12 júl Vinir og bandamenn
Hundrað ár fullveldis og nær 75 ár sjálfstæðis eru vitaskuld merkir áfangar í sögu Íslands. Margt hefur á daga þjóðarinnar drifið á þessum árum bæði í þróun samfélagsins sjálfs og ekki síður í heimsmálum sem hafa um margt mótað og stýrt því hver framvindan hefur orðið hér á landi, til góðs eða ills.
Í öllum aðalatriðum hefur Ísland verð heppið á vegferð sinni hingað til. Náttúruauðlindir, lega landsins og hagfelld áhrif af framvindu alþjóðamála lengst af hefur leitt til þess að íslenskt samfélag er til fyrirmyndar á mörgum sviðum, þó vissulega sé það ekki fullkomið. Allt er þetta ánægjuefni og gefur tilefni til þess að fagna því sem vel hefur tekist.
Frjálslyndi er leiðarljós
Enginn er eyland. Kraftar að utan hafa áhrif á lífskjör á Íslandi. Án farsælla samskipta og samvinnu við önnur ríki megum við okkur lítils. Þetta hefur alltaf átt við en hefur og mun hafa enn meiri áhrif í framtíðinni. Fyrir okkur Íslendinga er mikilvægt að frjálslyndi, umburðarlyndi og opin og hindrunarlaus samskipti og viðskipti hafi yfirhöndina í samskiptum á alþjóðavettvangi. Þess vegna eigum við hiklaust að skipa okkur í sveit með þeim þjóðum og stjórnmálaöflum á alþjóðavettvangi sem hafa þessi markmið. Þar eigum við að beita okkur og leggja það af mörkum sem við getum.
Góðir vinir og samherjar eru gulls ígildi fyrir alla á lífsleiðinni. Sama gildir í samfélagi þjóðanna. Ísland getur valið hverja það kýs að binda trúss sitt við, hvaða þjóðir og alþjóðasamtök það vill gera að sínum vinum og bandamönnum. Hvaða viðhorf, stefnur og strauma það vill kenna sig við og efla.
Skeinuhættur popúlismi
Uppgangur þröngsýni, sérhagsmuna, verndar- og einangrunarhyggju og popúlisma víða í hinum vestræna heimi er mikið áhyggjuefni og getur orðið Íslandi og íslenskum hagsmunum skeinuhættur.
Raunalegt er að horfa til þeirrar þróunar sem hefur orðið í Bandaríkjunum og utanríkisstefnu þeirra undir forystu ólíkindatólsins Trumps. Ísland hefur löngum litið á Bandaríkin sem sinn helsta bandamann og litið mjög til þeirra sem fyrirmyndar og stutt á alþjóðavettvangi. Útilokað er annað en tortryggja mjög og gagnrýna stefnu Trumps. Hún felur í sér grímulaust afturhvarf frá þeirri skipan heimsviðskipa sem er okkur Íslendingum lífsnauðsynleg. Frjálslyndi og umburðarlyndi virðist fjærri hugarheimi Trumps og gildir þá einu hvort horft er til mála innanlands eða samskipta við önnur ríki á sviði viðskipta eða öryggis- og varnarmála. Popúlisminn virðist taka Bandaríkin heljartökum. Vonandi bráir af þeim fyrr en seinna.
Bretland er á leið úr Evrópusambandinu. Breskum popúlistum tókst með ósvífnum hætti að draga bresku þjóðina í þá ferð með innantómum fagurgala. Brexit ævintýrið er allt með hinum mestu ólíkindum og virðist enginn hvatamaður Brexit hafa hugsað það til enda. Nú stökkva þeir hver um annan þveran frá borði, ráðherrarnir David Davis og Boris Johnsson en þeir Michael Gove og Liam Fox vita ekki hvort þeir eru að koma eða fara. Íslenskir ráðamenn hafa sumir hverjir fylgst með þessum kumpánum fullir aðdáunar og talið að framganga þeirra myndi færa Íslendingum mikil tækifæri. Þau tækifæri virðast nú eins og hvert annað glópagull og þeim fækkar ört í Bretlandi sem hafa trú á því að Bretum farnist betur utan Evrópusambandsins en innan.
Vítin ber að varast
Þróunin innan Bandaríkjanna og Bretlands sýnir glöggt að illa getur farið þegar misvitrir menn seilast til valda með fagurgala og einföldum lausnum við öllum vanda og benda helst á ímyndaðan óvin sem öllu veldur. Þetta er gömul saga og ný sem fer alltaf á sama veg þó blæbrigðin séu mismunandi. Sagan endar alltaf illa.
Evrópusambandið hefur ekki farið varhluta af uppgangi popúlista innan aðildarríkja sinna. Hrikt hefur í stoðum sambandsins vegna efnahagslegra erfiðleika og mikils álags vegna straums flóttamanna. Þessa áraun hefur Evrópusambandið staðist hingað til. Það er hins vegar ekki sjálfgefið að svo verði áfram takist ekki að veita popúlistum viðnám og frjálslynd öfl haldi undirtökunum.
Að skipa sér í sveit
Ísland hefur kosið að bindast öðrum Evrópuríkjum föstum böndum. Samstarf Evrópuríkja er auðvitað þéttast og mest innan Evrópusambandsins, en hingað til höfum við Íslendingar látið okkur duga aukaaðild að ESB í formi EES-samningsins. Það er ekki fullnægjandi fyrir hagsmuni okkar til lengri tíma.
Ísland á að skipa sér í sveit með þeim ríkjum sem hafa með sér nánast samstarf byggt á frjálslyndum gildum og mannréttindum. Á þeim vettvangi þarf að leggja öll lóðin á þá vogarskál til þess að styrkja samstarfið enn frekar.
Ísland á að skipa sér í sveit með þeim ríkjum sem geta og vilja verja frjálslyndi og umburðarlyndi, en spyrna gegn popúlisma, þröngsýni, sérhagsmunum, verndar- og einangrunarhyggju á alþjóðavettvangi.
Ísland á að skipa sér í sveit með þeim ríkjum sem hafa með sér samvinnu og samstarf sem skapar íslenskum heimilum og atvinnulífi tækifæri á við það sem best þekkist, hvort sem horft er til lífskjara, vaxta, efnahagslegs stöðugleika, samkeppnisstöðu eða vaxtarskilyrða fyrir hugvit og nýsköpun.
Vel er við hæfi að íhuga á þessum tímamótum hvernig fullveldi Íslands og sjálfstæði verði fundinn bestur farvegur til hagsældar og velferðar um komandi ár.
Höfundur er þingmaður Viðreisnar. Grein birtist fyrst á Kjarnanum 12. júlí 2018.