Utanríkismál

  • Eflum og styrkjum enn frekar samvinnu Íslands og annarra ríkja innan Evrópu.
  • Kjósum um áframhald aðildarviðræðna við ESB.
  • Eflum stöðu Íslands í alþjóðlegum viðskiptum.
  • Bætum netöryggi og taka þátt í samstarfi Evrópuþjóða í baráttu gegn netárásum.
  • Leggjum áherslu á víðtækt samstarf þjóða um málefni norðurslóða.
  • Tökum þátt í baráttu gegn ólögmætum hergagnaviðskiptum.

 

Landsþing 11. mars 2018

 

Ísland á að vera virkt í samstarfi þjóða á alþjóðlegum vettvangi til að efla mannréttindi, jafnrétti, frjáls og réttlát viðskipti og stuðla þannig að friði. Með þeim hætti eflum við menningu og hag Íslands sem og þjóða er styðja hliðstætt gildismat. Ísland á heima í samfélagi Evrópuþjóða.

 

SAMSTARF OG VIRK ÞÁTTTAKA Á ALÞJÓÐLEGUM VETTVANGI

Grunnstoðir utanríkisstefnu Íslands eru samstarf við önnur ríki, evrópskt og norrænt samstarf, aðild að Sameinuðu þjóðunum og vestrænt friðar- og öryggissamstarf.

 

Mikilvægt er að efla og styrkja enn frekar samvinnu Íslands og annarra ríkja innan Evrópu og Norðurlandana sérstaklega. Að sama skapi er nauðsynlegt að efla samstarf á alþjóðavettvangi innan Sameinuðu þjóðanna, Norðurskautsráðsins ogannarra alþjóðastofnana sem Ísland er aðili að svo sem OECD, WTO, Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

 

Í samstarfi þjóða eiga Íslendingar að vera virkir og ábyrgir þátttakendur. Í því fellst að sinna trúnaðarstörfum sem Íslandi eru falin á alþjóðavettvangi með fagmennsku og ábyrgð að leiðarljósi.

 

EVRÓPUSAMVINNA ÞJÓNAR HAGSMUNUM ÍSLANDS

Hagsmunir Íslands eru samofnir hagsmunum Evrópuríkja á sviðum menningar, efnahags- og viðskipta. Ísland uppfylli skyldur sínar samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Aðild að Evrópusambandinu myndi styrkja stöðu Íslands og efla hagsæld. Því ber að kjósa um áframhald aðildarviðræðna við ESB.

 

Ísland deilir gildum með Evrópuríkjum og leggur þar áherslu á mannréttindi, athafnafrelsi, neytendavernd, réttlæti í samskiptum borgaranna við hið opinbera og óháð eftirlit með framkvæmd milliríkjasamninga. Styrkur Íslands í samskiptum við umheiminn er fólginn í skýrri samstöðu og samvinnu við þau ríki sem byggja á svipuðum gildum.

 

EES samningurinn veitir Íslandi aðgang að innri markaði Evrópu. Nauðsynlegt er að Ísland uppfylli skyldur sínar samkvæmt EES samningnum svo að einstaklingar og fyrirtæki njóti kosta samningsins. Til að svo megi verða þarf að gera stjórnsýslunni betur kleift að takast á við verkefni á sviði EES samstarfsins.

 

Samningurinn hefur í aldarfjórðung veitt íslenskum ríkisborgurum og fyrirtækjum aðgang að innri markaði Evrópusambandsins, landi og þjóð til hagsbóta. Réttur neytenda hefur styrkst til muna á þessum tíma. Til þess að allir kostir samningsins nýtist þjóðinni til fulls er brýnt að Ísland standi við allar skuldbindingar sínar um framkvæmd hans.

 

Hag Íslands er best borgið innan Evrópusambandsins. Nú þegar er megnið af allri Evrópulöggjöf innleitt vegna aðildar að EES án beinnar aðkomu að ákvarðanatöku. Aðild að Evrópusambandinu tryggir Íslandi aðkomu að mótun stefnu og löggjafar og styrkir þannig fullveldi landsins. Full þátttaka í Evrópusamstarfi tryggir að rödd Íslands heyrist á alþjóðavettvangi. Evrópusambandsaðild felur jafnframt í sér greiðara aðgengi að öflugum samstarfsverkefnum sambandsins, s.s. á sviði samgangna, landbúnaðar, menningar og ungmennastarfs. Einnig opnar aðild dyrnar að myntsamstarfi og síðar upptöku evru.

 

Til þess að sátt ríki í samfélaginu skal bera undir þjóðaratkvæði hvort ljúka eigi aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Verði aðildarviðræður samþykktar af þjóðinni skal jafnframt bera aðildarsamning undir þjóðina og fara að niðurstöðum þeirrar atkvæðagreiðslu.

 

ALÞJÓÐLEG VIÐSKIPTI OG ÁSKORANIR HNATTVÆÐINGAR

Efla þarf stöðu Íslands í alþjóðlegum viðskiptum, jafnt innan Evrópu sem utan. Hnattvæðingu fylgja ótvírætt miklir kostir en einnig áskoranir sem taka þarf alvarlega. Alþjóðlegt samstarf er skilvirkasta leiðin til þess að taka á skattaundanskotum.

 

Kortleggja þarf viðskiptatækifæri utan Evrópu og kanna hvort hægt sé að nýta betur þá fríverslunarsamninga sem þegar hafa verið gerðir. Á meðan Ísland stendur utan Evrópusambandsins þurfa stjórnvöld að taka virkan þátt í starfi EFTA við gerð fríverslunarsamninga.

 

Aukinni hnattvæðingu fylgja áskoranir sem taka skal alvarlega. Samstarf ríkja er forsenda þess að koma í veg fyrir að einstaklingar og fyrirtæki fari á snið við lög og reglur í skjóli alþjóðlegrar starfsemi. Ísland á að vera virkur þátttakandi í því starfi.

 

MANNRÉTTINDI, FRIÐAR- OG ÖRYGGISMÁL

Mannréttindi eru einn af hornsteinum íslenskrar utanríkisstefnu. Öryggi Íslands verður best tryggt með nánu samstarfi við vestræn lýðræðisríki og innan vébanda Atlantshafsbandalagsins. Huga þarf sérstaklega að netöryggi og umsvifum erlendra ríkja á norðurslóðum samhliða opnun nýrra siglingaleiða.

 

Mannréttindi eru óaðskiljanlegur hluti alþjóðastjórnmála en ekki einkamál sérhverrar þjóðar. Ísland skal leggja sitt af mörkum til þróunarsamvinnu, mannúðar- og neyðaraðstoðar, sem og móttöku flóttafólks.

 

Öryggi Ísland er best tryggt innan vébanda Atlantshafsbandalagsins, með nánu samstarfi við öryggisstofnanir Evrópusambandsins sem annast varnir gegn hryðjuverkum, innra öryggi og landamæraeftirlit, ásamt varnarsamningi Íslands og Bandaríkjanna.
Ísland taki fullan þátt í baráttu gegn ofbeldi öfgahópa, mansali, eiturlyfjasmygli og peningaþvætti. Ísland verði áfram öflugur málsvari ályktunar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna (nr. 1325) um konur, frið og öryggi í alþjóðasamstarfi. Mikilvægt er að taka þátt í samstarfi þjóða í baráttu gegn hernaði og ólögmætum hergagnaviðskiptum svo sem flutningi hergagna til stríðshrjáðra landa.

 

Að því er varðar öryggi landsins þarf ekki síst að gæta að netöryggi enda hefur komið í ljós að flest ríki hafa staðið berskjölduð gagnvart netárásum. Mikilvægt er að taka þátt í samstarfi Evrópuþjóða í baráttunni gegn netárásum og tilburðum til afskipta af innanríkismálum.

 

Með opnun siglingaleiða og auknum tækifærum til nýtingar náttúruauðlinda á norðurslóðum þarf að gæta að öryggismálum landsins og fylgjast með auknum umsvifum annarra ríkja á svæðinu.

 

ALÞJÓÐLEG UMHVERFISMÁL

Baráttan gegn loftslagsbreytingum þarf að eiga sér stað á alþjóðlegum vettvangi. Evrópusambandið, Sameinuðu þjóðirnar og Norðurskautsráðið gegna öll mikilvægum hlutverkum á sviði umhverfismála, sem og alþjóðlegir sáttmálar eins og Parísarsamkomulagið og Kyoto sáttmálinn.

 

Íslendingar eiga að láta að sér kveða á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, stofnana þeirra og innan svæðasamtaka nágrannaríkja, til að tryggja og verja skynsamlega nýtingu náttúruauðlinda og vinna gegn skaðlegum áhrifum á loftslag og umhverfi. Efla skal deildir Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi á sviði jarðhita, sjávarútvegs, landgræðslu og jafnréttismála.

 

Innan Norðurskautsráðsins skal Ísland leggja áherslu á víðtækt samstarf þjóða um málefni norðurslóða með hliðsjón af legu landsins. Þrátt fyrir að áhrif hnattrænnar hlýnunar séu sýnilegri á norðurhveli jarðar en víða annarstaðar er nauðsynlegt að horfa á heildaráhrif loftslagsbreytinga á heimsvísu og vinna náið með þeim þjóðum sem láta sig málin varða.

 

Íslenska ríkið á að standa að öllu leyti við skuldbindingar sínar gagnvart Parísarsamkomulaginu og nýta í því skyni kosti samstarfs Evrópuþjóða.

 

UTANRÍKISÞJÓNUSTA Á AÐ VERA SKILVIRK, NÚTÍMALEG OG ÖFLUG

Utanríkisþjónustan þarf að styðja við menningu, listir og viðskipti og geta staðið vörð um íslenska hagsmuni á erlendum vettvangi. Jafnrétti skal haft að leiðarljósi í utanríkismálum.

 

Utanríkisþjónustan skal í öllu alþjóðlegu samstarfi styðja við jafnréttismál í samræmi við sjálfbærnimarkmið Sameinuðu þjóðanna. Jafnrétti og jafn aðgangur kynjanna að menntun, atvinnu, heilbrigðisþjónustu og ákvarðanatöku er nauðsynleg forsenda friðar, hagsældar og sjálfbærni í heiminum.

 

Utanríkisþjónusta Íslands á að koma íslenskum sjónarmiðum á framfæri og vinna þeim framgang á faglegan hátt gagnvart einstökum ríkjum og alþjóðastofnunum.

 

Utanríkisþjónustan á að skapa tækifæri og aðstoða við að koma á tengslum á sem flestum sviðum og hjálpa til við að efla hvers kyns samskipti. Utanríkisþjónustan þarf að vera í stakk búin til að rækja hlutverk sitt og skyldur.

 

Starfsemi og skipulag utanríkisþjónustunnar þarf að spegla grundvallarsjónarmið um jafnrétti og fagmennsku. Sérstaklega skal gæta að því að áherslur Íslands á sviði jafnréttismála séu hafðar að leiðarljósi við skipan í trúnaðarstöður á alþjóðavettvangi.

 

 

——

 

Ábendingar, athugasemdir og tillögur um stefnu Viðreisnar má senda á netfangið vidreisn@vidreisn.is.
Viðkomandi málefnanefnd tekur efnið til skoðunar, en starf málefnanefnda er opið öllum flokksmönnum.

 

Eyrún Þórsdóttir, er formaður málefnanefndar um utanríkismál.

Formaður málefnanefndar

Eyrún Þórsdóttir