Skortur á hjúkrunarrýmum – skortur á efndum

Þorsteinn Víglundsson

Skortur á hjúkr­un­ar­rýmum er ein af megin ástæðum þess vanda sem bráða­deild Land­spít­al­ans á við að etja. Ætla má að í dag vanti að minnsta kosti 300-400 ný hjúkr­un­ar­rými og um 100 rými því til við­bótar þurfa að bæt­ast við árlega næstu tvo ára­tugi vegna hækk­andi ald­urs þjóð­ar­inn­ar.

Vegna þessa skorts liggja tugir sjúk­linga á hverjum tíma á Land­spít­al­anum sem hafa lokið með­ferð en hafa ekki heilsu til að fara heim. Því til við­bótar bíða rúm­lega 400 ein­stak­lingar eftir hjúkr­un­ar­rýmum á hverjum tíma. Þess vandi er vel þekktur og hefur verið stöðugt til umræðu á und­an­förnum árum. En á sama tíma hefur lítið sem ekk­ert verið gert til að taka á hon­um. Á und­an­förnum ára­tug hafa um 450 ný rými verið tekin í notkun en á móti hefur um 360 rýmum verið lok­að. Fjölgun hjúkr­un­ar­rýma á heilum ára­tug er því um 90 – það sam­svarar 9 rýmum á ári. Á sama tíma hefur þörf fyrir hjúkr­un­ar­rými auk­ist um 50 til 100 á ári hverju.

Vantar 700 rými fram til 2023 – aðeins 200 í sjón­máli

Engin breyt­ing hefur orðið til batn­aðar það sem af er þessu kjör­tíma­bili. Miðað við fram­kvæmda­á­ætlun heil­brigð­is­ráðu­neyt­is­ins má gera ráð fyrir um 170 nýjum rýmum á þessu kjör­tíma­bili. 40 ný rými voru tekin í notkun á Sel­tjarn­ar­nesi á síð­asta ári og Hrafn­ista opnar 100 ný rými við Sléttu­veg á þessu ári. Að auki er gert ráð fyrir um 25 nýjum rýmum í Árborg á næsta ári.

Fyrir rúmu ári síðan skrif­aði Svan­dís Svav­ars­dótt­ir, heil­brigð­is­ráð­herra, grein í Morg­un­blað­inu þar sem því var heitið að hjúkr­un­ar­rýmum myndi fjölga um 550 fram til árs­ins 2023. Lík­ast til mun sú aukn­ing ekki duga til að mæta vax­andi þörf á þessum tíma. Það er hins vegar enn verra að það bólar ekk­ert á efndum á stærstum hluta þessa lof­orðs ráð­herr­ans. Í fram­kvæmda­á­ætlun ráðu­neyt­is­ins er gert ráð fyrir 37 nýjum rýmum á lands­byggð­inni árið 2021 og engum nýjum rýmum árið 2022.  Rétt er að hafa í huga að verk­tími fram­kvæmda sem þess­ara er tvö til þrjú ár hið minnsta.

Það eru því allar líkur á því að þessi vandi muni aðeins versna á næstu tveimur til þremur árum. Ráð­herra gaf fögur fyr­ir­heit í fyrr­nefndri grein en hér vantar efndir – ekki bara orð.

Höf­undur er þing­maður Við­reisn­ar.

Greinin birtist fyrst í Kjarnanum 13.janúar 2020