04 okt Þar sem bleikur fíll hittir strút fyrir
Það verður seint sagt að umræða um Evrópumál hafi verið áberandi hér á landi undanfarin misseri. Frá síðustu alþingiskosningum hefur samt ýmislegt gerst í henni Evrópu. Tíðar fréttir berast af vandkvæðum Breta vegna fyrirhugaðrar útgöngu úr Evrópusambandinu en að sama skapi jákvæðar fréttir um stöðugan hagvöxt innan sambandsins og aukinn stuðning við Evrópusamstarfið á meginlandinu. Kynntar hafa verið hugmyndir um framtíðarþróun sambandsins og innri markaðarins. Lítið fer hins vegar fyrir umræðu um hvernig þessi atvik hafa áhrif á íslenskan veruleika. Vissulega hafa sumir ráðamenn reynt að gera því skóna að Brexit viðræðurnar feli einhvers konar bullandi tækifæri í sér fyrir íslenska þjóð. Það hefur þó farið lítið fyrir því að menn séu beðnir um að útlista nánar í hverju þessi tækifæri felast.
Það er nánast orðin viðtekin venja hér á landi er líður að kosningum að menn dæsi og segi að Evrópa sé bara ekki á dagskrá, ekki núna. Ef það svar dugar ekki, kemur iðulega í kjölfarið að við séum svo vel sett með EES samninginn að ekki þurfi að ræða þessi mál frekar. Er það svo? Eru kannski Evrópumálin bleiki fíllinn í herberginu?
Á undanförnum árum höfum við séð hvernig EES samningurinn er að þróast í átt til aukinnar samræmingar á reglum innri markaðarins og framsals framkvæmdavalds til sjálfstæðra eftirlitsstofnana. Reglur um evrópsk fjármálaeftirlit sem færa evrópskum stofnunum beint og óbeint eftirlitsvald með íslenskum fjármálamarkaði eru nærtækt dæmi. Nú er það svo að mati undirritaðrar að hér er um afar mikilvægar reglur að ræða sem eru til bóta bæði fyrir íslenska neytendur og íslensk fjármálafyrirtæki. Hins vegar verður ekki litið fram hjá því að þessi þróun reynir á þanmörk íslenskrar stjórnskipunar. Í lýðræðissamfélagi þarf að ræða slíka þróun, ekki bara í upphrópunarstíl part úr degi á Alþingi.
Nýverið flutti forsætisráðherra Bretlands ræðu í Flórensborg sem beðið hafði verið með nokkurri eftirvæntingu enda var gerði hún þar grein fyrir framtíðaráformum Breta í kjölfar útgöngu úr Evrópusambandinu. Í ræðunni kom skýrt fram að það væri útilokað að EES samningurinn kæmi til greina sem lausn á framtíðarsambandi Breta og ESB. Ástæðan væri sú að í því fyrirkomulagi fælist lýðræðishalli sem ekki væri ásættanlegur fyrir Breta. Bretar yrðu að taka upp allar reglur innri markaðarins án þess að koma að gerð þeirra.
Þessi orð forsætisráðherrans breska hljóta að vekja okkur til umhugsunar. Flest erum við sammála því að EES samningurinn hafi fært okkur bæði efnahagslega velsæld og aukin réttindi. Samkeppnisreglur, neytendavernd, umhverfisvernd, réttindi á vinnumarkaði og svo margt fleira í okkar lagaumhverfi í dag á rætur að rekja til EES samningsins. Þá myndu fæstir vilja gefa eftir réttinn til að ferðast óhindrað í Evrópu, taka þar upp búsetu vegna náms eða starfa og eiga hindrunarlaust viðskipti.
Það er hins vegar sjálfsögð og eðlileg krafa að tekin sé umræða um hvort óhjákvæmilegur lýðræðishalli EES samningsins sé ásættanlegur með tilliti til hagsmuna allra, ekki bara sumra. Vega og meta hvort það kunni að þjóna almannahagsmunum betur að ganga alla leið með fullri aðild að Evrópusambandinu. Hið minnsta verður að gefa almenningi kost á því að taka afstöðu til þess hvort málin verði könnuð til hlítar.
Annars erum við bara eins og strúturinn sem rekur höfuðið þráðbeint í sandinn þegar bleiki fíllinn birtist.
Höfundur er stjórnarmaður í Já Ísland og varaþingmaður Viðreisnar. Grein birtist fyrst á Kjarnanum 4. október 2017.