Íslendingar eiga að vera virkir og ábyrgir þátttakendur í samstarfi þjóða. Við stöndum frammi fyrir breyttri heimsmynd í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu, innrásar í sjálfstætt og fullvalda Evrópuríki sem Viðreisn fordæmir. Breyttar aðstæður kalla nú á nánari og virkari samvinnu við Evrópusambandið og önnur aðildarríki Atlantshafsbandalagsins í utanríkis-, öryggis- og varnarmálum.
Viðreisn vill að unnin verði sérstök varnarstefna fyrir Ísland. Sú stefna verði hluti af þjóðaröryggisstefnu og uppfærð með reglubundnum hætti.
Öryggi Ísland er best tryggt innan vébanda Atlantshafsbandalagsins, með nánu samstarfi við öryggisstofnanir Evrópusambandsins sem annast innra öryggi, landamæra eftirlit og varnir gegn hryðjuverkum, ásamt varnarsamningi Íslands og Bandaríkjanna. Ísland á að standa vörð um sjálfsákvörðunarrétt þjóða, lýðræði og mannréttindi í heiminum, í samstarfi við samstarfsþjóðir okkar innan Atlantshafsbandalagsins og Evrópusambandsins.
Mikilvægt er að taka þátt í samstarfi lýðræðisríkja í baráttunni gegn netárásum, fjölþáttaógnum og tilburðum til afskipta af innanríkismálum.