Að ganga samtímis í austur og vestur

Þorsteinn Pálsson

Núverandi stjórnarsamstarf virðist vera nánara og þéttara en við höfum þekkt áður á þessari öld. En galdurinn á bak við það virðist samt sem áður vera býsna einfaldur.

Galdurinn felst að litlu leyti í hefðbundnum málamiðlunum, en í ríkari mæli í samkomulagi um að gera engar breytingar, sem máli skipta, ef þær kalla á samþykki Alþingis. Einstakir ráðherrar hafa á hinn bóginn frjálsar hendur um að breyta og jafnvel kollvarpa hlutum á þeirra verksviði, ef það rúmast innan gildandi laga.

Táknræn afstaða VG til varnarmála

Varnarmálin eru eitt dæmi um þetta. Þau eru ekki rædd á Alþingi og ekki í þjóðaröryggisráði þar sem forsætisráðherra situr í öndvegi. Utanríkisráðherra hefur einfaldlega frjálsar hendur um að þróa varnarumsvifin, samþykkja framkvæmdir og ræða framvindu þeirra eins og verið hefur í samstarfi við bandamenn í Bandaríkjunum og Evrópu.

Þingmenn VG bera vitaskuld fulla pólitíska ábyrgð á þessari framkvæmd. En til þess að sýna flokksmönnum að hugsjónin lifi hafa þeir flutt frumvarp um að taka þetta vald af ráðherra og flytja það til Alþingis. Þeir segja að frumvarpið sé stærsta forgangsmál flokksins á þessu þingi. En samt er ósennilegt að þeir leggi til að það verði afgreitt úr nefnd og borið undir atkvæði. Það er aðeins flutt í táknrænum tilgangi.

Í venjulegu stjórnarsamstarfi væri litið á frumvarp af þessu tagi sem vantraust.

Niðurstaðan er sú að í hönd fara einhverjar mestu fjárfestingar Bandaríkjahers hér á landi í áratugi.

Flóknari staða í heilbrigðismálunum

Í heilbrigðismálunum er staðan hins vegar mun flóknari.

Afstaða fjármálaráðherra er mjög skýr: Það þarf ekki meiri fjármuni og vilji hans ræður. Lausnin felst í hinu að fá meira fyrir hverja krónu með breyttu skipulagi. Því fær hann ekki að ráða.

Afstaða heilbrigðisráðherra er að sama skapi afdráttarlaus: Það þarf meiri fjármuni. Þeir fást ekki. Og af pólitískum ástæðum þarf skipulagsbreytingar af öðru tagi en fjármálaráðherra boðar, sem margt bendir til að geri kerfið dýrara og seinvirkara. Það gengur eftir.

Í samræmi við galdurinn á bak við náið samstarf felst lausnin í því að fjármálaráðherra ræður því, sem að honum snýr og heilbrigðisráðherra ræður því, sem að henni snýr. Árangurinn birtist svo í fréttum ríkisútvarpsins.

Með öðrum orðum: Engin samræmd stjórnarstefna í heilbrigðismálum um skýr, fjármögnuð og mælanleg markmið. Ríkisstjórnin gengur samtímis í austur og vestur.

Klípa þingmanna Sjálfstæðisflokksins í heilbrigðismálum er miklu meiri en vandi þingmanna VG í varnarmálum. Í varnarmálunum er verið að framfylgja óbreyttri stefnu. En í heilbrigðismálunum er verið að gera grundvallar breytingar með því að grafa undan einkarekstri og alveg sérstaklega þeim hluta hans, sem verið hefur á höndum velferðarfélaga, sem í sumum tilvikum hafa létt undir með ríkissjóði og borgað með rekstrinum.

Táknræn afstaða Sjálfstæðismanna í heilbrigðismálunum

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa þó ekki farið sömu leið og þingmenn VG og flutt frumvarp um að flytja ákvörðunarvald um breytingar af þessu tagi til Alþingis. Sumir þeirra hafa þó leyft sér að andæfa í orði kveðnu.

Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, skrifaði í síðustu viku hugmyndafræðilega grein í Morgunblaðið þar sem hann staðhæfði að rætur vandans í heilbrigðismálum lægju í tilflutningi verkefna frá einkaaðilum til Landspítalans, sem ekki tilheyrðu kjarna- og lykilstarfsemi hans. Niðurstaða þingmannsins er þessi: „Íslenskt heilbrigðiskerfi er á leið í sjálfheldu fábreytileika og aukinna útgjalda.“

Þetta er þungur dómur yfir stefnu eigin ríkisstjórnar. Samt er stjórnarsamstarfið áfram náið og þétt.

Heilbrigðisráðherra framkvæmir stefnu sína í umboði þingmanna Sjálfstæðisflokksins. En munurinn er sá að heilbrigðisráðherra hefur ríkari stuðning frá þingmönnum Sjálfstæðisflokksins en eigin flokks með því að þeir eru miklu fleiri. Sjálfstæðisflokkurinn leggur því í raun meiri þunga í ríkisvæðingarstefnuna en VG; stefnu sem þingmenn hans fullyrða að sé nú þegar að leiða heilbrigðiskerfið í sjálfheldu.

Léttvæg mál fyrir báða flokka

Afstaða af þessu tagi ber vott um tvískinnung. En sennilega byggir tvískinnungurinn á köldu hagsmunamati.

Þingmenn VG líta einfaldlega svo á að varnarmálin hafi lítið vægi. Andstaðan við aðild að NATO og krafan um brottför erlendra hermanna er til að mynda alltaf falin í kosningabaráttu. Þess vegna duga táknræn skilaboð um þau efni í stjórnarsamstarfi. Athafnir eru óþarfar.

Eins er með heilbrigðismálin og Sjálfstæðisflokkinn. Eina ástæðan fyrir því að hann getur tekið þátt í nánu og þéttu stjórnarsamstarfi um stefnu, sem stríðir gegn grundvallarhugmyndafræði hans, er sú að hann telur málefnið hafa óverulegt vægi í heildarmyndinni. Brýnna þykir að gæta að öðrum hagsmunum.

Þess vegna er nóg að benda með táknrænum hætti á að stjórnarstefnan sé að leiða heilbrigðismálin í sjálfheldu. Þingmenn hans sjá einfaldlega ekki ástæðu til að hafast nokkuð að.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 30. janúar 2020