Það sem ekki má segja

Þorsteinn Pálsson

Í umræðum um getu þjóðarbúsins til viðspyrnu tala stjórnvöld aftur á móti einungis um þann styrk, sem þau telja að Ísland hafi umfram önnur lönd. Nefna má nokkur dæmi þar sem hálf sagan er sögð:

1. dæmi

Stjórnvöld stappa stáli í fólk með því að endurtaka að styrkleiki Íslands umfram önnur lönd felist í miklum gjaldeyrisforða og lágu skuldahlutfalli ríkissjóðs. Þetta er í sjálfu sér rétt.

Hitt er að þessi sterka staða er að stórum hluta til orðin vegna þess að erlendir kröfuhafar voru þvingaðir til að gefa upp skuldir þrotabúa. Hún skýrist því aðeins að hluta til með innri styrk hagkerfisins. En þetta má ekki segja.

2. dæmi

Þá er staðhæft að Ísland sé betur sett en önnur ríki til að mæta kreppu því Seðlabankinn hafi svigrúm til að lækka vexti, sem Seðlabanki Evrópu hafi ekki. Þetta er rétt svo langt sem það nær.

En hér má ekki horfa fram hjá því að stór hluti þjóðarbúskaparins er á höndum fyrirtækja, sem ekki eru í krónuhagkerfinu. Vextir af erlendum lánum þeirra ráðast af stjórn peningamála í Evrópu og Bandaríkjunum. Þetta má ekki segja.

Þá verður Seðlabankinn að halda vöxtum hærri hér en í viðskiptalöndunum til þess að halda uppi verðgildi krónunnar. Síðustu vaxtalækkanir breyta þessu ekki. Samkeppnisstaða lítilla og meðalstórra fyrirtækja í krónuhagkerfinu verður því áfram lakari en annarra af þessum sökum. Þetta má ekki segja.

3. dæmi

Enn fremur er sagt að Ísland sé betur sett en aðrar þjóðir til að hlaupa undir bagga með atvinnulífi og fjölskyldum af því að ríkissjóður skuldi hlutfallslega lítið í alþjóðlegum samanburði. Þetta er rétt að hluta. En hér skipta vextirnir mestu máli.

Þrátt fyrir lækkun vaxta þarf ríkissjóður Íslands samt að borga hærri vexti en ríkissjóðir annarra landa. Þetta þýðir að hlutfall ríkisskulda hér þarf að sama skapi að vera lægra en annars staðar til þess að vaxtagreiðslur skerði ekki getuna til þess að halda uppi sambærilegu velferðarkerfi.

Eftir kreppuna 2008 var hlutfall vaxtakostnaðar ríkissjóðs til að mynda helmingi hærra en í Grikklandi þó að skuldahlutfallið hafi verið helmingi lægra. Þetta má ekki segja.

4. dæmi

Sagt er að Ísland standi betur að vígi en aðrar þjóðir fyrir þá sök að unnt sé að auka gjaldeyristekjur með því að láta gengið hrynja. Þetta á við um ferðaþjónustuna og er því að hluta til rétt.

Veruleikinn er aftur á móti sá að fall krónunnar eykur ekki gjaldeyrisöflun sjávarútvegs og orkufreks iðnaðar, sem skapa rúmlega helming gjaldeyristeknanna. Náttúrulegar skorður ráða því. Þetta skýrir meðal annars að eftir 2008 tók útflutningur fyrr við sér á Írlandi en hér þrátt fyrir stöðugt gengi evrunnar og hrun krónunnar. Þetta má ekki segja.

5. dæmi

Þá gefa stjórnvöld fyrirheit um að hér megi reka ferðaþjónustu í sama umfangi og verið hefur. Það er ugglaust rétt. En til þess þarf væntanlega að færa gengi og kaupmátt til baka um mörg ár.

Jafnframt eru gefin fyrirheit um að viðhalda megi óbreyttu lífskjarastigi. Það er ugglaust rétt. En til þess að svo megi verða þarf að byggja upp alþjóðlegan þekkingariðnað, sem þolir hátt gengi en krefst sama gengisstöðugleika og ríkir á stóru myntsvæðunum.

Klípan er sú að ekki er unnt að uppfylla bæði fyrirheitin samtímis. Það má ekki segja.

Veikleiki og styrkleiki

Sannarlega er það eitt mikilvægasta hlutverk stjórnvalda við ríkjandi aðstæður að ala á bjartsýni og trú á getu þjóðarbúsins. En hættan á mistökum eykst ef menn draga ekki hvort tveggja fram í dagsljósið, veikleikana og styrkleikana

Á endanum getur það líka grafið undan trausti.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 1. maí 2020