Utanríkismál

Ísland á að vera virkt í samstarfi þjóða á alþjóðlegum vettvangi til að efla mannréttindi, jafnrétti, frjáls og réttlát viðskipti og stuðla þannig að friði. Með þeim hætti eflum við menningu og hag Íslands sem og þjóða er styðja hliðstætt gildismat. Ísland á heima í samfélagi Evrópuþjóða.

 

  • Ljúkum aðildarviðræðum við Evrópusambandið 
  • Tökum virkan þátt í vestrænu samstarfi 
  • Ísland á að hafa sterka rödd í málefnum norðurslóða 
  • Ísland á að setja fordæmi í málefnum flóttamanna 
  • Innleiðum femíníska utanríkisstefnu 

 

Landsþing 28. ágúst 2021

 

Ljúkum aðildarviðræðum við Evrópusambandið

Evrópuhugsjónin um frið, hagsæld og samvinnu þjóða er kjarni í stefnu Viðreisnar. Ísland á að taka þátt í því samstarfi af fullum krafti og ganga í Evrópusambandið. Við eigum landfræðilega, menningarlega og efnahagslega samleið með þeim sjálfstæðu og fullvalda ríkjum sem kjósa að taka þátt í þessu samstarfi. Verkefni nútímans og framtíðarinnar krefjast þess að við sitjum ekki hjá heldur setjumst til borðs með Evrópuþjóðum og vinnum þétt saman um umhverfis- og loftslagsmál, mannréttindamál, viðskiptafrelsi og  efnahagslegan stöðugleika. Þannig tryggjum við góð lífskjör á Íslandi til frambúðar. Á þeim forsendum leggur Viðreisn höfuðáherslu á að ljúka aðildarviðræðum í virku samstarfi við þjóðina. Samningur verði í kjölfarið lagður í dóm þjóðarinnar.

 

Tökum virkan þátt í vestrænu samstarfi

Í samstarfi þjóða eiga Íslendingar að vera virkir og ábyrgir þátttakendur. Aukinni hnattvæðingu fylgja áskoranir sem taka skal alvarlega. Samstarf ríkja er forsenda þess að koma í veg fyrir að einstaklingar og fyrirtæki fari á svig við lög og reglur í skjóli alþjóðlegrar starfsemi. Ísland á að vera virkur þátttakandi í því starfi.

 

Viðreisn vill að Ísland nýti EES samninginn til fulls. Schengen samstarfið er órjúfanlegur þáttur í þeirri vinnu. Efla þarf stuðning og net viðskiptafulltrúa utanríkisþjónustunnar til að fylgja eftir vexti útflutningstekna á víðu sviði útflutningsgreina. Viðreisn vill skoða hvort hægt sé að gera samninga um niðurfellingar tolla á fullunnum sjávarafurðum. Slíkur samningur myndi skapa aukinn grundvöll fyrir ný tækifæri og nýsköpun.

 

Öryggi Ísland er best tryggt innan vébanda Atlantshafsbandalagsins, með nánu samstarfi við öryggisstofnanir Evrópusambandsins sem annast varnir gegn hryðjuverkum, innra öryggi og landamæraeftirlit, ásamt varnarsamningi Íslands og Bandaríkjanna. Að því er varðar öryggi landsins þarf ekki síst að gæta að netöryggi enda hefur komið í ljós að flest ríki hafa staðið berskjölduð gagnvart netárásum. Mikilvægt er að taka þátt í samstarfi lýðræðisríkja í baráttunni gegn netárásum og tilburðum til afskipta af innanríkismálum.

 

Ísland á að efla þátttöku sína í norrænu samstarfi og nýta samstöðu þjóða til að efla rödd okkar á alþjóðavettvangi, ekki síst með hliðsjón af markmiði flokksins um að ganga í Evrópusambandið. Sameinuð rödd Norðurlanda á þeim vettvangi yrði öflugur málsvari samnorrænna gilda um lýðræði, velferð og mannréttindi. Viðreisn vill skoða hvort vilji sé fyrir að veita Skotlandi og Eystrasaltsríkjunum aðild að norrænu samstarfi í ljósi sameiginlegrar menningar, sögu og hagsmuna.

 

Ísland á að hafa sterka rödd í málefnum norðurslóða

Viðreisn leggur áherslu á að Ísland hafa sterka rödd í málefnum norðurslóða. Stuðla þarf að áframhaldandi  samtali um áskoranir sem áhrif loftslagsbreytinga munu hafa í för með sér. Beina þarf sjónum að heilbrigði hafsins og hvernig nýta megi tækifæri með sjálfbærni að leiðarljósi. Efla þarf Akureyri sem miðstöð norðurslóðamála á Íslandi og styðja rækilega við alþjóðlegt vísindasamstarf um málefni svæðisins. Með opnun siglingaleiða og auknum tækifærum til nýtingar náttúruauðlinda á norðurslóðum þarf að gæta að öryggismálum landsins og fylgjast með auknum umsvifum annarra ríkja á svæðinu.

 

Ísland á að setja fordæmi í málefnum flóttamanna

Mannréttindi eru óaðskiljanlegur hluti alþjóðastjórnmála en ekki einkamál sérhverrar þjóðar. Ísland skal leggja sitt af mörkum til þróunarsamvinnu, mannúðar- og neyðaraðstoðar, sem og móttöku flóttafólks. Ísland ætti að setja fordæmi, með mannúð og mannréttindi að leiðarljósi, í málefnum flóttamanna- og farandfólks sem er í leit að betra lífi. Viðreisn vill auðvelda fólki utan EES að fá atvinnuleyfi og leita tækifæra á Íslandi.

 

Innleiðum femíníska utanríkisstefnu

Viðreisn vill að Ísland innleiði formlega feminíska utanríkisstefnu að fordæmi Svíþjóðar, Kanada og annarra ríkja og jafnrétti sé haft að leiðarljósi í öllum störfum utanríkisþjónustunnar. Þar sem alþjóðlegt bakslag hefur orðið í jafnréttismálum á síðustu árum er mikil þörf á að þeim sé haldið vel á lofti í alþjóðlegu samhengi. Ísland hefur hingað til verið öflugur málsvari jafnréttis kynja á alþjóðavettvangi og horft er til Íslands í jafnréttismálum. Því er mikilvægt að Ísland sýni gott fordæmi og sé ávallt á varðbergi fyrir þeim nýju áskorunum sem upp koma.  Innleiðing femínískrar utanríkisstefnu myndi styrkja stöðu Íslands á alþjóðavettvangi sem leiðandi afl í alþjóðlegri jafnréttisbaráttu og hafa góð áhrif á störf utanríkisþjónustunnar á þann hátt að jafnrétti yrði haft að leiðarljósi í öllum ákvörðunum, stórum og smáum. Einnig verði áfram lögð sérstök áhersla á valdeflingu stúlkna og kvenna í þróunarsamstarfi, en það hefur sýnt sig að valdefling kvenna er ein árangursríkasta aðferð þróunarsamvinnu.

 

 

——

 

Ábendingar, athugasemdir og tillögur um stefnu Viðreisnar má senda á netfangið vidreisn@vidreisn.is.
Viðkomandi málefnanefnd tekur efnið til skoðunar, en starf málefnanefnda er opið öllum flokksmönnum.

 

Eyrún Þórsdóttir, er formaður málefnanefndar um utanríkismál.

Formaður málefnanefndar

Eyrún Þórsdóttir

Flokkar
Málefnin