Þórdís Lóa ætlar að eyða bilinu á milli fæðingarorlofs og leikskóla

Viðtal DV við Þórdísi Lóu, oddivta Viðreisnar í Reykjavík.

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir er ekki mörgum kunn og margir klóruðu sér í höfðinu þegar hún steig fram í sviðsljósið fyrir stuttu sem borgarstjóraefni Viðreisnar. Sama dag og tilkynnt var um að hún myndi leiða listann í komandi borgarstjórnarkosningum í Reykjavík mætti hún í viðtal í fréttatíma Stöðvar 2 þar sem segja má að henni hafi verið ýtt út í pólitísku djúpu laugina strax á fyrsta degi. Þórdís hitti blaðamann DV á heimili sínu í Árbæ til að upplýsa hver hún er og hvers vegna hún vill verða borgarstjóri Reykjavíkur.

Breiðhyltingur í húð og hár

„Þetta borgarstjóraefni kemur úr báðum heimum, ég starfaði hjá Reykjavíkurborg í tuttugu ár áður en ég fór í viðskipti og hef öðlast reynslu sem stjórnandi hjá stórum fyrirtækjum í nærri tuttugu ár,“ segir Þórdís Lóa og tekur fram að hún sé ávallt kölluð Lóa. „Ég er borgarstelpa alla leið og Breiðhyltingur í húð og hár. Það má segja að ég hafi eytt fyrstu 25 árum ævi minnar í Breiðholti,“ segir hún, en út um stofugluggann hjá henni má einmitt sjá blokkirnar í Hólahverfinu. „Ég var ótrúlega heppin að fá búa þar þegar Breiðholt var að byggjast upp, þetta var ævintýralega skemmtilegt hverfi. Allt morandi í krökkum, byggingum og ævintýrum. Ég er mikill ÍR-ingur, æfði handbolta og skíði.“

Eftir stúdentspróf úr Fjölbrautaskólanum í Breiðholti fór hún að vinna með unglingum á vegum borgarinnar. „Ég var að vinna í Fellahelli og sem afleysingakennari í Fellaskóla. Það sem mér finnst svo gaman við svona hverfi í Reykjavík er hverfisvitundin. Við sem borg erum ein heild og við byggjum þjónustu þvert yfir borgina. Svo förum við inn í hverfin þar sem fólk býr og á að fá sína þjónustu. Fólk á ekki að þurfa að keyra langar leiðir til að fá það sem það þarf. Það er einmitt svo skemmtilegt við þessa hverfisvitund, ef þú spyrð Reykvíking hvaðan hann kemur þá nefnir hann hverfið sitt. Það segir manni að fólk vill þessar tengingar.“

Breiðhyltingur alla leið. Þórdís Lóa eyddi fyrstu 25 árum sínum í Breiðholti, fyrst í skóla og síðan starfaði hún með unglingum. Mynd: DV/Hanna

Árið 2003 tóku Þórdís Lóa og eiginmaður hennar, Pétur Jónsson, yfir rekstur Pizza Hut á Íslandi og ráku þau þrjá veitingastaði á höfuðborgarsvæðinu og bættu við sig Pizza Hut í Finnlandi árið 2006. Tveir staðir hér á landi fóru í þrot eftir hrunið, þau Lóa og Pétur seldu svo Pizza Hut-staðinn í Smáralind árið 2015.  Árið 2013 varð Lóa formaður Félags kvenna í atvinnulífinu og árið 2016 varð hún forstjóri Grey Line á Íslandi.

Kominn tími á breytingar

Þórdís lærði fjölmiðlafræði í New Orleans í Bandaríkjunum og eftir að hún lauk félagsfræði með BA-gráðu fór hún í framhaldsnám í félagsráðgjöf. Hún starfaði síðan hjá Reykjavíkurborg í tuttugu ár, fyrst með unglingum og síðan með öldruðum á velferðarsviði. „Ég stýrði öldrunarmálum í Reykjavík í nokkur ár, síðan stýrði ég allri þjónustu á vegum velferðarsviðs borgarinnar áður en ég fór í viðskipti. Þetta var tímabil mikilla breytinga hjá borginni og ég er mjög ánægð með margt sem borgin er búin að vera að gera.

Það voru Sjálfstæðismenn sem stýrðu borginni í sextíu ár og gerðu það ágætlega að mörgu leyti, þeir byggðu upp ákveðinn grunn sem er gott að byggja ofan ár. Núna hafa vinstriflokkar verið við völd í nánast 24 ár og það er kannski kominn tími á breytingar hérna,“ segir Lóa og hlær. „Grunnur vinstriflokkanna er líka mjög góður, en nú er kominn tími til að færa þetta áfram og við erum með sterkar skoðanir á hvernig eigi að gera það.“

 Myndir þú vilja færa meirihlutann til hægri?

„Ég vil halda stjórnmálunum í borginni á miðjunni. Grunnurinn að skilaboðunum okkar í Viðreisn er að við staðsetjum okkur algjörlega á miðjunni. Við nálgumst borgarmálin út frá ákveðinni heildarhugsun, við ætlum að skapa góða borg fyrir atvinnulífið. Atvinnulífið byggist upp á litlum og meðalstórum fyrirtækjum, þar vinna Reykvíkingar. Það er grunnurinn að búa til skattfé fyrir samneysluna. Það er lykillinn að góðum leikskólum, grunnskólum, velferðarþjónustu og húsnæði.“

„No comment!“

Sem miðjuflokkur er markmiðið að nota það besta frá hægri og vinstri vængjum stjórnmálanna, hjá Viðreisn er það byggingar- og samgöngustefna núverandi meirihluta, og að straumlínulaga stjórnkerfið. „Það er vegasalt að vera á miðjunni. Við erum mjög fylgjandi þéttingu byggðar innan borgarmarkanna eins og áætlanir standa til um núna, en ekki síður að byggja þá líka upp þau hverfi sem byrjað hefur verið á, ég nefni þá sérstaklega Úlfarsárdalinn.“

Viðreisn styður núverandi samgönguáætlun sem Sjálfstæðismenn, Miðflokksmenn og fleiri hafa gagnrýnt. „Við styðjum borgarlínuverkefnið og þéttingu byggðar. Fólk spyr hvers vegna, en svarið er einfalt, samgönguáætlunin er langtímaverkefni sem hefur farið í gengum tvær kosningar og er samstarfsverkefni sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Það er ekki okkar að koma inn í það samtal og skemma verkefnið.“

Hún segir hins vegar að tími sé til kominn að laga stjórnkerfið í borginni. „Við þurfum að hafa allar gáttir einfaldari og aðgengilegri á netinu, en þeir eru auðvitað alltaf til sem vilja ekki hafa samskiptin við borgina rafræn en þeir eru miklu færri en hinir. Þjónusta á vegum borgarinnar á ekki að vera neitt mál, þá á ekki að þurfa að taka lengri tíma en fimm mínútur að sækja um heimaþjónustu.“

Berst fyrir konur. Þórdís Lóa, ávallt kölluð Lóa, ætlar að ganga lengra en að hækka laun kennara, það þurfi að laga vinnuumhverfi og aðstæður. Mynd: DV/Hanna

Þarf að skera niður borgarkerfið?   

„Það finnst mér ekki sanngjörn nálgun. Kerfið er stórt, einföldum það og straumlínulögum það. Markmiðið er ekki að skera niður, borgin á að vera í heilbrigðum rekstri og ef það þarf að skera niður þá gerum við það. En að skera niður til að skera niður, það ætlum við ekki að gera.“

Svo ég skilji þig rétt, þú ætlar ekki að slást í lið með Vigdísi Hauksdóttur, oddvita Miðflokksins, og fara niður í skrifstofur borgarinnar í Borgartúni og rýma skrifstofurnar sem virðast ekki þjóna neinum tilgangi?

„No comment!“ segir Lóa og hlær hátt.

Ætlar að ganga lengra en að hækka launin

Lóa forðast að koma með stóryrtar yfirlýsingar um einstök atriði og er fljót að átta sig á að blaðamaður er að reyna að fá hana til að segja hvort hún hallist frekar að samstarfi með núverandi meirihluta eða Sjálfstæðisflokknum. „Við erum ekki flokkur sem kemur inn með skyndilausnir eða fyrirsagnir eða eitthvert eitt mál. Það er enginn einn sem stýrir borginni, það er alltaf samstarf og samtalið þarf að byggjast á virðingu og gagnkvæmum skilningi á sjónarmiðum.“

Viðreisn hefur gefið sig út fyrir að vilja jafna kjör kynjanna á landsvísu, því verkefni ætlar Þórdís Lóa að halda áfram á sveitarstjórnarstigi. „Það liggur þingsályktunartillaga frá okkur fyrir þinginu þar sem við viljum sátt um að leiðrétta kjör kvennastétta. Þarna göngum við miklu lengra en bæði hægri- og vinstriflokkarnir. Þetta er hluti af heildarhugsuninni sem við erum alltaf að tala um.“

Ertu þá að tala um að eyða bilinu á milli fæðingarorlofs og leikskóla, og hækka laun leik- og grunnskólakennara?

„Já. Það er algjörlega óásættanlegt að árið 2018 sé ungt fólk með börn í sömu stöðu og ég var í fyrir 24 árum þegar ég var að eignast börn. Það hefur vissulega eitthvað breyst í fæðingarorlofsmálum og með feðraorlof en það er algjör óvissa með þetta stóra bil. Það er ekki boðlegt að fólk sé að bíða í mörg ár eftir plássi og öll fjölskyldan sé í limbói á meðan. Auðvitað eru hindranir til að laga þetta en það einfaldlega verður að laga þetta og það sem fyrst.“

Varðandi launahækkanir kennara segir Þórdís Lóa að það þurfi að ganga lengra en að hækka launin. „Það þarf líka að laga vinnuaðstöðu barna og kennara, það er fyrir löngu búið að skoða hvað þarf að gera, það þarf bara að gera það og til þess þarf kjark og þor sem við höfum. Það er enginn hugmyndfræðilegur grundvöllur fyrir því að kvennastéttir séu með lægri laun en karlar og það þarf að laga það.“

Hressandi innkoma í pólitíkina

Þórdís Lóa vakti mikla athygli þegar hún mætti í sjónvarpsal á Stöð 2 þann 20. mars síðastliðinn, daginn sem hún var kynnt sem oddviti Viðreisnar. Sindri Sindrason tók ekki á henni með silkihönskum og sakaði hana um að gefa óljós svör og segja lítið um hvað flokkurinn ætlaði að gera í borgarstjórn. Margir komu henni til varnar á meðan aðrir sögðu að þetta væri sönnun þess að hún ætti ekkert erindi í borgarstjórn. Hvernig blasti þetta við henni?

„Ég var aldrei að koma í þetta viðtal til að henda inn einhverri reyksprengju. Þetta var tveggja mínútna innslag í fréttatíma og ég mætti þarna til að kynna listann og okkar sýn. Þannig vinnum við. Ég vildi reyndar ræða menntamálin en Sindri vildi ekki ræða þau, hann stoppaði mig,“ segir Lóa og hlær. „Mér leið nú bara vel þarna hjá Sindra en það fór ekki framhjá mér að samfélagsmiðlar loguðu. Þetta var hressandi innkoma í pólitíkina.“

athygli þegar hún mætti í sjónvarpsal á Stöð 2 þann 20. mars síðastliðinn, daginn sem hún var kynnt sem oddviti Viðreisnar. Sindri Sindrason tók ekki á henni með silkihönskum og sakaði hana um að gefa óljós svör og segja lítið um hvað flokkurinn ætlaði að gera í borgarstjórn. Margir komu henni til varnar á meðan aðrir sögðu að þetta væri sönnun þess að hún ætti ekkert erindi í borgarstjórn. Hvernig blasti þetta við henni?

„Ég var aldrei að koma í þetta viðtal til að henda inn einhverri reyksprengju. Þetta var tveggja mínútna innslag í fréttatíma og ég mætti þarna til að kynna listann og okkar sýn. Þannig vinnum við. Ég vildi reyndar ræða menntamálin en Sindri vildi ekki ræða þau, hann stoppaði mig,“ segir Lóa og hlær. „Mér leið nú bara vel þarna hjá Sindra en það fór ekki framhjá mér að samfélagsmiðlar loguðu. Þetta var hressandi innkoma í pólitíkina.“