OECD bendir á kosti fullrar aðildar að Evrópusamstarfinu (BJ)

OECD segir í skýrslu sinni: Ef landið gengi í stærra myntsamstarf sem hluta af tvíhliða samningi fæli það í sér stofnanaramma og stuðning. Endurnýjaður pólitískur vilji til þess að ganga í Evrópusambandið myndi þess vegna breyta myndinni, þar sem það myndi á endanum leiða til þátttöku í evrusvæðinu. Þá myndi Ísland njóta trúverðugleika peningastefnu evrusvæðisins sem hefði áhrif til stöðugleika og gæti lækkað vexti.

skýrsla OECD sýnir margar jákvæðar niðurstöður fyrir Ísland, en bendir jafnframt á hættur sem okkur ber að varast. Það hefur ekki vakið mikla athygli að stofnunin bendir á kosti þess að gerast fullgildir aðilar að evrusvæðinu.

Óstöðugt gengi krónunnar og sveiflur hennar upp og niður á undanförnum árum hafa haft alvarleg áhrif á atvinnurekstur og hag heimila hér á landi undanfarna áratugi. Það er ekki tilviljun að ríkisstjórnin hefur lýst því yfir að hún vilji stuðla að stöðugu gengi til frambúðar og hefur skipað nefnd undir forystu dr. Ásgeirs Jónssonar til þess að kanna kosti í því skyni. Stöðugt gengi leiðir til lægri vaxta, sem styrkir samkeppnishæfni Íslands. Mikil styrking krónunnar að undanförnu er ógn við útflutningsgreinar eins og sjávarútveg og ferðaþjónustu, sem og greinar sem keppa við innflutning.

Myntráð er aðferð til þess að halda gengi krónunnar stöðugu. Viðreisn benti á þessa leið sem hefur reynst mörgum Evrópuþjóðum (og Hong Kong) vel, en hún er ekki trúaratriði ef aðrar leiðir finnast. Auðveldara er að koma henni í gegn meðan margir vilja nota krónu, eins og Danir gera, þó að danska krónan sé beintengd evrunni.

Margar Evrópuþjóðir hafa farið í gegnum myntráð eða svipað fyrirkomulag á undanförnum áratugum. Ég hef að undanförnu kynnt mér reynslu þeirra. Nefndin sem ríkisstjórnin skipaði til þess að vinna að markmiði um stöðugt gengi mun án efa kortleggja hvernig Evrópuþjóðum hefur vegnað þegar þær hafa reynt það.

Sjálfur tel ég það vænlegast til lengri tíma litið að nota evruna í viðskiptum hér á landi með þátttöku í Evrópska myntráðinu. Það vakti því athygli mína að OECD er sama sinnis í nýrri skýrslu um efnahagsmál á Íslandi.

Til þess að stöðugt gengi geti staðist þarf aga í ríkisfjármálum og launahækkanir sem einbeita sér að því að bæta kaupmátt en ekki laun í krónum talið. Allir eru sammála um að þetta geti verið erfitt til langs tíma litið, en allar þær þjóðir sem ég hef kynnt mér komust þó í gegnum þá erfiðleika. Eistland, Lettland, Litháen og Slóvakía hafa öll farið þessa leið, að ógleymdum Dönum sem hafa verið í Evrópska myntráðinu árum saman, en nágrannar okkar Færeyinga og Grænlendingar fylgja þeim.

Það vakti athygli mína að það eru ekki bara Evrópulönd sem hafa tengst evrunni á liðnum árum í gegnum myntráð heldur líka fjölmörg Afríkuríki.

Um daginn hitti ég fjármálaráðherra Grænhöfðaeyja sem var í heimsókn hér á landi. Mynt þeirra fylgir evrunni. Það gildir líka um Benín, Búrkína Fasó, Fílabeinsströndina, Gíneu-Bissá, Malí, Níger, Senegal og Tógó, sem og Kamerún, Mið-Afríku lýðveldið, Tsjad, Kongó, Miðbaugs-Gíneu og Gabon. Alls eru það því 15 Afríkulönd sem tengjast evrunni án þess að vera í Evrópska myntráðinu. Ekki er vitað til þess að þessi lönd hafi lent í sérstökum hremmingum vegna tengingarinnar.

Í skýrslu sinni telur OECD upp ýmsa erfiðleika við bindingu krónunnar við erlenda mynt, erfiðleika sem ég tel reyndar að við Íslendingar getum vel yfirstigið. Það hefur ekki vakið verðuga athygli að í framhaldinu talar stofnunin fyrir kostum þess að taka upp evruna sem hluta af myntsamstarfi.

„Ef landið gengi í stærra myntsamstarf sem hluta af tvíhliða samningi fæli það í sér stofnanaramma og stuðning. Endurnýjaður pólitískur vilji til þess að ganga í Evrópusambandið myndi þess vegna breyta myndinni, þar sem það myndi á endanum leiða til þátttöku í evrusvæðinu. Þá myndi Ísland njóta trúverðugleika peningastefnu evrusvæðisins sem hefði áhrif til stöðugleika og gæti lækkað vexti.“

Það er mikilvægt að þessi óháða stofnun bendir á kosti þess fyrir Ísland að ná fullri aðild að Evrópusamstarfinu. Oft tökum við Íslendingar nefnilega meira mark á útlendingum en löndum okkar.