Til að orkuskipti geti orðið að veruleika þarf að tryggja nægt framboð endurnýjanlegrar orku og öfluga innviði. Viðreisn styður aukna framleiðslu endurnýjanlegrar orku, græna atvinnuuppbyggingu og framleiðslu rafeldsneytis.
Tryggja þarf orkuöryggi um allt land með uppbyggingu og styrkingu flutningskerfis raforku og koma í veg fyrir að orkuskortur hamli byggðaþróun. Auka þarf gagnsæi og skilvirkni á raforkumarkaði til að skapa jafnvægi á milli eftirspurnar og framboðs og koma í veg fyrir offjárfestingu í raforkuvinnslu.
Fjárhagslegur ávinningur af nýtingu orkuauðlinda á að renna til samfélagsins í ríkara mæli en tíðkast hefur. Nýting vindorku er kjörið tækifæri til þess að skilgreina og tryggja að gjaldtaka sé á þann hátt að samfélagið sjái hag í nýtingu auðlindarinnar. Vindorkuver geta nýst til að auka orkuöryggi einstakra svæða og unnið gegn hættu á að orkuskortur hamli byggðaþróun
Mikilvægt er að taka ferli rammaáætlunar til gagngerrar endurskoðunar svo hún virki sem skyldi og eyða þarf óvissu um reglur og lög sem gilda um uppbyggingu vindorku. Áfram ættu orkukostir að vera flokkaðir með tilliti til áhrifa á náttúru: menningu og minjar; og samfélag og efnahag.