Utanríkismál

Ísland á að vera virkt í alþjóðlegu samstarfi sem málsvari mannréttinda, jafnréttis og frjálsra og réttlátra viðskipta og standa þannig vörð um lýðræði og frið á heimsvísu. Með þeim hætti eflum við menningu og hag Íslands sem og þeirra þjóða er styðja hliðstætt gildismat. Ísland á heima í samfélagi Evrópuþjóða enda hagsmunum landsins best borgið í fjölþættu samstarfi evrópskra lýðræðisríkja.

 

  • Ljúkum aðildarviðræðum við Evrópusambandið 
  • Tökum virkari þátt í vestrænu samstarfi 
  • Sterk rödd í málefnum norðurslóða 
  • Innleiðum femíníska utanríkisstefnu 

 

Landsþing 11. febrúar 2023

 

Ljúkum aðildarviðræðum við Evrópusambandið

Evrópuhugsjónin um frið, hagsæld og samvinnu lýðræðisþjóða er kjarni í stefnu Viðreisnar. Ísland á að auka enn frekar þátttöku sína í Evrópusamstarfinu og gerast fullgildur aðili að Evrópusambandinu. Við eigum landfræðilega, menningarlega og efnahagslega samleið með þeim sjálfstæðu og fullvalda ríkjum sem þar hafa átt gott og farsælt samstarf frá upphafi.  Núverandi þátttaka Íslands í Evrópusamstarfinu í gegnum samninginn um Evrópska Efnahagssvæðið hefur reynst mjög vel í tæp 30 ár og hefur verið undirstaða hagvaxtar og bættra lífskjara. EES samningurinn er jafnframt stærsta skrefið að aðild, sem reynst hefur vel.

 

Verkefni samtímans og áskoranir framtíðarinnar krefjast afgerandi aðgerða og virkrar samvinnu. Í því felst að Ísland stigi lokaskrefið í að auka samstarf við aðrar Evrópuþjóðir um mannréttindamál, efnahagsmál og umhverfis- og loftslagsmál, auk annarra veigamikilla mála. Þannig tryggjum við góð lífskjör til frambúðar. Ísland tekur þegar þátt í umfangsmiklu samstarfi við ESB með EES samningnum sem hefur veruleg áhrif á fjölmörg svið íslensks samfélags. Það er óviðunandi að Ísland taki ekki þátt í stefnumótun og ákvörðunum um eigin örlög, ákvörðunum sem við verðum að hlýta eigi að síður. Sjálfstæð og fullvalda þjóð á ekki að sætta sig við þessa stöðu heldur stíga skrefið til fulls.

 

Á þeim forsendum leggur Viðreisn höfuðáherslu á að ljúka aðildarviðræðum við Evrópusambandið að undangengnu samþykki þjóðarinnar í almennri atkvæðagreiðslu. Það þýðir að haldin verði fyrst þjóðaratkvæðagreiðsla um áframhald viðræðna og síðar um samningsdrög, þegar þau liggja fyrir.

 

Tökum virkari þátt í vestrænu samstarfi

Í samstarfi þjóða eiga Íslendingar að vera virkir og ábyrgir þátttakendur. Við stöndum frammi fyrir breyttri heimsmynd í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu, innrásar í sjálfstætt og fullvalda Evrópuríki sem Viðreisn fordæmir. Breyttar aðstæður kalla nú á nánari og virkari samvinnu við Evrópusambandið og önnur aðildarríki Atlantshafsbandalagsins í utanríkis-, öryggis- og varnarmálum. Aukinni hnattvæðingu fylgja áskoranir sem taka skal alvarlega. Samstarf ríkja er forsenda þess að koma í veg fyrir að einstaklingar og fyrirtæki fari á svig við lög og reglur í skjóli alþjóðlegrar starfsemi og stærðar. Ísland á að vera virkur þátttakandi í því starfi.

 

Viðreisn vill að unnin verði sérstök varnarstefna fyrir Ísland. Sú stefna verði hluti af þjóðaröryggisstefnu og uppfærð með reglubundnum hætti. Varnarstefnan leggi grunn að og skýri framkvæmd, ábyrgð, fyrirkomulag stjórnsýslu og fjármögnun varnarmála Íslands. Varnarstefnan verði á ábyrgð utanríkisráðuneytisins og unnin í samráði við Alþingi.

 

Viðreisn vill að Ísland nýti EES-samninginn til fulls. Schengen-samstarfið er órjúfanlegur þáttur í þeirri vinnu. Efla þarf stuðning og net viðskiptafulltrúa utanríkisþjónustunnar til að fylgja eftir vexti útflutnings. Viðreisn vill skoða hvort hægt sé að gera samninga um niðurfellingu tolla á fullunnum sjávarafurðum. Slíkur samningur myndi skapa aukinn grundvöll fyrir ný tækifæri og styðja við nýsköpun.

 

Öryggi Ísland er best tryggt innan vébanda Atlantshafsbandalagsins, með nánu samstarfi við öryggisstofnanir Evrópusambandsins sem annast innra öryggi, landamæra eftirlit og varnir gegn hryðjuverkum, ásamt varnarsamningi Íslands og Bandaríkjanna. Ísland á að standa vörð um sjálfsákvörðunarrétt þjóða, lýðræði og mannréttindi í heiminum, í samstarfi við samstarfsþjóðir okkar innan Atlantshafsbandalagsins og Evrópusambandsins. Við styðjum baráttu Úkraínu gegn innrásarher Rússlands og fordæmum harðlega mannréttindabrot og stríðsglæpi Rússlands sem framin eru í Úkraínu. Ísland á ekki að láta sitt eftir liggja og styðja Úkraínu í baráttu sinni, frekar en aðrar Norðurlandaþjóðir og Evrópuþjóðir hafa gert.

 

Að því er varðar öryggi landsins þarf ekki síst að gæta að netöryggi enda hefur komið í ljós að flest ríki hafa staðið berskjölduð gagnvart netárásum. Mikilvægt er að taka þátt í samstarfi lýðræðisríkja í baráttunni gegn netárásum, fjölþáttaógnum og tilburðum til afskipta af innanríkismálum.

 

Ísland á að efla þátttöku sína í norrænu samstarfi og nýta samstöðu Norðurlandaþjóða til að efla rödd okkar á alþjóðavettvangi, ekki síst með hliðsjón af markmiði Viðreisnar um að ganga í Evrópusambandið. Sameinuð rödd Norðurlanda á þeim vettvangi yrði öflugur málsvari samnorrænna gilda um lýðræði, velferð og mannréttindi. Sameinuð rödd Norðurlanda hefur einnig tækifæri til að styrkjast innan Atlantshafsbandalagsins með aðild Svíþjóðar og Finnlands, sem Viðreisn styður eindregið. Viðreisn vill skoða hvort vilji sé fyrir því að veita Skotlandi og Eystrasaltsríkjunum aðild að norrænu samstarfi í ljósi sameiginlegrar menningar, sögu og hagsmuna.

 

Sterka rödd í málefnum norðurslóða

Viðreisn leggur áherslu á að Ísland hafi sterka rödd í málefnum norðurslóða. Halda þarf áfram samtali og samstarfi um þær áskoranir sem áhrif loftslagsbreytinga munu hafa í för með sér. Standa þarf vörð um heilbrigði hafsins og beina sjónum að því hvernig nýta megi tækifæri með sjálfbærni að leiðarljósi. Efla þarf rannsóknir um norðurslóðamál á Íslandi og styðja betur við alþjóðlegt vísindasamstarf um málefni svæðisins. Með opnun siglingaleiða og auknum tækifærum til nýtingar náttúruauðlinda á norðurslóðum þarf einnig að gæta að öryggismálum landsins og fylgjast með auknum umsvifum annarra ríkja á svæðinu.

 

Innleiðum femíníska utanríkisstefnu

Viðreisn vill að Ísland innleiði feminíska utanríkisstefnu að fordæmi Frakklands, Þýskalands, Spánar, Kanada og annarra ríkja og að jafnrétti verði haft að leiðarljósi í öllum störfum utanríkisþjónustunnar. Þar sem alþjóðlegt bakslag hefur orðið í jafnréttismálum á síðustu árum er mikil þörf á að þeim sé haldið vel á lofti í alþjóðlegu samhengi. Ísland hefur hingað til verið öðrum ríkjum fyrirmynd þegar kemur að jafnréttismálum og öflugur málsvari mannréttinda og kynjajafnréttis á alþjóðavettvangi. Því er mikilvægt að Ísland sýni gott fordæmi og sé ávallt á varðbergi fyrir þeim nýju áskorunum sem upp koma. Innleiðing femínískrar utanríkisstefnu myndi styrkja stöðu Íslands sem leiðandi afls í alþjóðlegri jafnréttisbaráttu og hafa góð áhrif á störf utanríkisþjónustunnar á þann hátt að jafnrétti yrði haft að leiðarljósi í öllum ákvörðunum, stórum jafnt sem smáum. Einnig verði áfram lögð sérstök áhersla á menntun og valdeflingu stúlkna og kvenna í þróunarsamstarfi en það hefur sýnt sig að valdefling kvenna er ein árangursríkasta aðferð þróunarsamvinnu.

 

 

——

 

Ábendingar, athugasemdir og tillögur um stefnu Viðreisnar má senda á netfangið vidreisn@vidreisn.is.

Flokkar
Málefnin