06 okt Kerfin þjóni almenningi
Við búum við alls kyns kerfi og skipulag í samfélaginu, sumt er bundið af lögum, annað af venjum og hefðum og enn annað af blöndu af hvoru tveggja.
Löngu er tímabært að ráðast í breytingar á nokkrum kerfum sem við Íslendingar höfum búið við þannig að þau þjóni betur almannahagsmunum. Eitt dæmi um slíkt kerfi er hvernig við verðleggjum aðgang að fiskimiðunum við landið sem er auðlind í sameign okkar allra.
Kvótakerfið var sett upp til þess að stýra aðgangi að fiskimiðunum í þeim tilgangi að nýta þau af skynsemi. Það hefur tekist ágætlega og endurspeglast m.a. í því að fyrirtæki í sjávarútvegi eru mörg hver mjög arðsöm og mikil hagræðing hefur orðið í greininni. Ekki er ástæða til þess að breyta því fyrirkomulagi í neinum grundvallaratriðum.
Sjávarútvegurinn hefur notið þess að ríkisvaldið setti á sínum tíma ramma um greinina sem hefur gert henni mögulegt að verða að alvöru atvinnugrein sem stendur á eigin fótum. Það hefur hins vegar ekki gerst sársaukalaust fyrir marga sem hagræðingin hefur haft áhrif á og kostað margvíslegar fórnir og breytingar víða um land. Veiðiheimildir, aðgangurinn að auðlindinni, hafa færst til, fyrirtækin stækkað og vinnslu- og veiðihættir breyst. Allt hefur þetta gerst vegna kvótakerfisins.
Nú er komið að því að sjávarútvegurinn greiði sanngjarnt verð fyrir aðgang sinn til eigenda auðlindarinnar. Best er að markaðurinn ákveði eðlilegt verð með því að hluti veiðiheimilda sé settur á markað árlega. Gæta verður þess að framkvæmdin verði þannig að það ógni ekki nauðsynlegum stöðugleika í greininni og skapi ekki of mikla óvissu. Ekki er óvarlegt að ætla að þessi aðferð geti skilað 15 – 20 milljörðum króna á ári í stað núverandi veiðigjalds sem er áætlað tæpir átta milljarðar á þessu ári.
Viðreisn hefur sett fram mótaðar tillögur um þessar breytingar.
Greinin birtist í blaðinu Fjarðarpósturinn fimmtudaginn 6. október 2016