Ekki segja neitt

Benedikt Jóhannesson

Nú er tveir mánuðir síðan sjónvarpið fjallaði um meint afbrot íslensks fyrirtækis í Afríku. Ekki er of djúpt í árinni tekið að segja að þjóðin hafi verið slegin eftir þáttinn. Fréttir bárust af því að nokkrir hefðu í kjölfarið verið handteknir í Namibíu, ráðherrar þurftu að segja af sér og kunnugir segja að enn sé þetta mál stöðugt í umræðunni þar í landi.Fjármálaráðherra Íslands tjáði sig um málið: „Auðvitað er rót vandans í þessu tiltekna máli veikt og spillt stjórnkerfi í landinu. Það virðist vera einhvers konar rót alls þess sem við erum að sjá flett ofan af.“ Hér vísar ráðherrann til þess að Namibía hafi kallað yfir sig ósköpin með veiku og spilltu stjórnkerfi.

Fyrir réttri viku var ég í samkvæmi með hópi virðulegra manna á sjötugsaldri. Það kom mér á óvart að í þessum hópi var brosað að ummælum ráðherrans. Jafnframt greinilegt að flestir viðmælendanna voru sannfærðir um að á Íslandi yrði ekkert frekar gert með málið. Það yrði þagað í hel.

Sjálfur hef ég trú á því að hér á landi sé hvorki spillt né sérlega veikt stjórnkerfi. Þar til bær yfirvöld munu örugglega rannsaka málið ofan í kjölinn og ákveða svo hvort þau telja ástæðu til frekari aðgerða. En viðbrögð félaga minna eru lýsandi um þá trú, eða öllu heldur vantrú, sem Íslendingar hafa á stjórnvöldum. Tortryggnin ræður ríkjum. Og kannski ekki skrítið, því að hefðbundnir íslenskir stjórnmálamenn hafa langa reynslu af því að sveipa erfið mál þagnarhjúpi.

Nýlega sagði heilbrigðisráðherra á fundi með læknaráði Landspítalans: „Ég verð bara að nota tækifærið hér og segja við læknaráð, að það er töluverð áskorun fyrir ráðherra að standa með Landspítala þegar koma ályktanir á færibandi sem tala um það að þessi stofnun sé nánast hættuleg.“ Margir hafa skilið ummælin á þann veg að ráðherrann vilji ekki fá gagnrýni á sína stjórnun. Sá skilningur er eðlilegur miðað við hve viðkvæmir stjórnmálamenn eru oftast fyrir gagnrýni. Þeir sem segjast vera með þykkan skráp verða oftast sárastir, ef út á störf þeirra er sett. En auðvitað má líka hugsa sér að ráðherrann hafi hreinlega verið búinn að fá nóg af því að þeir, sem ættu að halda gæðum íslenska heilbrigðiskerfisins á lofti, gerðu stöðugt lítið úr því.

Umræðuhefð getur verið með ýmsum hætti, en eitt er víst. Án umræðu verða engar framfarir. Þöggun er virkt stjórntæki þeirra sem vilja verja sérréttindi. Á ferðum mínum um landið sem stjórnmálamaður varð ég bara einu sinni fyrir dónalegum viðtökum. „Eigandi“ lítils sjávarpláss sagði mér að minn málflutningur ætti lítinn hljómgrunn í sínum bæ. Síðast hefði einn íbúi kosið Viðreisn. Það myndi ekki endurtaka sig.

Boðskapurinn var skýr: Ég kæri mig ekki um að „mínir þegnar“ heyri svona tal og fái nýjar hugmyndir.

Höfundur er stærðfræðingur og stofnandi Viðreisnar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 17. janúar 2020