14 maí Ekkert pukur með styrki
Ríkið það er ég – er haft eftir Loðvík 14. konungi Frakka. Það var í þá tíð þegar einvaldar þáðu vald sitt frá guði og réðu lögum og lofum í bókstaflegri merkingu.
Nú er nær lagi að segja – Ríkið það erum við. Valdhafar stjórna í umboði okkar allra og í krafti þess deila þeir út gæðum, réttindum og skyldum, í nafni ríkisins samkvæmt þeim leikreglum sem við höfum sett þeim með lýðræðislegum leikreglum.
Hjálparhönd ríkisins
Við höfum ákveðið að úr sameiginlegum sjóðum okkar séu veittir styrkir af ýmsu tagi til margs konar starfsemi og rekstrar. Við höfum ákveðið að stíga stór skref í þessum efnum til þess að draga úr alvarlegum efnahagslegum afleiðingum COVID-19.
Kastljósið beinist að mikilvægi þess að fullkomið gagnsæi ríki um hverjir njóta ríkisstyrkja og af hvaða tilefni. Í fortíð hefur það verið feimnismál og hjúpað leynd þegar ríkið hefur veitt styrki, a.m.k á sumum sviðum. Sem betur fer hafa orðið framfarir og viðhorfsbreyting í þá veru að leyndarhulu skuli svipt í burtu.
Engin fyrirstaða birtingar
Nýjustu dæmin um þetta eru annars vegar upplýsingar sem landbúnaðarráðuneytið sá sig knúið til að leggja fram um styrki til bænda í svari við fyrirspurn minni á Alþingi, reyndar hafði þar úrslitaáhrif úrskurður Úrskurðarnefndar upplýsingamála. Afleiðingin er sú að í fyrsta sinn hafa allir landsmenn aðgang að sundurliðuðum upplýsingum eftir styrkþegum og tegund styrkja. Hins vegar má nefna glænýtt bréf Persónuverndar til Vinnumálastofnunar um birtingu upplýsinga um þau fyrirtæki sem hafa farið svokallaða hlutabótaleið sem segir að persónuverndarlög standi ekki í vegi fyrir slíkri birtingu.
Bæði Úrskurðarnefnd upplýsingamála og Persónuvernd leggja mikla áherslu á að ríkir almannahagsmunir standi til þess að upplýsingar um úthlutun efnahagslegra gæða séu aðgengilegar.
Í bréfi Persónuverndar, dagsettu 12. maí segir m.a:
„Persónuvernd telur að leggja verði til grundvallar að almannahagsmunir standi til þess að upplýsingar um þau fyrirtæki sem hafa starfsmenn, sem sótt hafa um bætur hjá Vinnumálastofnun á grundvelli XIII. ákvæðis til bráðabirgða í lögum nr. 54/2006, verði gerðar aðgengilegar. Í því sambandi athugast að miklir efnahagslegir hagsmunir eru bundnir við greiðslu bóta samkvæmt ákvæðinu. Þá verður að telja að slíkur aðgangur geti skapað aðhald fyrir fyrirtæki sem kjósa að minnka starfshlutfall starfsmanna sinna, með það fyrir augum að þeir fái bætur á grundvelli ákvæðisins. “
Í úrskurði Úrskurðarnefndar í máli 876/2020 vegna styrkja til landbúnaðar segir:
„Það er mat úrskurðarnefndarinnar að þrátt fyrir að upplýsingarnar varði greiðslur til lögbýla og þar með fjárhagsmálefni þeirra sem þiggja greiðslur vegna sauðfjárræktar verði ekki talið að upplýsingarnar gefi slíka innsýn í fjármál þeirra sem að rekstrinum standa að rétt sé að takmarka aðgang að upplýsingum um þær og víkja þannig til hliðar upplýsingarétti almennings um ráðstöfun opinberra fjármuna.“
Traust og aðhald
Alþingi fer með fjárveitingarvaldið og setur lögin. Það hefur ákveðið að opna fjárhirslur ríkisins, okkar sameiginlegu sjóði, til þess m.a. að veita veigamikinn fjárstuðning og fyrirgreiðslu til fyrirtækjanna í landinu, stuðning sem ríkið eitt getur veitt.
Krafa okkar á að vera skýlaus og fortakslaus. Birta á allar upplýsingar og þær eiga að vera aðgengilegar öllum og auðveldar til leitar og aflestrar. Þannig sköpum við traust og nauðsynlegt aðhald og vitum hverjir fá stuðning og hvers vegna. Einu gildir hvort um er að ræða brúarlán, lokunarstyrki, stuðningslán, hlutabótaleið eða greiðslu launa í uppsagnarfresti.
Ríkisstjórninni er ekkert að vanbúnaði að gefa út fyrirmæli þessa efnis til allra þeirra sem ráðstafa opinberum fjármunum til stuðnings fyrirtækjum. Það geta ekki verið hagsmunir neins að leynd ríki um viðtöku ríkisstuðnings, hvorki fyrirtækjanna né almennings.
Höfundur er þingmaður Viðreisnar.