Hundrað og ellefu dagar (BJ)

Ég segi Seðlabankanum auðvitað ekki fyrir verkum, en ég get sagt mína skoðun. Nefndin ætti að taka á sig rögg núna í maí og lækka vextina myndarlega. Hún getur alltaf hækkað þá aftur næst, ef henni finnst viðbrögð hagkerfisins of ofsafengin.

Hundrað daga afmæli er ekki neitt sérstaklega merkilegt. Eiginlega er bara minnst á það þegar ríkisstjórnir hafa lifað hundrað daga, kannski vegna þess að þá er fyrst komin marktæk reynsla á þær. Eða 100 er flott tala. Hver veit?

Ég missti að minnsta kosti af hundrað daga afmæli ríkisstjórnarinnar því ég var í útlöndum þann eina dag. Mér skilst að stjórnarsinnum hafi þótt fyrstu dagarnir nokkuð góðir meðan minnihlutinn hafi talið allt ómögulegt. Þetta er einmitt svo skemmtilegt við pólitíkina. Hún er svo ófyrirsjáanleg.

Í dag eru aftur á móti liðnir 111 dagar frá því að stjórnin tók til starfa. Það finnst mér flott tala. Ekki það að óskaplega margt hafi gerst undanfarna 11 daga, en ég ætla að nota tækifærið núna og hugsa um stöðuna. Samt ætla ég ekki að fara yfir afrekalista stjórnarinnar. Á hverjum degi gerist eitthvað smávegis og stundum margt, en við erum enn með krónuna, höftin og gamla landbúnaðarkerfið og ekkert bólar á breytingum.

Tja, höftin eru reyndar farin og búið að skipa nefnd hagfræðinga um nýja peningastefnu sem á að auka gengisstöðugleika. Það er meira að segja búið að semja frumvarp um nýtt kerfi í mjólkuriðnaði, en …

Nú eru liðnir 111 dagar, en það var ekki liðinn einn dagur í stjórnarráðinu þegar við vorum fyrst sökuð um að svíkja öll okkar loforð. Ég er svolítið ánægður með það, því það sýnir að væntingar eru miklar til Viðreisnar. Sumir bjuggust í alvöru við því að við kæmum á myntráði, endurnýjuðum aðildarumsókn að Evrópusambandinu og kæmum á markaðskerfi í sjávarútvegi sama dag og ríkisstjórnin tók við. Það hefði sannarlega verið í okkar anda, en gallinn var sá að við fengum ekki meirihluta ein og sér og þurfum að semja um alla þessa hluti. Kerfisbreytingar en engar kollsteypur, sögðum við fyrir kosningar og að því vinnum við. Allt tekur þetta tíma en við mjökumst í rétta átt.

Ég hef sagt að efnahagsstefna okkar sé sú leiðinlegasta sem hægt er að hugsa sér: Jafnvægi og stöðugar og raunsæjar kjarabætur. Slíkt vekur ekki beint eftirvæntingu. Og þó. Alþýðusambandið segir í 1. maí ávarpi sínu: „Það er engin eftirspurn lengur eftir sveiflukenndum lífskjörum“. Ég veit ekki hvort var einhvern tíma eftirspurn eftir þeim, en þau hafa verið afleiðingin af hagstjórninni undanfarna öld. Vonandi tekst okkur að enda þær sveiflur. Fast gengi væri mikilvægt skref í rétta átt.

Lægri vextir hér á landi eru keppikefli okkar margra, kannski nærri allra. Háir vextir stuðla að háu gengi krónunnar, gengi sem er svo hátt að ferðaþjónustan, sjávarútvegurinn og reyndar allar greinar sem keppa við útlönd eða selja þangað vöru eða þjónustu eru að kikna. Við viljum byggja upp tæknistörf, en íslensk tæknifyrirtæki vilja frekar kaupa þjónustu tæknimenntaðs fólks frá útlöndum vegna þess að það er miklu ódýrara. Nú eru það ekki bara vörur frá útlöndum sem eru ódýrari, nú er það líka vinnuaflið.

Hagfræðingar eiga auðvelt með að sýna fram á það að á endanum nær gengið nýju jafnvægi. Þá verður jafnmikið af peningum sem flæðir inn og út úr hagkerfinu, því útlendar vörur verða orðnar svo ódýrar að við munum kaupa miklu miklu meira en núna. Peningastefnunefndinni, þeirri sem nú ákveður vextina, liggur ekkert á, því hún þykist vita að hagfræðilegt jafnvægi muni nást í gegnum gengið. Spurningin er bara: Hvað kostar það nýja jafnvægi og hver borgar brúsann?

Seðlabankastjóri gerir sér grein fyrir því að „til að lækka vexti í þeim mæli að innlendum aðilum finnist af þeim sökum fýsilegt að fjárfesta í erlendum verðbréfum duga í ljósi mikils vaxtamunar engar 0,25 eða 0,5 prósentur“ eins og hann sagði á ársfundi Seðlabankans í mars síðastliðnum. Ekki ætla ég að spá fyrir um næstu vaxtalækkun, en það væri gott merki um að bankanum væri alvara í því að stemma stigu við óbærilegri styrkingu krónunnar að lækka vexti um hálft prósent á næsta fundi peningastefnunefndarinnar. Bankinn hefur spornað við styrkingunni með því að kaupa næstum milljarð af gjaldeyri á dag, en vaxtalækkunin væri miklu kröftugra tæki. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sagði eftir heimsókn til Íslands að íhuga mætti vaxtalækkun og að hún væri ekki endilega í andstöðu við verðbólgumarkmiðið. AGS sagði í lokayfirlýsingu sinni dags. 28. mars: „Eftir því sem styrking krónunnar bætir verðbólguhorfur gæti myndast svigrúm til vaxtalækkunar.“

Öllum aðgerðum fylgir áhætta, spennan er mikil á markaði og vaxtalækkun þyrfti að fylgja dempun á útlánum með öðrum ráðum, til dæmis lækkun á veðhlutföllum, þannig að vaxtalækkunin færi ekki beint í hærra húsnæðisverð. Lífeyrissjóðirnir sæju sér eflaust meiri hag í því að færa hluta af sínum fjárfestingum til útlanda. Burtséð frá öllu öðru er það líka nauðsynlegt því að hagkerfið rúmar þá varla lengur með allt sitt fjármagn.

Ég segi Seðlabankanum auðvitað ekki fyrir verkum, en ég get sagt mína skoðun. Nefndin ætti að taka á sig rögg núna í maí og lækka vextina myndarlega. Hún getur alltaf hækkað þá aftur næst, ef henni finnst viðbrögð hagkerfisins of ofsafengin.

Hvað koma háir vextir og hátt gengi krónunnar 111 dögunum við? Jú, þetta tvennt er það eina sem ég hef haft áhyggjur af þessa daga frá því í janúar. Auðvitað hefur margt annað komið upp, en það eru viðfangsefni sem hægt er að glíma við með einhverju móti, en gengið er eins og hamfarir sem fjármálaráðherra fær ekkert við ráðið. Víst hefur ríkisstjórnin gert margt sem  í hennar valdi stendur til þess að sporna við gengisstyrkingu á þessum 111 dögum: Við höfum aflétt höftum, borgað niður erlendar skuldir, boðað skattahækkun á erlenda ferðamenn, hvatt lífeyrissjóði til þess að flytja fé úr landi og boðað aukinn afgang á ríkisfjármálum, en þetta virkar nánast eins og skvetta vatni á gæs. Vaxtatækið er enn ónotað og því ræður Seðlabankinn, eða öllu heldur peningastefnunefndin. Nefndin á næsta leik.

Í Heimsljósi las sjálfur Ljósvíkingurinn í biblíunni um „hundruðustu og elleftu meðferð á dýrum“ og gerði sér grein fyrir því að hún væri ekki góð. Í þeirri góðu bók var stóð reyndar „Ill meðferð á dýrum“, en skáldið verðandi las þetta svona. Vaxtastefnan og hágengið sem henni fylgir eru að verða að hundruðustu og elleftu meðferð á fyrirtækjum landsins og þjóðinni allri. Hún er bara ekki jafnfyndin og hjá Ljósvíkingnum forðum daga.