Krísufæri

Árið 1959 sagði John F. Kennedy að kínverska orðið ógn væri skrifað með tveimur táknum. Annað þeirra táknar hættu (e. crisis) og hitt táknar tækifæri (e. opportunity). Stórhættulegur COVID-19 faraldurinn hefur valdið þjáningum og tjóni á Íslandi en hefur þessi ógn hugsanlega skapað okkur ný tækifæri?

Við upplifum það daglega hvað samstaða þjóðarinnar hefur aukist við þessa ógn. Við hlustum nú betur á rök sérfræðinga okkar og högum okkur í samræmi við ráð þeirra. Við erum þakklátari heilbrigðisfólkinu og almannavarnastarfsfólki en áður. Mér finnst við öll vera að leggja okkur meira fram, vanda okkur meira og sýna meiri aga, ábyrgð og samhug. Munum þó að þessi ógn verður vonandi liðin hjá innan nokkurra vikna.

Helstu tækifærin sem þessi ógn mun hugsanlega skapa felast í breyttum lífsháttum og breyttri daglegri hegðun okkar. Við munum örugglega nýta tíma okkar betur, hlusta meira á fagfólk og kunna betur að meta hyggjuvitið.

Við erum nú að sjá augljósa kosti fjarvinnu, fjarfunda og fjarkennslu sem mun spara ferðatíma, tíma sem við munum vonandi nýta í aukin samskipti við okkar nánustu. Loftmengun minnkar loksins vegna minni umferðar sem er jákvætt. Við munum ferðast af meiri skynsemi og kunna betur að meta lifandi tónlist, leiklist og aðrar samkomur sem eru bannaðar núna.

Árið 1962 sagði John F. Kennedy forseti að „það sem helst tengir okkur saman er að við öll byggjum þessa litlu jörð og við öndum öll að okkur sama loftinu. Svo er okkur er öllum jafn annt um hamingju barnanna okkar“.

Það sem ég hlakka mest til þegar ógnin er horfin er að geta faðmað börnin og barnabörnin mín aftur.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 26. mars 2020