Vont er þeirra ránglæti

Benedikt Jóhannesson

Grunnstefna ríkisstjórnarinnar í heilbrigðismálum er aðför að einkarekstri. „Lausnir“ hennar eru meira fjármagn til málaflokksins, en lítill áhugi á því að verja því fé með hagkvæmum hætti fyrir sjúklinga. Aðgerðum er beint til útlanda fremur en að skipta við íslenskar einkareknar læknastöðvar. Hagkvæmni og þægindi sjúklinga eru aukaatriði hjá stjórnarflokkunum. Svo hrósa þeir sér af því að hafa dælt meira fé í málaflokkinn.

Á flokksráðsfundi VG í liðinni viku sagði forsætisráðherra: „Heilbrigðismálin hafa verið mál málanna að undanförnu en þar höfum við staðið vaktina.“ Svo var að heyra að Katrín væri býsna ánægð með stöðuna. Síðar í ræðunni skaut hún föstum skotum á stjórnmálamenn sem færu með staðleysur og héldu fram ósannindum í málflutningi sínum. Staðreyndir væru grunnstoð lýðræðis.

Hvað vill almenningur? Nýlega birtist könnun um traust notenda til nítján heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu. Af þessum nítján stöðvum eru fjórar einkareknar, en þær raða sér í flest efstu sætin. En óþægilegar staðreyndir skipta ríkisstjórnina engu, þegar um trúarbrögð er að tefla.

Í Læknablaðinu er talað við Þórarin Ingólfsson, einn eigenda og framkvæmdastjóra lækninga á Heilsugæslunni Höfða, einkarekinni stöð sem var opnuð árið 2017. Skjólstæðingar voru fremur fáir í byrjun eða 2.900 forskráðir við opnun. Um áramótin 2017 voru þeir orðnir 4.000 og eru núna 19.500.

Hann rekur samskiptin við ríkið: „Vandinn er ójafnræði. Við sem erum sjálfstætt starfandi berum skarðan hlut frá borði. Við kvörtuðum strax yfir því til Samkeppniseftirlitsins sem rannsakaði málið. Eftirlitið beindi svo tilmælum til heilbrigðisráðherra haustið 2017 Síðan hefur ekkert gerst. Ekkert, engin viðbrögð. Við fórum á fund ráðherra 2018 og báðum um að brugðist yrði við en fengum engin viðbrögð.“

Þórarinn segir frá því að þegar Heilsugæslan Höfða óskaði eftir samningum við Landspítala var henni boðið að greiða 165 kr. á rannsóknareiningu meðan ríkisreknu stöðvarnar greiddu 110 krónur, sem er 33% lægra verð.

„Það er svakalegt. Rosalegt. Hvernig stendur á því að ríkið kýs að mismuna þeim sem reka heilsugæsluþjónustu í fjármögnunarlíkani sem á að vera á jafnræðisgrundvelli?“

Heilsugæslan Höfða var efst í áðurnefndri gæðakönnun, en ríkisstjórnin skellir skollaeyrum við. Ríkið skal það vera. Eða útlönd.

Óvild ríkisstjórnarinnar í garð einkarekstrar er ljós að mati Þórarins: „Ráðherra hefur ekki verið hlynnt [okkar rekstri] og ekki komið að skoða. En það er ekki hægt að horfa fram hjá því hve margir kjósa að sækja til sjálfstæðra heilsugæslustöðva. Hvers á þetta fólk að gjalda? Það er áskorun að vera með ráðherra sem er ekki vinsamlegur okkur.“

Eina krafa Þórarins er: „Við viljum bara að þetta sé réttlátt.“

Höfundur er stærðfræðingur og stofnandi Viðreisnar.

Greinin birstist fyrst 14. febrúar 2020