30 sep Að eiga kökuna og éta
Bretar hafa átt aðild að Evrópusambandinu – ESB, í 45 ár, eða síðan 1973. Þeir hafa tekið þátt í mótun þess og þróun allar götur síðan.
Nú hafa Bretar hins vegar ákveðið að ganga úr ESB. Það gerðu þeir í þjóðaratkvæðagreiðslu þann 26. júní 2016. Theresa May, forsætisráðherra Breta, virkjaði 50. gr. í Lissabon-sáttmálanum þann 29. mars árið 2017. Þar með hófst með formlegum hætti hið lögbundna útgönguferli samkvæmt reglum ESB. Eins og gefur að skilja er að mörgu að hyggja þegar aðildarríki ákveður að ganga úr ESB eftir 45 ár og notið kosta aðildarinnar og borið sameiginlegar skyldur. Það er margt sem þarf að rekja í sundur og ekki einfalt mál.
Þessu ferli öllu skal lokið eigi síðar en 29. mars á komandi ári eða eftir hálft ár. Bretar sjálfir hafa lögbundið þennan útgöngudag. Frumvarp þess efnis var lagt fram í breska þinginu 13. júlí 2017 og varð að lögum 26. júní 2018 eftir nokkra þrautagöngu í þinglegri meðferð (The European Union (Withdrawal) Act 2018).
Erfiður skilnaður
Í sinni einföldustu mynd ganga samningarnir út á að losa Bretland undan skyldum sínum sem aðildarríkis að ESB um leið og Bretland og breskir borgarar njóta ekki þeirra réttinda sem aðild fylgja. Að sama skapi losna ESB og aðildarríkin undan skuldbindingum sínum gagnvart Bretlandi og borgarar aðildarríkja ESB njóta ekki lengur réttinda í Bretlandi sem aðild þess fylgdu.
Raunveruleikinn er samt ekki svona einfaldur. Í útgönguferlinu felst líka að Bretar og ESB reyna að ná samkomulagi um hvernig tengslum og samskiptum skuli háttað eftir að Bretland er gengið úr ESB. Það er hagur beggja að ná slíku samkomulagi. Því miður er óhætt að fullyrða að líkur á að samkomulag náist í tæka tíð fara mjög dvínandi ef marka má fréttir og yfirlýsingar samningsaðila.
Deilur um umgengi
Greinilegt er að mikil óeining ríkir um framhaldið innan raða þeirra sem standa að ríkisstjórninni sem Theresa May stýrir, og sömuleiðis milli stjórnar og stjórnarandstöðu, en síðast en ekki síst meðal bresku þjóðarinnar. Gildir það jafnt um hvort rétt sé yfirhöfuð að ganga úr ESB og hvaða leiðir skuli fara. Af öllu þessu má ráða að þegar efnt var til þjóðaratkvæðagreiðslunnar hafi ekki verið hugsað til enda hvernig ætti að vinna með niðurstöðuna og hvað úrsögn úr ESB felur í rauninni í sér. Eða kannski öllu heldur hvað aðild að ESB felur í sér. Enda sýnast hugmyndir Breta og Evrópusambandsins um hvernig tengslum skuli háttað eftir að Bretar hætta í Evrópusambandinu gerólíkar.
Bretar virðast vilja njóta samvinnu Evrópusambandsins þar sem þeim þóknast en hafna því að takast á við þær skyldur sem samvinna innan Evrópusambandsins felur í sér. Hér virðist sem breska ríkisstjórnin vilji bæði eiga kökuna og éta. Eins og við vitum flest er það ómögulegt. Hvernig málalyktir verða í þessu máli er ómögulegt að spá um.
Kemur þetta okkur við?
Ísland á ekki aðild að ESB. Misvitrir stjórnmálamenn stóðu fyrir því að stöðva aðildarviðræður Íslands og ESB áður en þeim var lokið. Það er vissulega sorgarsaga sem ekki verður rakin hér.
Líklega kemur til þess í framtíðinni að Ísland tekur upp þráðinn við samningaborðið að nýju og leiðir til lykta með samningi og þjóðaratkvæðagreiðslu. Sá sem þetta ritar er staðfastlega þeirrar skoðunar að Ísland verði aðili að ESB í fyllingu tímans. Í grunnstefnu Viðreisnar segir meðal annars: „Vestræn samvinna hefur aukið hagsæld þjóðarinnar og er forsenda sterkrar samkeppnishæfni Íslands. Evrópusambandið er réttur vettvangur fyrir frjálslynt Ísland.“ Stefna Viðreisnar er a.m.k skýr í þessum efnum.
Fjórðungur aldar
Þeir sem fæddust árið 1994 hafa fagnað því láni að Ísland hefur átt aðild að EES-samningnum alla þeirra ævi. Í samningnum felst náið samband Íslands við ESB og aðildarríkin 28, sem verða 27 þegar Bretland hefur yfirgefið ESB. EES samningurinn er stærsti og viðamesti milliríkjasamningur sem Ísland hefur nokkru sinni gert. Hann hefur haft mikil og jákvæð áhrif á fjölmörgum sviðum samfélagsins, skapað réttindi og skyldur. Oft gleymist í umræðunni hve mikið af því sem við tökum sem gefinn hlut í samfélaginu hefði ekki orðið nema fyrir tilstilli þess að við gerðumst aðilar að samningnum um EES.
Popúlísk stef
Undanfarið hafa nokkrir stjórnmálamenn róið á þau mið að gera EES-samstarfið tortryggilegt. Raddir heyrast um að Brussel-valdið sé orðið frekt til fjörsins og seilist eftir því að ná tökum á auðlindum okkar, vilji stela fjöreggi okkar eða brjóta. Fullveldi og sjálfsstjórn lítillar þjóðar sé ógnað af ágjörnu erlendu valdi.
Þetta eru því miður kunnugleg stef popúlista víða um lönd þar sem þjóðernishyggja sækir í sig veðrið.
Þær raddir heyrast einnig að nú beri nauðsyn til að Ísland endurskoði aðild sína að EES-samningnum, jafnvel með það fyrir augum að segja honum upp og taka upp tvíhliða samning við ESB og síðar Breta því þá getum við sniðið allt að okkar þörfum og ekki lengur að beygja okkur undir Brussel valdið.
Víti til varnaðar
Hér ætti aðdragandinn að Brexit og útgönguferlið að vera víti til varnaðar. Ferð án fyrirheits endar oftast illa. Þeir sem gæla við uppsögn EES-samningsins mættu hafa í huga þær ógöngur sem breska ríkisstjórnin hefur ratað í þegar hún er að átta sig á því að enginn veit hvað átt hefur þegar misst hefur. Þjóðaratkvæðagreiðslan í Bretlandi var sett af stað til þess að róa öldur í innanflokksátökum í breska íhaldsflokknum. Þar var lagt af stað í vegferð sem ekki var hugsuð til enda (látum vera baráttuaðferðir þeirra sem vildu ganga út) og nú er verið að reyna að draga úr tjóninu með óskhyggju um niðurstöðu sem ekki fæst.
Út í hött
Brexit-ferlið hefur líka valdið þórðargleði sem leynir sér ekki í herbúðum þeirra sem ekki geta hugsað sér aðild Íslands að ESB. Nú þykjast menn geta tekið höndum tveim nýtt vopn í baráttunni. Utanríkisráðherra hefur fallið í þessa gryfju.
Hann sagði í viðtali við RÚV fyrir nokkrum dögum þegar breski sjávarútvegsráðherrann var hér í heimsókn:
„Stóra málið kannski fyrir okkur Íslendinga þegar við horfum á þetta. Við hljótum að draga þá ályktun að við getum alls ekki verið inni í Evrópusambandinu. Því allt það sem hefur verið sagt um það að það sé ekkert mál að fara út ef okkur líkar ekki við veruna, það eru röksemdir sem enginn getur notað aftur.“
Fullyrðing ráðherrans er með miklum eindæmum. Túlkun og greining hans er algerlega út í hött. Auðvitað er hægt að ganga úr Evrópusambandinu. Það munu Bretar gera nema breska þjóðin kjósi að grípa í taumana.
Aðild að ESB er líkt og aðildin að EES er stórmál vegna þess hve mikið er undir hjá þeim sem taka þátt, skuldbindingar og réttindi. Að taka ákvörðun um að hverfa úr slíku samstarfi er þess vegna líka stórmál og hefur víðtæk áhrif. Það blasir við. Hitt ber hins vegar vott um grunnhyggni og/eða óskhyggju að slíkur skilnaður hafi ekki víðtæk áhrif sem oftar en ekki fela í sér missi réttinda og óhagræði.
Orsök og afleiðingar
Vandi bresku ríkisstjórnarinnar felst þess vegna ekki í því að Bretar komist ekki út eða að það sé mikið mál, vandinn felst í því að hún getur horfst í augu við hvaða áhrif útganga mun hafa á breskt samfélag og það er þar sem hundurinn liggur grafinn. Reynsla Breta breytir því engu um það að staðreyndin er sú að kjósi aðildarríki að ganga úr ESB er sú leið fær, en útgangan hefur vissulega afleiðingar.