Hvaða flokkar eru það?

Benedikt Jóhannesson

Margir halda að ógn steðji að íslenskum landbúnaði ef þjóðin fær fulla aðild að Evrópusambandinu. Um það er ekki deilt að búskaparhættir munu breytast. Oft virðist samt gleymast að sú þróun hefur staðið býsna lengi og orðið til bóta.

Vilhjálmur Bjarnason skrifaði í Morgunblaðið síðastliðinn föstudag: „Stjórnmálaflokkar kunna að vera í afleitri stöðu þegar þeir hafa byggt tilveru sína á sérhagsmunum og úthlutun gæða. Þegar almennar reglur eru innleiddar verður sértæk úthlutun næsta lítils virði. …

Alla liðina öld var reynt að viðhalda óbreyttu ástandi í sveitum, með nýbýlalögum og Marshallaðstoð, með dráttarvélum og sérúthlutun á jeppum. Hver er árangurinn? Beingreiðslur og fátækt. Aðlögun sem aðeins hefur skilað eymd.“

Þór heitinn Vigfússon, skólameistari á Selfossi, var alinn upp í sveit og lærði í Austur-Berlín. Varaþingmaður og borgarfulltrúi Alþýðubandalagsins [sem var þjóðernissinnaður íhaldsflokkur með sósíalísku yfirvarpi, líkt og VG nú] og trauðla einn af forkólfum nýfrjálshyggjunnar. Í þættinum Út og suður í sjónvarpinu 28. júní 2009 talaði hann um mjólkurframleiðslu í Ölfusi:

„Ölfusið er einhver besta sveit til hefðbundins búskapar á Íslandi. Feykilega landmikil jörð, grasgefin og það er nóg af heitu vatni og köldu vatni. Þegar Jarðabókin fræga var gerð árið 1707 voru 90 býli í Ölfusinu, fleiri en í nokkrum öðrum hreppi. Árið 1960 eru í Ölfusinu 62 mjólkurframleiðendur og hafa aldrei verið fleiri í nokkrum hreppi á Íslandi.

Svo hefur framþróunin verið hraðari en nokkru sinni fyrr og fyrir ellefu árum gerði ég sérstaka könnun á því hvað það væru margir mjólkurframleiðendur í Ölfusinu. Þá voru þeir fjórir. Þá var komið mjög til siðs að koma upp gistihúsum allskyns með alls konar veitingum og það vildi svo til að í Ölfusinu voru fjórir barir.

Núna er einn mjólkurframleiðandi í Ölfusinu, raunar með margar kýr og framleiðir mikið af mjólk, bar á öllum öðrum bæjum og margir barir á sumum. Svona er þetta. Afkoma Ölfusinga hefur aldrei verið betri. Þetta er svolítið merkilegt.“

Íslendingar mikla oft fyrir sér breytingar, en gleyma að hugsa hvort það sem við tekur sé kannski miklu betra. Á sínum tíma greiddu sumir þingmenn atkvæði á móti litasjónvarpi. Sala á bjór var margfelld í þinginu. Þúfnabaninn var tæki sem sléttaði tún. Margir bændur voru mikið á móti honum vegna þess að yfirborð þýfðra túna væri stærra en sléttra.

Sá sem hefði sagt Ölfusingum það árið 1960 að afkoma þeirra yrði miklu betri ef mjólkurbúskapur legðist nánast af hefði verið talinn geggjaður.

Vilhjálmur segir undir lok greinar sinnar: „Stjórnmálaflokkar sérhagsmunanna deyja þegar þeir hafa ekki gæði til úthlutunar. Stjórnmálaflokkar með leiðtoga sem hafa óljósar hugsjónir deyja líka.“

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 11. mars 2020