Samþykkt af stjórn Viðreisnar 5. júní 2024
1.1 Landshlutaráð Viðreisnar ákveða hvert fyrir sig hvort prófkjör samkvæmt reglum þessum skuli fara fram í viðkomandi kjördæmi. Við sveitarstjórnarkosningar er ákvörðunin hjá félagsfundi viðkomandi svæðafélags.
1.2 Fund landshlutaráðs/svæðisfélags til ákvörðunar prófkjörs skal boða með góðri almennri auglýsingu með a.m.k. 5 daga fyrirvara. Til að ákvörðun landshlutaráðsins/svæðisfélagsins sé lögmæt þarf einfaldan meirihluta atkvæða viðstaddra fundarmanna. Verði atkvæði jöfn skal kosið á nýjan leik. Verði atkvæði jöfn að nýju skal varpa hlutkesti.
1.3 Kjörstjórn sem kosin er skv. 4. gr. skal taka ákvörðun um dagsetningu prófkjörsdags eða prófkjörsdaga.
2.1 Kjósa skal uppstillingarnefnd á fundi landshlutaráðs. Við sveitarstjórnarkosningar kjósa svæðisfélög sér uppstillingarnefnd. Fund landshlutaráðs eða svæðisfélags þar sem kjósa á uppstillingarnefnd skal boða með hefðbundnum hætti með minnst 5 daga fyrirvara.
2.2. Aðalmenn skulu kjörnir 3 til 5 og 2 til vara. Fulltrúar sem kjörnir eru í uppstillingarnefnd skulu vera félagar í Viðreisn. Þeir skulu gæta að hæfi sínu og vera sjálfstæðir í störfum sínum.
2.3 Uppstillingarnefnd skal hafa einn formann sem er talsmaður nefndarinnar, skal hann kosinn sérstaklega.
2.4 Þau sem taka sæti í uppstillingarnefnd skuldbinda sig jafnframt til að taka ekki sæti á framboðslista í sætum 1-8, hvorki í því kjördæmi/sveitarfélagi sem nefndin starfar í, né öðrum.
3.1 Uppstillingarnefnd leggur fram tillögu til landshlutaráðs/svæðisfélags um heildarframboðslista. Uppstillingarnefnd skal gæta að því að val á framboðslista endurspegli samfélagið og horfa til æskilegs fjölbreytileika svo sem varðandi kyn, aldur, uppruna, menntun og reynslu.
3.2 Fari fram prófkjör í landshluta eða sveitarfélagi er uppstillingarnefnd bundin af niðurstöðu þess, sbr. 19. gr., að því er varðar þau sæti á lista sem kosið er um í prófkjöri.
3.3 Uppstillingarnefnd skal auglýsa með áberandi hætti á vettvangi Viðreisnar eftir áhugasömum frambjóðendum og gefa þeim kost á að kynna sig fyrir nefndinni með kynningarbréfi og ferilskrá. Uppstillingarnefnd er heimilt að boða frambjóðendur til viðtals.
4.1 Kjósa skal kjörstjórn á fundi landshlutaráðs. Kjörnir fulltrúar í kjörstjórn skulu vera félagar í Viðreisn. Við sveitarstjórnarkosningar kjósa svæðisfélög sér kjörstjórn.
4.2 Fund landshlutaráðs eða svæðisfélags þar sem kjósa á kjörstjórn skal boða með hefðbundnum hætti með minnst 5 daga fyrirvara.
4.3 Aðalmenn í kjörstjórn skulu kjörnir 3 til 5 og 2 til vara.
4.4 Landshlutaráð/svæðisfélag ákveður fjölda þeirra sæta sem kosið er um í prófkjöri á sama fundi og kjörstjórn er kosin.
4.5 Kjörstjórn sér um framkvæmd prófkjörs og skal að prófkjöri loknu skila niðurstöðum til uppstillingarnefndar.
5.1 Rétt til atkvæðagreiðslu í prófkjöri hafa allir félagar í Viðreisn, 16 ára og eldri, sem eiga lögheimili í viðkomandi kjördæmi eða sveitarfélagi og hafa skráð sig í Viðreisn a.m.k. 2 dögum fyrir upphaf prófkjörs.
6.1 Kjörgengir í prófkjöri vegna alþingiskosninga eru allir félagar í Viðreisn sem eru kjörgengir til alþingiskosninga skv. lögum, munu hafa náð 18 ára aldri á kjördegi til Alþingiskosninga og hafa skráð sig í Viðreisn a.m.k. 15 dögum fyrir upphaf prófkjörs.
6.2 Kjörgengir í prófkjöri vegna sveitarstjórnarkosninga eru allir félagar í Viðreisn sem eru kjörgengir til sveitarstjórnarkosninga skv. lögum, eiga lögheimili í viðkomandi sveitarfélagi, munu hafa náð 18 ára aldri á kjördegi til sveitarstjórnarkosninga og hafa skráð sig í Viðreisn a.m.k. 15 dögum fyrir upphaf prófkjörs.
7.1 Kjörstjórn skal auglýsa með áberandi hætti á vettvangi Viðreisnar eftir frambjóðendum til þátttöku í prófkjöri.
7.2 Auglýsing kjörstjórnar skal birtast a.m.k. 30 dögum fyrir upphaf prófkjörs.
7.3 Framboðstilkynningu skal skilað til kjörstjórnar eigi síðar en kl. 12 á hádegi 15 dögum fyrir upphaf prófkjörs.
7.4 Kjörstjórn skal greina í auglýsingu hvaða upplýsingar skulu fylgja framboðstilkynningu, s.s. kennitala, símanúmer, kynning á frambjóðanda og mynd á rafrænu formi.
7.5 Framboð er ekki endanlega staðfest fyrr en kjörstjórn hefur staðfest kjörgengi frambjóðenda.
8.1 Kjörstjórn tekur saman upplýsingar framboða sem henni berast og birtir á vef Viðreisnar.
8.2 Stjórn landshlutaráðs/svæðisfélags skipuleggur kynningarfundi með frambjóðendum. Skal hún tryggja að fundir séu haldnir á tímum sem henta frambjóðendum og að frambjóðendur til sömu sæta hafi jöfn tækifæri til að kynna framboð sitt. Kjörstjórn hefur eftirlit með því að skipulagning kynningarfunda sé sanngjörn.
9.1 Hverjum frambjóðanda er heimilt að skipa sér umboðsmann til þess að gæta réttar og hagsmuna framboðsins.
9.2 Frambjóðendum er heimilt að tilnefna sérstakan fulltrúa til að fylgjast með framkvæmd prófkjörs á kjörstöðum, framkvæmd utankjörfundarkosning svo og framkvæmd talningar og almennt með kosningaframkvæmdinni. Þessir fulltrúar skulu gæta þess að trufla með engum hætti framkvæmd prófkjörsins og skulu þeir í því efni hlíta eðlilegum fyrirmælum kjörstjórnar og/eða yfirkjörstjórnar.
9.3 Telji fulltrúar frambjóðenda ástæðu til að gera athugasemdir við framkvæmd prófkjörsins skulu þeir gera það skriflega við kjörstjórn og/eða yfirkjörstjórn.
10.1 Frambjóðendum til prófkjörs skulu afhentar prófkjörsreglur þessar, samþykktir Viðreisnar, persónuverndarstefna flokksins, viðmið um orðfæri Viðreisnar og leiðbeiningar Ríkisendurskoðunar um uppgjör og upplýsingaskyldu þátttakenda í persónukjöri. Frambjóðendur skulu undirrita yfirlýsingu þess efnis að þeir hafi kynnt sér ofangreindar reglur og viðmið og muni fara eftir þeim.
10.2 Allt kynningarefni frambjóðenda skal vera í þeirra eigin nafni og skýrt að það sé ekki í nafni Viðreisnar. Þegar frambjóðendur nota kennimerki Viðreisnar í kynningarefni sínu er þeim óheimilt að breyta merkinu, litum þess eða lögun, og skulu þeir gera með skilmerkilegum hætti grein fyrir því að um kynningu vegna prófkjörsframboðs sé að ræða.
10.3 Frambjóðendur til prófkjörs skulu allir hafa sama aðgang að gagnagrunnum Viðreisnar, þ.e. nafn, símanúmer, heimilisfang og mögulegar bannmerkingu félaga í Viðreisn, í samræmi við lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsingar, nr. 90/2018, og persónuverndarstefnu flokksins. Verði frambjóðendum veittur aðgangur að félagaskrá Viðreisnar í sínu kjördæmi eða sveitarfélagi skulu þeir undirrita vinnslusamning um meðferð persónuupplýsinga og fá kynningu á þeim heimildum, skyldum og ábyrgð sem í honum felast frá flokknum. Njóti frambjóðendur aðstoðar utanaðkomandi aðila í samskiptum við félagsmenn á grundvelli upplýsinga úr félagaskrá skulu frambjóðendur láta viðkomandi aðila undirrita trúnaðaryfirlýsingu og gæta þess að hvergi sé vikið frá skilyrðum laga og persónuverndarstefnu Viðreisnar.
10.4 Tilkynni starfsmaður flokksins framboð í prófkjöri skal hann samdægurs fara í launalaust leyfi frá starfi sínu. Á þetta jafnt við um starfsmenn sem þiggja laun frá flokknum og starfsmenn þingflokks. Launalausu leyfi lýkur degi eftir að prófkjör hefur farið fram.
11.1 Kostnaður sem hverjum frambjóðanda er heimilt að stofna til vegna framboðs má mest nema 10% af hámarksfjárhæðum sem koma fram í lögum nr. 162/2006 (4. mgr. 7. gr.) eins og þær eru á hverjum tíma, að meðtöldu þátttökugjaldi og sameiginlegum kostnaði ef við á.
11.2 Kjörnir fulltrúar (aðalmenn í sveitarstjórnum og alþingismenn) og starfsmenn flokksins sem gefa kost á sér í prófkjöri mega aðeins nýta sér 75% áðurnefndrar kostnaðarheimildar.
11.3 Frambjóðendur skulu skila fjárhagslegu uppgjöri til Ríkisendurskoðunar í samræmi við lög um starfsemi stjórnmálasamtaka, nr. 162/2006, og leiðbeiningar Ríkisendurskoðanda.
12.1 Kjörstjórn skal láta prenta kjörseðla. Skal þess gætt við framkvæmd prófkjörsins að ekki geti verið um að ræða að misfarið verði með kjörseðla.
12.2 Á kjörseðlinum verða nöfn frambjóðenda í stafrófsröð ásamt andlitsmynd og/eða stöðu eða starfsheiti ef nauðsyn þykir til auðkenningar.
13.1 Kjörstjórn skal birta tilkynningu um prófkjörið með auglýsingu eða frétt í fjölmiðlum og á heimasíðu Viðreisnar. Í tilkynningunni skal greina frá eftir því sem við á:
a) Hverjir geti kosið í prófkjörinu.
b) Hvenær kjörið fer fram, dagsetning og tími.
c) Hvar kjörstaðir eru.
d) Hverjir eru í framboði (prófkjörsseðill).
e) Öðru, er varðar framkvæmd prófkjörsins.
13.2 Tilkynningu þessa skal birta eigi síðar en 10 dögum fyrir prófkjör og utankjörfundaratkvæðagreiðslu.
14.1 Heimilt er að greiða atkvæði í prófkjöri utan kjörfundar. Kosningu utan kjörfundar skal stýrt frá aðalskrifstofu Viðreisnar. Þau sem vilja nýta atkvæðisrétt sinn með þessu móti skulu hafa samband við skrifstofu flokksins og sækja þangað eða fá sendan atkvæðisseðil með viðeigandi umslögum.
14.2 Utankjörfundarkosning skal vera tveggja umslaga kosning þ.e. viðkomandi setur atkvæðisseðil í umslag merkt „Atkvæði“ þegar kosið hefur verið og síðan það umslag í annað umslag þar sem fram kemur nafn og heimilisfang hans. Ytra umslagið skal merkt „Til Kjörstjórnar Viðreisnar í _____________kjördæmi“. Viðkomandi kemur síðan atkvæði sínu til skrifstofu flokksins áður en kjörfundur hefst. Við sveitastjórnarkosningar skal merkja ytra umslag sveitafélagi en ekki kjördæmi.
14.3 Ekki er þeim sem greitt hefur atkvæði utan kjörfundar heimilt að greiða atkvæði að nýju.
15.1 Kjörstjórn ákveður kjörstaði og skal gæta þess að þeir uppfylli skilyrði algildrar hönnunar.
15.2 Séu kjörstaðir fleiri en einn skal kjörstjórn skipa undirkjörstjórn, eina fyrir hvern kjörstað, og skal hver undirkjörstjórn skipuð þremur einstaklingum.
16.1 Undirkjörstjórnir skulu stjórna framkvæmd prófkjörs, hver á sínum kjörstað, undir yfirumsjón kjörstjórnar.
16.2 Kjörstjórnum og undirkjörstjórnum ber skylda til að gæta hlutleysis í störfum sínum og sjá um að ekki sé hafður í frammi áróður á kjörstöðum.
16.3 Kjörstjórn skal sjá um, að til staðar séu á hverjum kjörstað reglur um framkvæmd prófkjörsins og nægilegt magn prófkjörsseðla.
16.4 Áður en kjósandi á kjörstað fær prófkjörsseðil í hendur skal merkja með krossi við nafn hans í prófkjörsskrá.
16.5 Kosning skal fara þannig fram, að kjósandi kýs frambjóðanda í ákveðið sæti framboðslista til Alþingis eða sveitarstjórnar með því að setja tölustaf fyrir framan nöfn frambjóðenda á prófkjörsseðlinum og tölusetja í þeirri röð sem óskað er að þeir skipi framboðslistann. Hvorki skal merkja við fleiri né færri frambjóðendur en kosið er um í prófkjöri, skv. ákvörðun kjörstjórnar. Atkvæði skal kjósandi greiða í einrúmi og setja síðan í innsiglaðan kjörkassa.
16.6 Þegar kjörfundi lýkur skulu undirkjörstjórnir, þar sem þeim er til að dreifa, senda kjörkassa til kjörstjórnar, þar sem talning atkvæða fer fram. Skulu kjörstjórnir láta fylgja:
a) Prófkjörsskrá, sem sýnir hverjir kosið hafa
b) Skrá yfir utankjörfundaratkvæði/atkvæði sem bárust
c) Kjörseðla, sem afgangs eru.
d) Gögn um framkvæmd prófkjörsins á hverjum kjörstað.
17.1 Heimilt er að nýta sér rafrænar lausnir við prófkjör. Skal það útfært í samráði við framkvæmdastjóra.
17.2 Sé rafræn leið farin í prófkjöri má víkja frá prentuðum kjörseðlum og utankjörfundaratkvæðagreiðslu (gr. 14). Eins skal útfæra gr. 16 og gr. 18 miðað við þann hugbúnað sem nýttur er til framkvæmdarinnar.
18.1 Kjörstjórn annast talningu atkvæða með aðstoð þeirra, sem hún kveður til. Talning getur hafist þegar allir kjörkassar og gögn, sem þeim eiga að fylgja, hafa borist í hendur kjörstjórnar.
18.2 Áður en talning hefst skal kjörstjórn ganga úr skugga um að öll innsigli kjörkassa séu ósködduð. Síðan skal kanna hvort fleira en eitt atkvæði hafi borist frá sama kjósanda með því að bera saman umslög atkvæða sbr. 14. gr. og utankjörfundaratkvæða þar sem það á við sbr. 14. gr. Komi í ljós að sami kjósandi hafi greitt atkvæði oftar en einu sinni skal ógilda atkvæði hans. Enn fremur skal kannað hvort borist hafi atkvæðaumslag frá kjósanda sem ekki var skráður félagi í Viðreisn a.m.k. 2 dögum fyrir upphaf prófkjörs. Atkvæðum sem ógilt eru á grundvelli þessarar greinar skal eytt með tryggum hætti, óopnuðum og í votta viðurvist.
18.3 Að þessari athugun lokinni skulu gild atkvæðaumslög merkt „Til Kjörstjórnar Viðreisnar í _____________kjördæmi“ opnuð og umslögin merkt „Atkvæði“ sett á einn stað. Þá skal loks sjálf talningin hefjast.
18.4 Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er kjörstjórn heimilt að hefja talningu atkvæða úr kjörkössum áður en kjörfundi lýkur, enda verði tryggilega gengið frá því, að fréttir af talningunni berist ekki fyrr en kjörfundum er lokið alls staðar í kjördæminu. Kjörstjórn er heimilt að banna öll raftæki á talningastað ef talning hefst áður en kjörfundi lýkur.
18.5 Talningu atkvæða skal hagað þannig að fram komi hverjir hafa fengið atkvæði í hvert einstakt sæti og hve mörg. Að talningu lokinni hlýtur sá frambjóðandi efsta sæti í prófkjörinu sem flest atkvæði fær í það sæti. Annað sæti hlýtur sá sem ekki hefur hlotið efsta sætið en hefur flest atkvæði þegar saman eru lögð atkvæði hans í 1. og 2. sæti. Þriðja sæti hlýtur sá sem ekki hefur hlotið 1. eða 2. sæti en hefur flest atkvæði þegar saman eru lögð atkvæði hans í 1., 2. og 3. sæti. Síðan hljóta menn önnur sæti í prófkjörinu með sama hætti.
19.1 Niðurstöður prófkjörs eru bindandi varðandi fyrsta sæti og jafnframt í önnur sæti að teknu tilliti til kynjahlutfalla, sbr. gr. 19.5.
19.2 Verði niðurstaða í sameiginlegu prófkjöri Reykjavíkurkjördæma bindandi samkvæmt talningarreglum skal uppstillingarnefnd gera tillögu til Reykjavíkurráðs um að frambjóðendur skipi sæti á framboðslistum Reykjavíkurkjördæma, þó hefur sá sem hlýtur kosningu í fyrsta sæti val um í hvoru kjördæmi viðkomandi vill skipa sæti, sá sem hlýtur kosningu í annað sæti velur síðan og þannig koll af kolli.
19.3 Kjörstjórn birtir opinberlega á heimasíðu Viðreisnar upplýsingar um úrslit prófkjörsins.
19.4 Uppstillingarnefnd gengur frá tillögum sínum um framboðslista í samræmi við niðurstöður prófkjörs.
19.5 Uppstillingarnefnd skal tryggja sem jöfnust kynjahlutföll á framboðslistum Viðreisnar. Jafnt kynjahlutfall sé í efstu sætum, þó með því fráviki frá fléttulista að tveir einstaklingar af sama kyni geta verið hvor á eftir öðrum í fjórum efstu sætum. Uppstillingarnefnd ber að taka tillit til þessa að aflokinni talningu prófkjörs og einnig við tillögu að öðrum sætum listans .
19.6 Víki frambjóðandi sæti eftir prófkjör færist næsti frambjóðandi upp með fyrirvara um kynjahlutföll, sbr. gr. 19.5.
19.7 Tillögur uppstillingarnefndar skulu lagðar fyrir Landshlutaráðsfund/fund svæðisfélags (í Reykjavík fyrir Reykjavíkurráð) sem tekur lokaákvörðun um skipan listans.
20.1 Ágreiningi, sem kann að koma upp um skýringu á reglum þessum og önnur atriði varðandi prófkjörið, má skjóta til úrskurðar stjórnar viðkomandi landshlutaráðs/svæðisfélags.
20.2 Ágreiningi, sem fram kann að koma innan stjórnar landshlutaráðs/svæðisfélags varðandi prófkjörið, má skjóta til stjórnar Viðreisnar sem þá fellir endanlegan úrskurð um ágreiningsefnið.
20.3 Með sama hætti getur frambjóðandi í prófkjöri ávallt skotið ágreiningi um framkvæmd prófkjörs eða skýringar á reglum þessum til stjórnar að fenginni niðurstöðu stjórnar landshlutaráðs/svæðisfélags. Það skal gert eins fljótt og kostur er, en eigi síðar en viku eftir að úrslit prófkjörs liggja fyrir.