Jenný Guðrún nýr framkvæmdastjóri

Jenný Guðrún Jónsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Viðreisnar. Jenný er menntaður kennari, hefur próf í verðbréfamiðlun og er í stjórnunarnámi. Hún starfaði í tæpan áratug í fjármálageiranum, síðast sem rekstrarstjóri.

Jenný tók þátt í stofnun Viðreisnar og hefur gegnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir flokkinn. Hún sat í fyrstu stjórn Viðreisnar, hefur leitt málefnastarf og setið í uppstillinganefnd. Þá starfaði hún sem framkvæmdastjóri Viðreisnar í afleysingum í tæpt ár 2018-2019.

„Það gleður mig að fá að leggja Viðreisn til starfskrafta mína á ný. Hjartað slær fyrir Viðreisn og stefnu flokksins sem miðar að því að skapa hér réttlátt og efnahagslega stöðugt samfélag, þar sem almannahagsmunir ráða för og frelsi og jafnrétti eru í forgrunni,“ segir Jenný Guðrún.

Hagvangur leiddi opið ráðningarferli fyrir stjórn flokksins og bárust 44 umsóknir um starfið.

„Það var ánægjulegt að sjá hversu margir hæfir einstaklingar vilja leiða okkar frjálslynda starf og brenna fyrir því að Ísland sé opið og réttlátt samfélag. Það var einróma ákvörðun stjórnar Viðreisnar að fara að tillögu ráðningarnefndar og Hagvangs um ráðningu Jennýjar Guðrúnar. Fyrir hönd stjórnar býð ég hana innilega velkomna til starfa,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar.