Hvernig get ég flutt að heiman?

Hátt hlut­fall ungs fólks býr enn hjá for­eldrum sín­um, eða nánar tiltekið 40% fólks á þrítugsaldri. Það er einna helst þrennt sem torveldar ungu fólki að flytja að heiman og veldur háu húsnæðisverði; ómarkviss stuðningur, hár byggingakostnaður og háir vextir.

Þær lausnir sem aðrir flokkar hafa boðað að undanförnu taka ekki almennilega á þessum þremur atriðum. Þvert á móti ýta þær undir eftirspurn án þess að lagðar séu fram raunhæfar lausnir til að auka framboð af húsnæði. Þess vegna er þörf á markvissari lausnum.

Framboðsaukning nauðsynleg

Sé ekki nægt framboð húsnæðis miðað við eftirspurn má gera ráð fyrir hækkun á húsnæðisverði. Í dag eru ekki nema rétt undir 2 þúsund íbúðir í byggingu á hverjum tíma. Gera má ráð fyrir því að þörf sé á 7-10 þúsund næstu þrjú árin. Ofan á þá þörf bætist við uppsöfnuð þörf frá hruni, en þegar það er tekið inn í myndina er þörf á rúmlega 3.500 íbúðum í byggingu á hverjum tíma. Með öðrum orðum er framboð af eignum langt frá því að mæta vaxandi eftirspurn eftir eignum. Fasteignaverð mun því að öllum líkindum hækka næstu árin. Í dag er það nógu hátt fyrir, en fasteignaverð hefur hækkað um ríflega 12% á þessu ári.

Til að mæta eftirspurn og byggja húsnæði í meira mæli þarf að tryggja nægt framboð lóða hverju sinni, hvort heldur sem er til leigu eða kaups. Draga þarf úr byggingarkostnaði og skapa hvata til að byggja húsnæði með hagkvæmum hætti. Endurskoða þarf íþyngjandi gjaldtöku og draga úr vægi úreltra reglugerða. Horfa þarf til aukinnar nýsköpunar á íbúðamarkaði, þar sem horft verði til íbúðarforma sem endurspegla kröfur. Má þar fyrst og fremst nefna smærri íbúðir og aukið vægi sameigna.

Óstöðugleiki er ólíðandi

Á húsnæðismarkaði er óstöðugleiki hagkerfisins og gengissveiflur krónunnar mikill óvinur. Það er ekki hægt að sjá fram á betri ástand á húsnæðismarkaði nema með því að gera breytingar í gengisfyrirkomulagi. Æskilegt væri að festa íslenska krónu við erlenda mynt með myntráði til að tryggja þann stöðugleika sem nauðsynlegur er húsnæðismarkaði. Slíkt mun einnig hafa jákvæð áhrif á vaxtastig og bein áhrif á möguleika ungs fólks til fasteignakaupa með lækkun vaxta. Við eigum ekki að sætta okkur við miklu hærri vaxtabyrði en nágrannar okkar á Norðurlöndum. Svo dæmi sé tekið hafa vextir óverðtryggðra húsnæðislána á þessari öld verið um 7 prósentustigum hærri hér en á Norðurlöndum.

Af eigin raun veit ég hve erfitt það er ungu fólki að flytja heiman – og ekki síst hve erfitt það er reka sitt eigið heimili þegar maður flytur loks að heiman. Þar leikur gífurleg vaxtabyrði eitt stærsta hlutverkið, en íslensk heimili verja um 10% ráðstöfunartekna sinna í vaxtagreiðslur. Lækkun vaxta gæti þannig verið ein mesta kjarabót íslenskra heimila og þá sérstaklega kjarabót í lífi okkar unga fólksins sem er að stíga sín fyrstu skref í lífi fullorðinna.