22 jún Hvað þarf að gera fyrir unga fólkið?
Ungt fólk vill að sér geti liðið eins og það sé hluti af samfélaginu. Það vill fá vinnu, mannsæmandi laun, húsnæði sem það á sjálft og stjórnvöld sem skilja það.
Sigurjón Arnórsson skrifaði í Morgunblaðið
Heimurinn er alltaf að minnka. Ungt fólk hefur þann valkost að vinna hvar sem er, sérstaklega innan evrópska efnahagssvæðisins. Það liggur við að það sé álíka einfalt að flytja til Þýskalands og hefja vinnu þar eins og flytja á milli sveitarfélaga á Íslandi. Ef Ísland vill halda sínu unga, efnilega fólki þarf að bjóða upp á svipuð eða betri lífskjör og önnur lönd gera.
Síðustu árin hefur ungt fólk á Íslandi verið ólíklegra en aðrir aldurshópar til að kjósa og taka þátt í stjórnmálum. Það treystir ekki kerfinu og telur það ekki vera vettvang þar sem það fær rými til þess að koma sínum málum áfram. Þetta hefur leitt til þess að eldri meðlimir samfélagsins komast frekar til valda og þurfa svo reyna að giska á hvaða málefni skipta máli fyrir unga fólkið. Sú kynslóð er alin upp á allt öðrum tímum þar sem samfélagið var í öðru umhverfi og með öðruvísi áherslur.
Mikilvægt er að skilja unga fólkið í landinu. Sem ungur maður hef ég rætt þessi mál mikið við annað ungt fólk og vil ég benda á nokkur atriði sem ég tel viðeigandi í þessu samhengi.
Gjaldeyrismál og vextir
Til þess að nýsköpun og einkarekstur á Íslandi verði samkeppnishæf við önnur vestræn lönd þarf að vera góður aðgangur að lánum með svipuðum vöxtum og annars staðar. Til þess að fyrirtæki fái að vaxa þurfa þessir hlutir að vera í lagi. Gjaldeyrishöft og aðrar gjaldeyristengdar hindranir koma í veg fyrir heilbrigt atvinnulíf. Undirstaða búsetu á Íslandi eru atvinnumöguleikar, tækifæri til þess að fjárfesta í eigin húsnæði og að geta greitt niður skuldir sínar. Okurvextir, verðtrygging og gjaldeyrishöft er hindrun fyrir ungt fólk á Íslandi. Þessar hindranir er ekki að finna í neinum nágrannalöndum okkar.
Húsnæðismál
Húsnæðismál hafa mikið verið í umræðunni á Íslandi. Það er ekkert grín að festast á erfiðum leigumarkaði eins og algengt er á Íslandi. Það er ennþá verra að vera þrítugur og búa enn hjá foreldrunum sínum. Það þarf að gera eitthvað í þessum málum og þá meina ég ekki að byggja þurfi massífar félagsíbúðir. Duglegt vinnandi ungt fólk vill fá tækifæri til að eignast sitt eigið húsnæði og ná að borga húsnæðisskuldirnar sínar niður innan sanngjarns tímabils, á svipuðum vöxtum, án verðtryggingar, eins og finna má í öðrum vestrænum samfélögum.
Sálfræðiþjónusta
Framhaldskólanemendur sem ég hef rætt við telja það brýnt mál að auka aðgengi að sálfræðiþjónustu í menntaskólum. Það er hátt brottfall nemenda úr framhaldsskólum á Íslandi og rannsóknir sýna að stór hluti þessa brottfalls er vegna andlegra veikinda og erfiðleika. Tilraunaverkefni á Íslandi gefa til kynna að betri aðgangur að sálfræðiþjónustu í framhaldskólum bætir geðheilsu og minnkar brottfall hjá nemendum.
Netið
Fyrir ungt fólk er netfrelsi næstum því heilagt. Internetið er orðinn stór hluti í lífi yngri kynslóðarinnar og margir telja það grunnréttindi nútímaborgara að geta nýtt sér það í friði. Netið er notað sem skóli, afþreying, helsti samskiptavettvangur, fréttamiðill, o.s.frv. Ef einhver vill öðlast betri skilning á hugsun yngri kynslóðarinnar, þá er mikilvægt að átta sig á þessum nýja heimi hennar.
Heiðarleiki
Fjöldi kannana sýnir að traust til Alþingis er takmarkað. Ungt fólk hefur litla trú á hefðbundnum stjórnmálaflokkum og finnst þingfulltrúar ekki gæta hagsmuna þeirra. Við höfum alist upp með hrunið, „wikileaks“ og sífelld hneykslismál eins og t.d. „Panama-skjölin“. Af þessum sökum eru margir ungir kjósendur að mótmæla stjórnmálakerfinu með því að kjósa flokka sem tala gegn kerfinu. Það er lykilatriði að fá unga fólkið til þess að taka þátt í að móta nýtt Ísland.
Að lokum
Ungt fólk vill að sér geti liðið eins og það sé hluti af samfélaginu. Það vill fá vinnu, mannsæmandi laun, eigið húsnæði og stjórnvöld sem skilja það. Ef við búum ekki betur að unga fólkinu munum við missa það frá Íslandi til annarra landa þar sem möguleikar þess og framtíðarhorfur eru betri. Mikilvægt er að allir taki höndum saman og stuðli að uppbyggingu samfélags þar sem allir aldurshópar geta þrifist.
Höfundur er viðskiptafræðingur og situr í stjórn Viðreisnar