Í frjálslyndu samfélagi þarf fólk að hafa raunhæfa valkosti um hvar það býr sér heimili. Með því að jafna tækifæri allra landsmanna til atvinnu og þjónustu er stuðlað að sjálfbærri þróun byggðarlaga um land allt. Efling allra landsbyggðarkjarna með öflugum innviðum gerir sveitarfélögum kleift að laða til sín íbúa og atvinnuskapandi fyrirtæki.
Viðreisn styður sameiningu og stækkun sveitarfélaga með það fyrir augum að draga úr yfirbyggingu og efla nærþjónustu á hagkvæman hátt. Það er forsenda þess að unnt sé að fela þeim fleiri verkefni sem nú er sinnt af ríkisvaldinu, enda séu það hagsmunir íbúa. Auka á aðkomu þeirra að lykilákvörðunum um uppbyggingu í heimabyggð ásamt því að veita stærri styrki til nýsköpunar, menningarstarfs og þróunar á landsbyggðinni.