Landsþingi Viðreisnar 2020 frestað

Í ljósi þeirrar óvissu sem skapast hefur eftir að smit vegna COVID-19 veirunnar greindust hér á landi, hefur stjórn Viðreisnar ákveðið að fresta Landsþingi flokksins sem átti að fara fram dagana 14. og 15. mars. Stefnt er að því að Landsþing fari þess í stað fram í haust og verður ný tímasetning auglýst síðar.

Undanfarna mánuði hefur farið fram mikil vinna í málefnanefndum Viðreisnar til undirbúnings Landsþings. Við viljum halda áfram með þá vinnu og draga hana fram til almennrar umræðu á vefþingi sem Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar og Þorsteinn Víglundsson, varaformaður Viðreisnar, munu leiða. Dagsetning vefþingsins verður kynnt í vikunni.

Viðreisn hefur reynslu af reglubundnum og opnum málefnafundum á netinu. Hana viljum við nýta m.a. til að ræða vinnu málefnanefndanna á vefþingi sem verður opið öllum. Hægt verður að taka þátt í umræðunni á öllum samfélagsmiðlum Viðreisnar; Facebook, Instagram og Twitter.

Margir hafa þegar skráð sig á Landsþingið og greitt skráningargjald. Sú skráning mun gilda þegar stjórn boðar að nýju til Landsþings. Þeir sem vilja fá skráningargjaldið endurgreitt geta sent póst á vidreisn@vidreisn.is með upplýsingum um nafn, kennitölu og reikningsnúmer.

Við munum halda áfram að nýta tímann fram að Landsþingi til að skerpa á stefnu okkar til að gera íslenskt samfélag enn betra. Við hvetjum alla félagsmenn til að taka þátt í því starfi á vettvangi Viðreisnar.