09 mar Þingræða 8. mars
Virðulegur forseti.
Í dag er alþjóðabaráttudagur kvenna og gott tilefni til að staldra við og velta fyrir sér jafnréttismálum. Það er í raun ótrúlegt til þess að hugsa hve skammt er síðan að flestum þótti eðlilegt að konur væru annars flokks borgarar, nytu ekki mannréttinda á borð við kosningarréttar, lytu húsbóndavaldi eiginmanna sinna og væru þeim fjárhagslega háðar. Þeirra hlutverk væri að gæta bús og barna.
Sem betur fer hefur þessi staða gjörbreyst en margt er enn óunnið. Við lifum enn við kynbundinn launamun, ólöglegan launamun sem skýrist ekki af neinu nema kyni. Vinnumarkaðurinn er kynskiptur og af einhverjum ástæðum virðist það sem karlar fást við merkilegra og til fleiri fiska metið en það sem konur fást við. Hægt gengur að breyta þessu. Konur sækja í auknum mæli í störf sem áður voru merkt körlum en hægar gengur að fjölga körlum í svokölluðum kvennastéttum.
Hvað veldur þessu? Erum við enn föst í gömlum afdönkuðum hugmyndum um kyn, karlmennsku og kvenleika? Við þurfum að horfa á launamuninn allan og átta okkur á hvað liggur þar að baki. Við þurfum að eyða staðalímyndum um hefðbundin kvenna- og karlastörf. Skref í þá átt er að breyta fyrirmyndunum, draga fram og gera sýnilegt að konur geta verið píparar og smiðir og karlar geta verið hjúkrunarfræðingar og leikskólakennarar. Það er því sérstök ástæða til þess að hrósa verkefninu “Kvennastörf” fyrir að leggja sitt lóð á vogarskálarnar.
Ekki er hægt að breyta aldagömlum hugmyndum í einni svipan eins og sagan sýnir okkur því að breytingar í þessum málum gerast alltaf hægt. Það er ljóst að vagn þessara breytinga hreyfist ekki í sínum hjólförum nema hann sé dreginn áfram.
Virðulegi forseti.
Ábyrgð okkar hv. þingmanna er mikil. Við eigum að leggja okkar af mörkum til að brjóta niður veggi og þök sem skilja að kynin á vinnumarkaði. Eyðum kynbundnum launamun. Verum fyrirmynd og afmáum kynjamisréttið.