Samfélagið

Fíkni- og vímuefnavandi

Viðreisn vill hjálpa fólki með fíknivandamál en ekki refsa því. 

 

Fíknisjúkdómurinn er einn alvarlegasti heilbrigðisvandinn sem Íslendingar glíma við. Á annað hundrað einstaklingar láta lífið á ári úr þessum skæða sjúkdómi og í fyrra létust 56 úr lyfjaeitrunum. Ungt fólk er stærsti hópurinn. Því miður bendir flest til að vandinn aukist ár frá ári. Bak við hvert andlát eru fjölskyldur, vinir og samstarfsfólk. 


Við viljum efna til þjóðarátaks og almennrar vitundavakningar um þennan mikla vanda. Við viljum fjárfesta í fólki og reisa varnargarða utan um veika einstaklinga.

 

Viðbrögð stjórnvalda við þessum vanda hafa ekki verið í neinu samhengi við skaðann sem sjúkdómurinn veldur. Fangelsin okkar eru full af fólki með fíknivanda. Álagið á kerfin okkar vegna sjúkdómsins er gríðarlegt.

 

Biðlistar eru of langir og úrræðin vanfjármögnuð og fá. 

 

Stórefla þarf samtal og samvinnu á milli þeirra sem vinna í meðferðarkerfinu, hvort sem um er að ræða félagasamtök, sveitarfélög eða ríkið. Yfirsýn yfir kerfið er lítið og því þarf að breyta. Úrræðaleysi í þessum málum gengur ekki lengur. Breytum þessu.

 

Viðreisn ætlar að

  • Stórefla samstarf og opna fyrir nýliðun í meðferðarkerfinu og efla úrræði sem reynst hafa vel, t.d. SÁÁ, Krýsuvík og Hlaðgerðarkot.
  • Nýta tæknina betur í meðferð og efla göngudeildarúrræði því ekki þurfa allir að leggjast inn.
  • Stuðla að virkri skaðaminnkun með fleiri neyslurýmum og víðtækari heilbrigðisþjónustu á borð við Frú Ragnheiði.
  • Gera Naloxone nefúða aðgengilegri en hann getur bjargað fólki sem tekur of stóran skammt.
  • Efla forvarnir á öllum sviðum, til að mynda í skólum, íþróttafélögum og efla fræðslu til foreldra og barna um skaðsemi sjúkdómsins.