Karakterinn kemur í ljós

Um daginn þegar ég horfði út um gluggann við Garðatorg og sá fullorðinn karlmann skilja innkaupavagninn úr Bónus eftir við bílinn sinn töluvert langt frá búðinni, rifjaðist upp fyrir mér málsháttur sem ég heyrði fyrir nokkrum árum sem er hafður eftir C.S. Lewis, rithöfundi frá Írlandi: „Heiðarleiki er að gera hið rétta, líka þegar enginn sér þig gera það“. Annar þekktur fræðimaður sagði að „manngerðin þín (karakterinn) kemur í ljós þegar enginn er að fylgjast með þér“.

Daglega getum við öll sýnt manngerðina okkar í verki. Við gerum það þegar við virðum rauð ljós á gatnamótum, ökum á löglegum hraða og fleygjum ekki rusli út í náttúruna. Við sýnum karakterinn með því að ganga vel um almenningssvæði og skila innkaupavögnum aftur í búðina. Á ferðalagi um landið í sumar hef ég oft fylgst með ferðafólki sem virðir göngustíga og fleygir ekki rusli á víðavangi, líka þegar það tók ekki eftir því að ég var að fylgjast með. Flestir sýna með jákvæðum hætti hvað í þeim býr, líka þegar enginn til vitnis um það.

Meira um manngerð og mennsku. Í nýlegu viðtali við Höllu Tómasdóttur sagði hún að karakter bæði leiðtoga og þjóða komi fram á krísutímum. Halla segir að „með mennskuna í fyrirrúmi mun heimsbyggðin komast saman í gegnum þennan heimsfaraldur sem kórónaveiran er“.

Næst þegar þú ert að fara með vörurnar í bílinn þinn með innkaupavagni, hvet ég þig til að skila vagninum. Mundu að karakterinn þinn kemur einmitt í ljós í slíkum tilvikum og að einhver gæti verið að fylgjast með þér af svölunum! Bónusvagninn sem ég sagði frá áðan rann stuttu síðar á kyrrstæðan bíl og hefur líklega rispað hann. Maðurinn hefði getað sýnt betri karakter.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 16. júlí 2020