20 okt Raunir bankakerfisins – Raunir krónunnar
Í kjölfar losunar hafta er framtíð bankakerfsins ein af stóru áskorununum sem stjórnmálin standa frammi fyrir nú um stundir, enda stór liður í endurreisn efnahagslífsisns. Það þarf ekki að fjölyrða um vantraust almennings í garð fjármálastofnanna, það er ekki eingöngu vandamál hér á landi heldur um heim allan. Til að endurheimta þetta traust er nauðsynlegt að um bankastarfsemi gildi skýrar reglur sem fylgt er eftir með traustu eftirliti. Nýverið samþykkti Alþingi að taka upp reglur um evrópskt fjármálaeftirlit í EES samninginn. Með því er komin grunnur að reglum sem uppfylla þessi skilyrði. En er það nóg?
Nú eru uppi hugmyndir um samfélagsbanka sem mörgum hugnast vel. Samfélagsbanki á að vera fjármálastofnun sem rekin væri án arðsemissjónarmiða og sinnti eingöngu hefðbundinni bankastarfsemi. Tæki á móti innlánum og lánaði svo á hóflegum kjörum til einstaklinga og fyrirtækja. Gallinn við þessa hugmynd er hins vegar að slík starfsemi væri harla möguleg nema með bakábyrgð ríkisins sem kynni fyrir sitt leyti stangast á við ríkisaðstoðarreglur. Síðan fylgir inngripi hins opinbera í markaði ávallt nokkur áhætta á pólitískum afskiptum sem þeir sem eldri eru þekkja vel. Ég held að engan langi að ganga þann veg aftur.
Aðrir hafa lagt til að almenningi verði afhent hlutabréf í bönkum í ríkiseigu, að minnsta kosti öðrum þeirra. Mér finnst eins og það hafi verið reynt áður, með skelfilegum afleiðingum.
Viðreisn telur að lykilatriði við framtíðarskipan bankakerfins hljóti að vera að tryggja samkeppni á markaði þannig að neytendur njóti ávallt bestu mögulegu þjónustu og lánakjara. Í annan stað þarf að tryggja að áhætta hins opinbera af fjármálastarfsemi sé lágmörkuð. Í því skyni kemur vel til greina að aðskilja viðskiptabankastarfsemi frá fjárfestingabankastarfsemi til viðbótar við virkt eftirlit. En samkeppni verður ekki tryggð með því einu. Líkt og á svo mörgum öðrum sviðum hér á landi ríkir fákeppni á bankamarkaði. Lausnin við fákeppni er að búa til umhverfi þar sem erlendum bönkum myndi þykja eftirsóknarvert að hefja hér starfsemi. Að kjör hér á landi verði sambærileg þeim sem þekkjast í nágrannalöndunum.
Til þess að svo megi vera þarf hins vegar að ráðast að vanda hins óstöðuga gjaldmiðils. Viðreisn hefur lagt til svonefnda myntráðsleið. Með myntráði yrði gengissveiflum eytt og því lagður grunnur að nauðsynlegum stöðugleika. Þetta er ekki töfralausn, heldur krefst hún aga í ríkisfjármálum og víðtækrar sáttar stjórnmálanna og atvinnulífsins. Með slíkum stöðugleika væru hins vegar komin skilyrði til aukinnar samkeppni á bankamarkaði sem leiða myndi til lægri vaxta og betri lánskjara.
Í gjaldmiðilsmálum stöndum við nú frammi fyrir eftir farandi spurningum: Viljum við áfram óstöðugleika íslenskrar krónu með tilheyrandi afleiðingum fyrir fólk og fyrirtæki? Viljum við eyða næstu 10 árum í að þrátta um Evrópusambandið og evruna, kosti og galla? Eða viljum við reyna leið sem hægt er að ráðast í strax og skjóta þannig stoðum undir virka samkeppni á markaði? Við hjá Viðreisn þorum að svara síðustu spurningunni játandi. Hvað með þig?
Höfundur skipar 3. sæti á lista Viðreisnar í Reykjavík suður.