07 maí Óbærilegt hjónaband
Hjónaband er lögbundið og formlega staðfest samkomulag tveggja einstaklinga um að verja lífinu saman með þeim réttindum og skyldum sem því fylgja. Hjónaband getur af mörgum ástæðum orðið óbærilegt fyrir annan eða báða sem til þess stofnuðu, t.d. vegna ofbeldis eða sundurlyndis. Dæmin sanna að oft er hægara sagt en gert að losna úr hjónabandi sem einkennist af andlegu og líkamlegu ofbeldi.
Oft lýkur ofbeldi, líkamlegu en þó aðallega andlegu, ekki við það að fólk slíti sambúð. Sá sem ofbeldinu hefur beitt heldur því áfram með þeim aðferðum sem tiltækar eru, svo sem með þrætum um forræði og umgengni við börn, baráttu gegn lögskilnaði og töfum á fjárhagslegum skiptum. Þannig er ofbeldinu og tökum geranda á lífi þolandans haldið áfram um árabil.
Það er undarlegt að hjúskaparbrot er mun greiðfærari skilnaðarástæða en ofbeldi. Hvernig má það vera að löggjöfin sé þannig úr garði gerð að hún neyði fólk til þess að vera mörg ár að losna úr sambandi sem það vill ekki lengur? Af hverju þurfa að líða minnst tvö ár frá samvistarslitum hjóna vegna ósamlyndis áður en hægt er að krefjast lögskilnaðar?
Hjónaband er samkomulag og því verður að vera hægt að rifta með lögformlegum hætti á skemmri tíma en núgildandi lög leyfa. Engan á að neyða til þess að vera í lagalegum tengslum við maka sem hann vill losna úr tengslum við jafn lengi og núverandi hjúskaparlög krefjast. Þessu verður að breyta og þess vegna verður lagt fram frumvarp á næstu dögum sem felur í sér að réttur hjóna til að krefjast lögskilnaðar verði rýmkaður. Ekki skipti lengur máli hvort annað eða bæði óski eftir lögskilnaði og um leið verði tímamörk til kröfu um lögskilnað í kjölfar samvistarslita vegna ósamlyndis stytt úr tveimur árum í eitt.