppbyggingu í heimabyggð ásamt því að veita stærri styrki til nýsköpunar, menningarstarfs og þróunar á landsbyggðinni. Fólk á að hafa raunhæft val um hvar það býr sér heimili án þess að vera mismunað eftir búsetu. Með aukinni hlutdeild sveitarfélaga í þjónustu við íbúa er valdi hins opinbera dreift enn frekar um landið og það fært nær íbúum.

 

Hvítbók í byggðamálum gerir góða grein fyrir hvað þarf að gera til að snúa við neikvæðri byggðaþróun á Íslandi. Við styðjum að verkefnum sem þar eru sett fram sé forgangsraðað,  þau fjármögnuð og framkvæmd í nánu samstarfi við hagsmunaaðila.

 

Neytendur í öndvegi

Frjáls samkeppni er best til þess fallin að tryggja neytendum fjölbreytt úrval vöru, góða þjónustu og sanngjarnt verð. Auka má vöruúrval og stuðla að lækkuðu vöruverði með endurskoðun tolla og með aðild að Evrópusambandinu. Einu afskipti ríkisins af samkeppnismarkaði ættu að vera virkt samkeppniseftirlit og öflug neytendavernd að teknu tilliti til alþjóðlegrar þróunar markaða og upplýsingum til neytenda. Samkeppnislög skulu taka til allra atvinnugreina. Ríkið á ekki að starfa á smásölumarkaði, þar með talið áfengismarkaði, eða að vörudreifingu. Bændur geti selt afurðir sínar beint til neytenda án hindrana af hálfu hins opinbera. Auka skal gegnsæi í fasteignaviðskiptum með ástandsskoðun fasteigna og seljendatryggingu.

 

Stofnanir ríkisins eiga að þjónusta almenning. Almenningur er neytandi þjónustu hins opinbera og kerfið á að starfa fyrir almenning en ekki í þágu stofnanna sjálfra. Gera skal þjónustu hins opinbera aðgengilega með auknum rafrænum lausnum og laga regluverk þannig að rafrænar lausnir séu viðurkenndar.

 

Stórátak í innviðafjárfestingum

Nútímavæðing innviða, í þágu samfélags, umhverfis og öryggis þarf að verða forgangsmál nú og í náinni framtíð. Í öllum byggðum skal vera aðgengi að öflugri nettengingu. Ráðast þarf í stórátak með fjárfestingum í dreifikerfi rafmagns. Hraða þarf þrífösun rafmagns í dreifbýli  sem er forsenda margvíslegrar atvinnusköpunar og notkun öflugs rafbúnaðar og orkuskipta í sveitum. Þá ber að fjárfesta vel í samgöngukerfinu öllu, þ.m.t. höfnum og flugvöllum. Horfa ber til aðkomu einkaframtaksins í slíkum fjárfestingum og útgáfu grænna skuldabréfa í verkefnum sem stuðla að vistvænum samgöngum. Meta skal þjóðhagslega hagkvæmni innviðafjárfestinga og skulu allar stórar innviðaframkvæmdir ráðast af félagshagfræðilegu mati.

 

Einfalda þarf og straumlínulaga stjórnsýslu í málefnum innviða. Taka skal upp beina gjaldtöku af vegamannvirkjum í stað núverandi gjaldstofna og láta slíka gjaldtöku taka mið, m.a. af umhverfisáhrifum og álagi á vegakerfið. Hraða þarf orkuskiptum í samgöngum og ekki einskorða þau við bíla, heldur einnig skipa- og flugvélaflota landsins.

 

Ákveða þarf og ráðast í framkvæmdir vegna nýrra lausna á flugsamgöngum til og frá höfuðborgarsvæðinu.

 

Borgarlína og þjóðvegastokkar á höfuðborgarsvæðinu, ásamt aðskilnaði akstursstefna á þjóðvegum við höfuðborgarsvæðið verði sett í forgang.

 

Mannréttindi eru grundvöllur fjölbreytts mannlífs

Á Íslandi er fjölbreytt mannlíf og vill Viðreisn standa vörð um fjölbreytileikann. Tryggja skal mannréttindi og virðingu fyrir öllum. Tryggja verður að fólk á flótta og hælisleitendur hljóti mannsæmandi skjól hérlendis ásamt því að endurskoða þau búsetuúrræði sem standa þeim til boða. Fólk á flótta og hælisleitendur eiga að vera jafn velkomin og aðrir. Tryggjum réttindi til þjónustu, náms og vinnu þegar fólk kemur hingað til lands og leyfum þeim að búa sér betra líf og taka virkan þátt í samfélaginu.

 

Huga skal að upplýsingaöryggi og vernd persónuupplýsinga við geymslu og dreifingu gagna.

 

Með breytingu á stjórnarskrá skal tryggja jöfnun atkvæðavægis og jafnræði meðal trúfélaga með fullum aðskilnaði ríkis og kirkju. Ríkið leggi af úthlutun sóknargjalda og hætti skráningu trúar- og lífsskoðana. Skerpa þarf á þrískiptingu ríkisvaldsins með aukinni aðgreiningu valdþátta og þannig auka tiltrú fólks á dómstólum og löggjafanum.

 

Styðja þarf fanga til að hefja nýtt líf að lokinni afplánun, með stuðningi og sjálfseflingu á meðan á afplánun stendur og stuðningi eftir afplánun. Sérstaklega skal hlúð að ungum brotamönnum. Líta skal á notkun vímuefna sem heilbrigðismál. Viðreisn vill að skref verði tekin í átt að lögleiðingu vímuefna. Afglæpavæðing sé rökrétt fyrsta skref í þá átt. Lögleiðing vímuefna færir viðskipti með þau úr undirheimum og upp á yfirborðið þar sem öryggi neytenda er betur tryggt. Áhersla skal lögð á skaðaminnkandi úrræði fyrir notendur vímuefna, t.a.m. opnun neyslurýma.

 

Refsistefna í málefnum kynlífsverkafólks og þolenda vændis, sem er skaðleg þeirra hagsmunum, er úrelt. Nauðsynlegt er að stuðla að skaðaminnkandi nálgun í þeim málaflokki og efla félagsleg úrræði þeim til stuðnings. Þolendum mansals verði tryggð fullnægjandi réttarvernd og stuðningur.

——

Ábendingar, athugasemdir og tillögur um stefnu Viðreisnar má senda á netfangið vidreisn@vidreisn.is.
Viðkomandi málefnanefnd tekur efnið til skoðunar, en starf málefnanefnda er opið öllum flokksmönnum.

 

Geir Finnsson er formaður málefnanefndar um innanríkismál.

Formaður málefnanefndar

Geir Finnsson

Flokkar
Málefnin