Saga Viðreisnar

Þann 24. maí 2016 var Viðreisn stofnuð á fundi í Hörpu þar sem á fimmta hundrað einstaklinga kom saman. Kosin var stjórn og Benedikt Jóhannesson var formaður hennar.

 

Hafinn var undirbúningur kosninga og í september voru komnir fram framboðslistar Viðreisnar í öllum kjördæmum landsins. Á aðalfundi það ár var kosin ný stjórn, Benedikt endurkjörinn formaður og Jóna Sólveig Elínardóttir kosin varaformaður.

 

Í kosningunum í lok október 2016 fékk Viðreisn sjö þingmenn kjörna, þau Hönnu Katrínu Friðriksson, Pawel Bartoszek, Þorstein Víglundsson, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, Jón Steindór Valdimarsson, Jónu Sólveigu Elínardóttur og Benedikt Jóhannesson.

 

Eftir langar stjórnarmyndunarviðræður var mynduð samsteypustjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar í janúar 2017. Viðreisn fékk þrjá ráðherra í stjórninni, Benedikt Jóhannesson, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur og Þorstein Víglundsson og formennsku í mikilvægum þingnefndum.

 

Ríkisstjórnin náði ýmsum góðum málum fram, en í byrjun september ákvað Björt framtíð að slíta samstarfinu. Í kjölfarið var boðað til nýrra kosninga í október 2017.

 

Um miðjan október sagði Benedikt Jóhannesson af sér formennsku og vísaði til slaks gengis í skoðanakönnunum. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir var kosin í stað hans.

 

Í kosningunum 2017 tapaði Viðreisn þremur þingmönnum og fékk aðeins fjóra menn kjörna. Í lok nóvember tók við ný ríkisstjórn, án þátttöku Viðreisnar.

 

Í mars 2018 var Þorgerður Katrín endurkjörin formaður Viðreisnar og Þorsteinn Víglundsson kosinn varaformaður.

 

Viðreisn náði góðum árangri í sveitarstjórnarkosningunum 2018 og varð þriðji stærsti flokkurinn á höfuðborgarsvæðinu, með fulltrúa í öllum sveitarstjórnum það.

 

Vorið 2019 var haldið vel heppnað aukaþing Viðreisnar í Reykjavík sem sótt var af meira en 200 manns.

 

Í apríl 2019 varð Viðreisn formlega aðili að Alde, hópi frjálslyndra flokka í Evrópu.